13.04.1921
Efri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

6. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Áður en jeg fer að tala um efni þessa máls, verð jeg að biðja hæstv. forseta að taka ekki hart á mjer, þótt það, sem jeg segi, hafi meira 1. eða 3. umr. blæ. Það er sem sje orðin nálega venja hjer í þessari háttv. deild að tala ekkert, eða lítið, við 1. umr., og þess vegna er ekki hægt að komast hjá að tala alment um málið við 2. umr., og allra síst í þessu máli, þar sem engar brtt. liggja fyrir frá minni hlutanum.

Minni hl. hefir ekki getað orðið sammála meiri hlutanum í aðalatriðinu, það er, hvort frv. þetta eigi fram að ganga eða ekki. Hins vegar hafa báðir nefndarhlutarnir komið sjer saman um að fella vínið burtu.

Þó að þetta frv. sje eitt síns liðs, þá er það hlekkur í allstórri einokunarkeðju, sem stefnir að því að koma versluninni undan frjálsri samkepni, sem tryggir framþróun verslunarhæfileika landsmanna, inn í kyrstöðuástand, þar sem öll framtakssemi, aukið víðsýni og viljaþrek manna visnar og verður að engu. Samfara þessu er opin leið til allskonar siðleysis, samfara pólitískri afturför, sem af þessari stefnu getur leitt fyr eða síðar.

Á yfirborðinu er látið líta svo út, að þetta sje gert út úr neyð, til þess að útvega þurfandi ríkissjóði auknar tekjur. En ef það væri eina ástæðan, þá hlyti stjórnin að hafa getað fallist á, að tekjurnar af þessum vörum mætti fá með öðru móti, svo góð rök hafa verið færð fyrir því, bæði innan þings og utan, að alt eins hægt væri að ná þeim með tolli. Vísa jeg í þessu sambandi til brjefs Verslunarráðs Íslands 21. febr. þ. á. til þingsins, og umræðnanna í Nd.

Verslunarhæfileikar og þekking landsmanna í verslun er enn í bernsku, og hefði því ekki veitt af, að þeir hæfileikar hefðu mátt þróast í friði áfram, þangað til verslunarstjettin hefði staðið jafnfætis við aðrar þjóðir í þekkingu og framtakssemi á þessu sviði. Það er ekki heldur von, að þessi þjóð sje langt komin í þroskanum á þessu sviði, því ekki eru liðin nema um 67 ár síðan verslunin var gefin frjáls. Það verður því ekki sagt um þekkingu Íslendinga á verslun, eins og segja má um þekkingu þeirra á sjómensku og landbúnaði, að hún sje hold af þeirra holdi.

Verslunaránauð vors einvalda konungs var vitanlega rekin, á þeim tíma, í besta tilgangi. Það var skoðun vitrustu manna þá, að sú verslun væri landinu hollust. En sú skoðun reyndist röng, eins og reynslan hefir sýnt. Jeg efast ekki um, að núverandi stjórn álíti það sama, eins og einvaldskonungur vor þá, en jeg efast ekki heldur um, að sú skoðun muni reynast skökk. ef nokkur reynsla fæst á því. Jeg held, að það sje jafnvel að fara úr öskunni í eldinn, ef stofna á nú til nýrrar einokunarverslunar. Það mun reynast því skaðlegra sem valdið yfir slíkri verslun er nær oss. Og á þeirri braut verður fjármálaþekkingarleysið og þróttleysið aðalþröskuldurinn. Vil jeg að eins benda á sem dæmi, að vjer erum ekki enn farnir að skilja muninn á tölu-endurskoðun og fullkominni endurskoðun (Kritisk Revision) á fjárhagsfyrirtækjum, endurskoðun, sem rannsakar stjórn og rekstur fyrirtækjanna. Þannig eru 2 aðalpeningastofnanir landsins settar, að þær hafa 2 töluendurskoðendur hvor, sem eiga að leita að, hvort starfsmenn bankanna hafi ekki vanreiknað t. d. 2 aura á þessum stað eða hinum. Það er öll endurskoðunin. Hitt er alls ekki endurskoðað, hvernig stjórn bankanna fer að, eða hvernig bankarnir eru reknir. Það eina, sem menn vita um, er, ef þeir fara beinlínis í strand. Þegar þessu er þann veg farið, þá eru bankastjórarnir fullkomlega einvaldir. Þegar maður lítur á sjálft stj.frv., 5. gr., þá stendur þar, að ráðherrann skipi „2 menn til að hafa á hendi endurskoðun allra reikninga verslunarinnar“. Það eru þessir gömlu tölu-endurskoðendur. En þar er ekki minst á það, að nokkur maður eigi að rannsaka stjórnsemina eða rekstur fyrirtœkisins, heldur aðeins reikningana. Nei, hjer á að skapa nýja einveldis-holu, sem engin mannleg vera hefir tækifæri til að athuga, hvort sje vel eða illa rekin, eða hvernig hún beitir einveldi sínu. Jeg segi þetta ekki stjórninni til áfellis, heldur til að sýna fram á, að vjer erum ekki enn undir það búnir að elta stórþjóðirnar í slíkum málum, því að þær hafa vitanlega öll skilyrði til að láta svo verulegt eftirlit fara fram með slíkum stofnunum, og alveg ábyggilegt eftirlit. Og í slíkum löndum er ennþá stjórn, sem menn verða að taka tillit til.

Það er mjög líklegt, að stjórnin hafi ekki gert sjer næga grein fyrir kostnaðinum við þennan verslunarrekstur. Tóbaksvörur eru mjög vandgeymdar, og sína aðferðina þarf við hverja. Þannig þarf að geyma vindla við jafnan hita, sem munntóbak og rjóltóbak þolir ekki. Vindla þarf iðulega að umstafla. Reyktóbaki hefir mönnum hjer ekki tekist að halda óskemdu í 6 mánuði. Það geta því ekki nema fagmenn átt við slíka geymslu á hverjum geymslustað. Annars getur varan orðið óseljanleg.

Þar sem minni hlutinn leggur til, að frv. nái ekki fram að ganga, er engin ástæða til að tala um einstakar greinar þess.

Leyfi jeg mjer að vísa til nefndarálitsins að öðru leyti. Þar er tekið fram, að minni hlutinn fallist á að fella spíritussöluna úr þessu frv.

Jeg skal að endingu taka fram, að flest sem jeg hefi hjer sagt, hefi jeg sagt fyrir minn eigin reikning, án þess að hafa borið það undir hinn hluta minni hlutans, því að mig langaði til að setja fram mína skoðun á máli þessu. Jeg vona, að hin háttv. deild muni ekki vilja ganga lengra í einokunaráttina en þegar er orðið. Hjer er nú einkasala á steinolíu. Þau lög voru einungis samþykt sökum þess, að einokun var þegar orðin á þessari vörutegund. Annars hefðu þau aldrei verið samþykt. Mjer virðist, að þjóðin ætti fyrst um sinn að láta sjer nægja að hafa einkasölu á steinolíu. Spreyta sig á því og sjá hvernig það reynist, og bæta þá við fleiri vörutegundum, ef það skyldi reynast vel.