06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

6. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Jeg bjóst að vísu ekki við löngum umræðum um dagskrána. En þó er jeg þakklátur bæði hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) fyrir ummæli þeirra. Ræður þeirra upplýstu málið talsvert, umfram það, sem áður var.

Mjer kom það í rauninni alls ekkert á óvart, að háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) væri einkasölufrv. fylgjandi. enda þótt hann hefði slíkt ekki mjög á oddi í janúar síðastliðnum. Jeg býst einnig við, að hann sje því fylgjandi, að tóbakseinokunin verði ein deild landsverslunarinnar, því að hann mun vilja halda landsversluninni áfram.

En jeg efast hins vegar um, að allir háttv. þingmenn hafi búist við því, að afstaða hv. 1. þm. S.-M, (Sv. Ó.) til þess máls væri af sama toga spunnin. Það hefir ekki komið fram enn þá, svo mjer sje kunnugt, að landsverslunin eigi endilega að halda áfram. En til þess, að kostnaðaráætlun þessa háttv. þm. (Sv. Ó.) geti staðist, þá verður hann að ganga út frá því, að sú verslun haldist framvegis. Og þá er það alveg rjett, að útgjöldin sparast. En það, sem jeg talaði um þetta mál við 2. umr., bygði jeg á því, að tóbakssalan yrði rekin sem sjerstakt fyrirtæki, án nokkurs tillits til þess, hvort landsverslunin heldur áfram eða ekki.

Þessi háttv. þm. (Sv. Ó.) talaði og um það við 2. umr., að sem rekstrarfje mætti taka varasjóð landsverslunarinnar, með að eins 50 vöxtum. En þótt hægt væri að fá fjeð með þessum kjörum, þá verða vextirnir samt í raun og veru hærri. Þm. (Sv. Ó.) veit vel, að ríkissjóður skuldar fje, sem hann þarf að greiða af hærri vexti. Þetta fje gæti ríkissjóður greitt með varasjóðnum, og sparað sjer með því mikið fje. Það er því alveg það sama og ríkissjóður láni landsversluninni fjeð með hærri vöxtum.

Jeg sagði, að ef ríkið leggur í þetta fyrirtæki, þá mundi tóbaksinnflutningur síðar verða takmarkaður. Og jeg þykist ekki hafa slegið því fram út í bláinn. Stjórnin hefir nú samið skrá yfir óþarfar vörur, er hún bannar innflutning á, en á þeirri skrá eru engar tóbakstegundir taldar með. Þykir mjer ekki ósennilegt, að þetta standi að einhverju leyti í sambandi við það, að ríkinu er ætlað að taka sölu á þessum varningi í sínar hendur.

En setjum nú svo, að stjórnin fallist að því að takmarka tóbaksinnflutninginn, t. d. með því að flytja ekki inn vindla og vindlinga, ja, þá mundi líka hagnaðurinn af versluninni minka nærri um helming. Má greinilega sjá það af aths. við stj.frv., og gengið er þar út frá þeirri álagningu, sem ráðgerð er í frv.

Verða þá eftir, af þessum ráðgerða hagnaði af fyrirtækinu, einar 100 þús. krónur brúttó. Og sýnist mjer þá að minsta kosti lítið girnilegt að ráðast í fyrirtækið.

Það er annað mál, ef brúka á tóbaksverslunina til að fleyta landsversluninni yfir einhverjar torfærur, ef menn eru hræddir um, að hún standi höllum fæti, og liggi lífið á að bjarga henni. Því að ef tóbakssölufrv. verður samþykt, þá væri landsverslun haldið áfram að nokkru leyti, og þá yrði hægt, þegar betur bljesi, að bæta fleiri vörum við.

Jeg hafði ekki hugsað mjer að fara neitt út í þá sálma, hvort landsverslun skuli haldið áfram eða ekki, en að eins rökstyðja þá dagskrá, sem jeg hefi fram borið, á þeim grundvelli, að undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, sje sú stefna ekki rjett, þegar heftur er innflutningur á öðrum vörum, að gera tóbaksverslunina að gróðafyrirtæki ríkissjóðs, hvað sem annars kynni að verða ofan á um landsverslunarstefnuna.