06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

6. mál, einkasala á tóbaki

Jón Baldvinsson:

Mjer heyrðist háttv. samþm. minn, 1. þm. Reykv. (Jak. M.), láta þau orð falla, að það liti svo út, sem jeg væri á annari skoðun nú en í janúarmánuði. Því er til að svara, að jeg minnist þess ekki að hafa þá sagt neitt um þetta mál. Þá var aftur á móti mikið talað um landsverslun alment, og því haldið fram, að hún ætti að starfa áfram í frjálsri samkepni við kaupmenn, til þess að vinna sjer álit meðal þjóðarinnar og sýna það, að hún þyrfti ekki að nota sjer einkasöluheimildir, til þess að geta staðist samkepnina. Hjer er um alt annað að ræða. Engum myndi detta í hug, að landið færi að halda uppi samkepnisverslun með tóbak, til þess að landsmenn fengju það með lægra verði. Ef við þeirri verslun er hreyft af ríkinu, þá hlýtur það að vera með því að taka einkasölu á tóbaki, til að afla ríkissjóði tekna.

Það er því alt annars eðlis en ef landsverslunin hjeldi áfram með verslun á nauðsynjavörum í frjálsri samkepni, eins og verið hefir, til þess að halda niðri verði, og er það í fylsta samræmi við það, sem jeg hefi áður sagt um það mál.

Jeg ætlaði ekki að gera neinn samanburð á mönnum þeim, er stjórna landsversluninni núna, en gerði að eins þá almennu athugasemd, að það væri mikið undir því komið fyrir fyrirtækið, að hæfir menn veldust til að stjórna því.