06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

6. mál, einkasala á tóbaki

Sveinn Ólafsson:

Jeg vil ekki tefja umr. og ætla þessvegna ekki að svara öllu því, sem að mjer hefir verið varpað, eða gegn frv. sagt. Jeg tel það ekki þess vert. Það er ljóst, að sumar ræður, sem hjer hafa verið haldnar, sjerstaklega ræður háttv. 1. og 4. þm. Reykv. (Jak. M. og M. J.), eru haldnar vegna kjósenda, og eiga að færa þeim heim sanninn um það, að þm. verji hagsmuni þeirra.

Það hefir ýmislegt komið fram, sem virðist mæla á móti niðurstöðu nefndarinnar, svo sem það, að nú verði að takmarka innflutning, og rýrni þá tekjur af tóbakssölunni við það. Það er rjett að minna á það, að þegar lög eru sett, er gert ráð fyrir, að þau gildi til margra ára, en innflutningshöft og aðrar tálmanir, sem nú kunna að verða gerðar á viðskiftum, standa að eins stutta stund. Jeg get ekki sjeð, að það hafi mikla þýðingu fyrir haldkvæmi frumvarpsins, þótt tekjurnar rýrnuðu um nokkra mánuði, vegna takmarkaðs innflutnings. Þær mundu vaxa aftur þegar hömlurnar væru leystar. Auk þess vil jeg benda á það, að lögin eiga ekki að ganga í gildi fyr en 1922, og má þess því vænta, að ekki dragi innflutningshömlur úr tekjunum, því að líklegt er, að takmörkunum verði lokið þegar verslunin byrjar, ef eitthvað óvænt er ekki í aðsigi.

Það hefir verið um það rætt, að viðurlitamikið væri að festa fje landsins í tóbaksverslun, þegar gjaldeyrisskortur væri og þarfir ríkissjóðs miklar. Þetta umtal hefði við rök að styðjast, ef ekkert eða lítið fengist í aðra hönd, en þegar þess er gætt, að þetta fje ber ágæta vexti, verða ummælin veigaminni. Fjeð, sem fest verður, nemur auk þess ekki miklu, því að tóbaksverslun þarf ekki mikið rekstrarfje, og hefi jeg fært líkur fyrir því við 2. umr.

Jeg sje, að háttv. þm. Dala. (B. J.) er ekki nærverandi, enda er hann vanur að vera ókyr í sætinu. Jeg vildi minna hann á það, að á honum situr síst að tala um þessa fjáreyðslu, eða að fest sje óhóflega mikið fje. Hann hefir aldrei verið nein fyrirmynd um meðferð fjár úr ríkissjóði. Jeg man ekki betur en að hann vildi taka 10– 20 miljón kr. lán 1917, til þess að láta landssjóð kaupa og hagnýta vatnsrjettindi fyrir austan heiðar. Jeg vil ekki fást um það, þótt hann hreyti að mjer óvirðingarorðum og óþinglegum slettum; slík titlatog eru vanaleg af honum, því að hann telur sjer alla ósvinnu heimila, en á þessu tekur enginn mark, enda hefir forseti vítt þetta.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) taldi hroll, sem komið hefði í sig og aðra við þetta mál. Það getur verið, að hann sje kulsælli en aðrir þm., og fer það að líkum, en hrollinn hefi jeg eigi sjeð á öðrum deildarmönnum. Hjer hafa verið lík einkasölumál á ferðinni áður, á stríðsárunum, og hefir þessa hrolls aldrei orðið vart fyrri. Sami háttv. þm. (M. J.) sagði, að verið væri að gera vissasta tekjuliðinn óvissastan, en það eru víst fáir, sem líta eins skökkum augum á það eins og háttv. þm. (M. J.). Ef þessi tóbakssala verður óviss, þá er mörgu hætt. Yfirleitt hefir einkasala ekki reynst svo, heldur þvert á móti, og hefir það berlega komið í ljós á stríðsárunum, og sjerstaklega hjá þeim, sem haft hafa einkasölu án lagaheimildar, hafa sölsað hana undir sig, vegna sjerstakrar aðstöðu eða erfiðleika annara, og beitt henni af lítilli nærgætni við almenning.

Háttv. þm. (M. J.) taldi, að með frv. yrði opnuð leið að okri, og gaf í skyn, að stjórnin mundi haga sjer svo. Hann kallaði líka tóbaksverslunina einokun. Jeg skil við orðið einokun þjakandi og ósanngjarnleg viðskifti. En að væna stjórnina þess, að hún misbeiti heimildinni í einkasölulögunum, til þess að kúga eða þjaka skiftavini sína, virðist vera harla djarft og varla sæmilegt. Jeg vil minna háttv. þm. (M. J.) á það, að takmörk fyrir álagningu eru sett í frv.; stjórnin má ekki leggja minna á en 25%, og ekki meira en 75%. Hjer eru skorður, sem hv. þm. (M. J.) hefir ef til vill ekki tekið eftir, enda hættir honum við að tala stundum áður en hann hugsar, eða að kríta ofurlítið liðugt. Þessi álagning er smámunir einir, í samanburði við álagningu, sem þekst hefir hjer undanfarið á ýmsum vörum. Það er ómótmælanlegt, að hún hefir ekki að eins verið 100– 150%, heldur jafnvel í stöku tilfellum 500–600% á stríðsárunum.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða frekar; jeg stóð upp af því, að jeg var til þess neyddur, og ef til vill verð jeg að standa upp aftur síðar, ef háttv. þm. halda áfram mótmælum sínum.