17.02.1921
Neðri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

Kosning fastanefnda

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) kvað þessa afbrigðaumleitun hafa komið fram á 11. stundu, en jeg vil geta þess, að hún gat alls ekki komið fram fyr. (E. E.: Það var engin ásökun í því fólgin!). Það skiftir ekki máli, hvort þetta var meining háttv. þm. Jeg sje ekki, að neitt mæli á móti því, að 7 menn verði kosnir nú í nefndina með afbrigðum frá þingsköpunum, því að það hefir viðgengist að kjósa 7 menn í samgöngumálanefnd, þótt 5 menn eigi að skipa þá nefnd samkv. þingsköpunum. Til þess er heimild gefin til afbrigða frá þingsköpunum, að hún sje notuð þegar henta þykir. Jeg skil það, sem háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að þingmenn væru óráðnir í því, hverja skyldi kjósa í viðbót í nefndina, og jeg styð því tillögu hans, að kosning í þessa nefnd verði skotið á frest, og vænti þess, að hæstv. forseti taki það til greina.

Bankamálin hafa ávalt verið í höndum fjárhagsnefndar, og það var með það fyrir augum að jeg stakk upp á 7 manna nefnd. Mjer skilst á háttv. þm. Ak. (M. K.) og háttv. 1. þm. Árn. (E. E.)l að þeir sjeu mjer sammála í því, að nefndina þurfi að skipa 7 mönnum, en að eins verði að skjóta kosningunni á frest, svo að þm. vinnist tími til að tala sig saman um, hverjir skuli eiga sæti í nefndinni. (M. P.: Til þess þarf líka afbrigði frá þingsköpunum). Jeg er alls ekki hræddur við afbrigði frá þingsköpunum. Aðalatriðið er hjer það, að mjer skilst, að þessir háttv. þm. fallist á þá tillögu mína, að rjett sje að nefndin verði skipuð 7 mönnum.