06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

6. mál, einkasala á tóbaki

Magnús Jónsson:

Jeg var hissa á því, að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) skyldi fara að tyggja hjer sömu tugguna, og hv. þm. Ak. (M. K.) hefir áður japlað á, um kjósendaræður. Það má alt af slá þessu fram, en það er orðið heldur dauft, því að slagorðið er farið að eldast og ganga í barndómi. Það er ekki nema eðlilegt, að þm. , haldi fram sömu skoðun á þingi og fyrir þing, og ber sjerstaklega á því þegar kosningar eru nýafstaðnar. Jeg heyri háttv. þm. skírskota oft til vilja þjóðarinnar eða jafnvel hreppanna, og eru það ekki síður kjósendaræður, og jeg efast um, að hreppapólitíkin sje veglegra form fyrir kjósendaræðum en önnur.

Þá vík jeg mjer að málinu sjálfu. Það er látið í veðri vaka, að þetta sje bjargráðaráðstöfun. Það munu fáir halda því fram í alvöru, að frv. sje fram komið til þess að birgja landið af nauðsynjavöru; tilgangurinn er gróði, kaupmannshagnaður. Frv. á því ekkert skylt við bjargráðaráðstöfun.

Ummælum mínum um vissar eða óvissar tekjur má svara með því að fara í kringum sjálfan sig. Tekjurnar eru vitanlega vissar ef selt er nógu dýrt, en ef verðinu er haldið nákvæmlega innan þeirra takmarka, sem í frv. eru sett, verða þær óvissar, ef miða má við það, hvernig gengið hefir í frjálsri samkepni, og verður einkasalan varla happadrýgri. Það má ekki miða við það, hvað einstaka menn hafa okrað á stríðsárunum, og taka það fyrir mælikvarða á verslunarstjett landsins. Það eru alt af misjafnir sauðir í mörgu fje, og þeir nota sjer neyðina til að okra. Það er alt af hægt að telja fram slík dæmi, en þau sanna ekkert, af því þau eru undantekningar, eins og t. d. spilin, sem seld voru á 20 kr., af því þau fengust ekki í öðrum stöðum. Jeg vil ekki fara út í þetta nánar, en það má altaf hampa einokun, á kostnað frjálsrar samkepni, með öfgadæmum.

Allir eru sammála um þarfir ríkissjóðs, en jeg held, að tollurinn sje vissari tekjugrein, og varan verði auk þess ódýrari.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) bar það upp á mig, að jeg hefði haft í frammi ósæmilegar aðdróttanir í garð stjórnarinnar, en því verð jeg að mótmæla. Jeg gat þess til, að reynt mundi verða að beita álagningu á fremsta hlunn, og tel jeg það afsakanlegt fyrir fjármálaráðh., ef fjárhagur er þröngur. Og þó að reynt sje að halda sjer við takmörk þau, sem í frv. eru sett, en jeg efast um, að það verði hægt, nema með litlum gróða, þá má benda á það, að þau takmörk eru rúm og hætt við, að stjórnin haldi sjer heldur að hæstu álagningu en lægstu, og þá er komið þvingað og óhagstætt verslunarfyrirkomulag, þó að ekki sje hægt að telja það ósæmilegt af hálfu stjórnarinnar.