07.04.1921
Efri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

6. mál, einkasala á tóbaki

Sigurður Eggerz:

Hæstv. fjrh. (M. G.) hóf ræðu sína með því að kvarta um, að jeg hefði reynst minna „loyal“ gagnvart sjer en hann gagnvart mjer áður, er jeg skipaði hans sess og hann minn. Jeg fæ nú ekki sjeð, að það sje hægt að leggja loyalitets-mælikvarða á það, sem hjer er um að ræða. Jeg er á móti þessu frv. stjórnarinnar, af því að jeg álít það skaðlegt þjóðinni, og get jeg ekki sjeð, að þetta sje neitt undrunarefni, þó að þingmenn, í þessu sem öðru efni, fylgi sannfæringu sinni. Yfirleitt hefir mjer ekki verið brugðið um „unloyalitet“ í garð andstæðinga minna, og jeg hygg, að ekki sje heldur nein ástæða til þess nú. Allra síst finst mjer það sitja á hæstv. fjrh. (M. G.) að vera margorður um þetta efni, því að jeg man ekki betur en að hann snerist varla mjög „loyalt“ við máli einu, sem var á döfinni, þegar jeg var fjármálaráðherra, og kallað var Öskjuhlíðarfarganið. Þá hafði stjórnin veitt nokkrum fátækum mönnum atvinnu við grjótnám, og nam hallinn á vinnunni 40000 kr., og var auk þess ekki hægt að sjá fyrir í byrjun, að kostnaðurinn yrði nokkur, enda má vera að salan á grjótinu hafi farið svo á endanum, að ekkert tap hafi orðið á henni. Þá skrifaði hæstv. fjrh. (M. G.), þá skrifstofustjóri, nefndarálit um þetta efni, þar sem stjórninni var mjög legið á hálsi fyrir framkvæmdir sínar í þessu efni.

Aftur á móti verð jeg að segja það, að mjer finst jeg hafa verið vonum vægari í garð þessarar hæstv. stjórnar. Jeg hefi látið fjöldann allan af axarsköftum hennar óátalin. — Hefir hæstv. fjrh. (M. G.) heyrt nokkuð til mín um húsið við Geysi? Hefir hann nokkurn tíma heyrt mig minnast á hrossakaupin og fleira af því tagi? (Forseti: Jeg verð að biðja háttv. þm. að halda sjer við málið). Þetta er að halda sjer við málið, úr því hæstv. fjrh.

(M. G.) fór að minnast á „loyalitet“. Annars get jeg vel skilið það, og virt til vorkunar, þótt hæstv. forseti vilji ógjarna láta angra stjórnina.

Nú er hæstv. fjrh. (M. G.) einnig kunnugt um, að jeg hefi altaf staðið á móti einokun. Þar við bætist svo, að jeg tel mjög vafasamt, að nokkur gróði verði á þessum rekstri. Valið á manninum gæti ávalt mishepnast, og þá of mikið í húfi, er alt er á eins manns hendi.

Hvað snertir umyrði hæstv. fjrh. (M. G.) um húsið, þá er það ekki svo að skilja, að ekki sje hægt að koma upp viðunandi húsakynnum, en það kostar peninga. Ef landsverslunin á að verða einkasali á tóbaki, þá þyrfti að reisa bæði stór og vönduð hús til þeirrar vörugeymslu, og gæti það vel orðið tilfinnanlegur kostnaður.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara frekar inn á þetta mál nú.