13.04.1921
Efri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

6. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Friðjónsson):

Það var eitt atriði háttv. minni hl., sem jeg vildi einkum minnast á, og það er samanburðurinn á einkasölunni og gömlu einokuninni.

Á þessu tvennu er mikill munur. Ágóðinn af einokuninni gömlu rann allur út úr landinu, en af þessari einkasölu rennur hann í ríkissjóð og til almennings þarfa. Að öðru leyti er ekki mikil ástæða til að svara því, sem háttv. þm. (B. K.) sagði. Hann lagði áherslu á, að ef versluninni væri komið í þetta horf, þá mundi hljótast vanblessun af því. Þetta er að eins spádómur, sem mjer virðist lítið gerandi með, enda er hægurinn hjá að kippa öllu í liðinn aftur. ef illa fer. Hann tók það fram, að mikill vandi væri að geyma tóbak svo, að það skemdist ekki. En jeg hugsa að starfsmenn ríkisins geti leyst þann vanda af hendi álíka og einstakir kaupsýslumenn. Einnig sagði hann, að endurskoðun mundi verða mjög ábótavant, ekki síður en hingað til; það væru að eins endurskoðaðir reikningarnir en ekki starfsrækslan, og mætti því til samanburðar nefna endurskoðun landsverslunarinnar. Þetta er ekki rjett, því að fyrst og fremst hefir stjórnin heimild til að láta endurskoða starfsræksluna, engu síður en sjálfa reikningana, og eflaust mundi hún setja reglur þar að lútandi.