06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

6. mál, einkasala á tóbaki

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg get verið stuttorður, og sje heldur ekki ástæðu til að ræða þetta mál mikið nú, þar sem svo mikið var talað um það við 2. umr.

Mjer kemur það undarlega fyrir, að háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) skuli mæla með innflutningshöftum á þessari vörn. Jeg veit ekki betur en að háttv. þm. (Jak. M.) sje flutningsmaður að frv., sem fer fram á, að öll innflutningshöft verði afnumin.

Jeg skal annars benda á það, að tekjur frv., hvort sem menn hugsa sjer þær með tolli eða einkasölu, verða að engu, ef bannaður er innflutningur á tóbaki. (J. P.: Til hvers er þá verið að stofna til fyrirtækisins?) Það verður ekki stofnað til þess, ef bannaður yrði innflutningur á tóbaki. Jeg hjelt, að háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) áliti stjórnina ekki svo vitlausa, að fara að stofna embætti svona út í bláinn.

Menn blanda hjer altaf saman landsversluninni og einkasölunni, og ætti að vera óþarft að endurtaka það, að þetta mál skiftir landsverslunina ekki neinu; þetta er bara fundið upp til að spilla fyrir frv.

Út af orðum háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) skal jeg taka það betur fram en síðast, að flestir þingmenn, aðrir en hann, hafa borið þetta mál undir kjósendur sína, og þó að jeg vilji taka mikið tillit til hans og Rangæinga, þá finst mjer, að hann hefði getað látið það bíða að halda þingmálafund með þeim, þangað til frv. kom, sem mun hafa verið í des. f. á., eða þá haldið aukafund með þeim, þar sem um svona mikilsvarðandi mál var að ræða.

Hann talaði líka um, hversu erfitt væri að geyma vindla. Jeg hefi oft geymt vindla lengi, og get lofað háttv. þm. (Gunn. S.) því, að hann skal ekki fá myglaða vindla, þegar hann fer að kaupa einkasöluvindla.

Um það, að fá yrði mann, sem vanur væri vindlaverslun, er það að segja, að ekki er annar vandinn en að ráðgast við hann um valið á manninum, og ef hann gæfi einhverjum meðmæli, þá væri sjálfsagt að taka hæfilegt tillit til þess.