06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

6. mál, einkasala á tóbaki

Bjarni Jónsson:

Háttv. þingsveinn S.M. (Sv. Ó.) vildi vorkenna mjer einum manna, ef tóbaksins misti við í landinu. En honum er óhætt að fara fram skynsamlega í þessu máli; jeg mun þar ekki leggja stein í götu hans.

Annars furða jeg mig á því ofurmagni fjármálavits, sem fram hefir komið hjer í þinginu í því, meðal annars, að vilja banna innflutning til landsins á súkkulaði og ávöxtum, sem er viðurkend sjúkrafæða, og gera það til sparnaðar, en vilja þó í sömu andránni setja upp verslun með tóbak og brennivín, til þess að græða á.

Því fje, sem til þeirrar verslunar er lagt, er þó sannarlega ekki varið til framleiðsluauka eða gjaldeyris fyrir landið. Úr því hvorugu mun rætast, þótt menn reyki og drekki í landinu.

Jeg get því ekki verið með þessu frv., og síst nú. En hvað seinna kann að verða, þegar hagur landsins breytist — um það skal jeg ekkert segja nú. En úr því stjórnin sá ástæðu á annað borð til þess að banna inuflutning á ýmsum vörutegundum, þá var sjálfsagt að taka tóbakið þar með, því að það er svo stórvægilegur liður, að hann einu hefði getað vegið á móti allri runu stjórnarinnar. Og það var rjett. En hitt getur ekki gengið, með heilu viti og heilum sóma, að stjórnin taki í sínar hendur sölu á þessum höfuðóþarfa nú, til þess að græða á honum.

Jeg skal ekkert um það segja, sem háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) hjelt fram, að tekjur landssjóðs eigi að koma af verslun. Jeg veit, að hans flokkur hallast að því, að atvinnurekstur dragist sem mest í hendur ríkisins. En af því leiðir þó ekki, að ríkið eigi nú að taka í sínar hendur slíkan atvinnuveg sem þennan, er orkað getur tvímælis um, hvort talist geti sómasamlegur, undir þeim kringumstæðum, sem nú eru fyrir hendi. Þetta nægir mjer, að minsta kosti, til þess að vera á móti frv.

Jeg hygg, að ef það er rjett, sem heyrst hefir, að mjög erfiðlega gangi að senda póstávísanir til nauðsynlegra greiðslna í útlöndum, og að svo þröngt sje um gjaldeyri, að þurft hafi að fá umlíðan hjá erlendum póstsjóði, þá hygg jeg, segi jeg, að annað sje nær en að binda fje landsins í tóbaki og brennivíni. Öðru máli væri að gegna, ef hjer væri um bjargráð að ræða og fjenu varið til matvörukaupa í neyð. En að binda nú fje í tvísýnt gróðafyrirtæki, nær engri átt, ef þessar sögusagnir eru sannar, sem jeg áðan gat um.

Jeg veit ekkert um, hvort landsverslunin muni halda áfram, og skal engu spá í því efni. En ef það yrði að ráði, að hún hjeldist enn, þá hygg jeg þó, að varla geti komið til mála að binda í henni meira fje en nú er þar.

Jeg held því að háttv. þingsveinn S.-M. (Sv. Ó.) megi breyta skoðun í þessu máli, og láta þar rjett rök ráða, en ekki hlífð eða brjóstgæði við mig eða aðra háttv. þm.