06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

6. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Mjer skildist það á hæstv. fjrh. (M. G.), að hann dróttaði að mjer blekkingum og tvískinnungi viðvíkjandi innflutningshöftum. Því verð jeg að mótmæla. Þegar þau voru hjer til umr., bar jeg fram rökstudda dagskrá. þess efnis að eins að taka af allan efa um það, að ekki mætti hefta innflutning á þörfum vörutegundum, en hún var feld af stjórninni og fylgifiskum hennar. Það var því sýnilegt, að háttv. deild vildi hafa innflutningshöft. Jeg býst ekki við því, að jeg verði þess megnugur að breyta þeim vilja, og fyrir mjer vakir að eins að vinna að því, að þau innflutningshöft, sem verða, verði sem óskaðlegust og, ef unt væri, eitthvert gagn að þeim. Þessvegna hefi jeg borið fram frv. um þetta efni; það er í raun og veru að eins tilgangurinn með því, að taka af allan efa og ákveða höftin á óþarfa einum. Þó að frv. sje frá minni hendi að eins um afnám laganna frá 8. mars, þá geri jeg ekki ráð fyrir því, að þau verði afnumin, án þess að eitthvað komi í staðinn. Hins vegar hefi jeg aldrei gefið í skyn, eða reynt að blekkja menn með því, að jeg væri innflutningshöftum fylgjandi í nokkurri mynd. Hæstv. fjrh. (M. G.) hefði getað sagt sjer þetta sjálfur, ef hann hefði lesið meira en fyrirsögn frv. Ósamræmið er þessvegna ekki hjá mjer, það er í höfði hæstv. fjrh. (M. G.). En jeg vona, að þessi orð mín verði til þess, að hæstv. fjrh. (M. G.) leggi út í það að lesa meira en fyrirsögnina, og þá vænti jeg þess, að ósamræmið hverfi úr höfði hans. Eins vil jeg benda hæstv. fjrh. (M. G.) á það, að ef ástæða er til að takmarka innflutning, þá á tóbak ekki að vera undanþegið. En ef lítið verður flutt inn af því, verður gróðinn af versluninni lítill eða enginn. Þetta ættu menn að geta skilið.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) á um sárt að binda eftir hæstv. fjrh. (M. G.), og get jeg ekki látið vera að kenna í brjósti um hann. Afstaða hans er aumkunarverð. Hann eyðir krafti sínum og skynsemi til þess að reyna að verja frv., en fær þær þakkir hjá höfundi þess, að hann sje að spilla fyrir því. Hæstv. fjrh. sagði, að þetta frv. væri sett í samband við landsverslunina, til þess að spilla fyrir því, en það var einmitt hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem fyrstur gerði sig sekan í þeirri goðgá.

Jeg þarf ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. En jeg vil benda háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) á það, að það er ekki mikið samband milli tóbaksverslunar og vatnsrjettinda, og þó að menn telji fært að taka lán til að virkja fossa, þá get jeg ekki heimtað af sömu mönnum, að þeir vilji taka lán til þess að reka tóbaksverslun.