13.04.1921
Efri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

6. mál, einkasala á tóbaki

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) var mjög ánægður yfir því, að ákvæðið um vínið hefði verið felt burt úr frv. En jeg get þá ekki skilið, hvers vegna samviska þessa háttv þm. (S. E.) hefir hingað til getað þolað það, að ríkissjóður hefir tekið toll af víni og spíritus, því að eðlismunur getur ekki á því verið, hvort peningar koma í ríkissjóðinn vegna söluhagnaðar eða tolls á sömu vöru. Það er einkennilegt, að bannsamviskan slær nú fyrst háttv. þm. (S. E.).

Mín skoðun er sú á þessu máli, að bannmálinu væri unnið þarft verk með því að taka vínsöluna í hendur ríkisins, og jeg veit, að margir bannmenn líta svo á.

Það er harla kátleg ástæða gegn frv., að það sje svo vandasamt að versla með tóbak, að vart sje ætlandi, að nokkur maður sje til þess fær. Hjer þarf að eins að benda á, að hver strákur telur sjer fært hjer að setja upp tóbaksverslun.

Það má vel vera, að hægt væri að hækka tollinn enn, en ekki er jeg viss um það, og víst er um það, að síðast þegar hann var hækkaður, þótti hann svo hár, að ófært mundi að hækka.

Og þess ber að gæta, að þeim mun meir, sem hann yrði hækkaður, því örðugra mundi það verða að verjast tollsvikum, að minsta kosti hefir oftast viljað verða sú reyndin á, þar sem um tollaðar vörur er að ræða.

Þá kvartar háttv. þm. (S. E.) undan einokunartilhneigingu stjórnarinnar og segir, að einkasala á korni sje óhæf vegna þess, að því sama, sem ná hafi átt með henni, megi ná með ýmsum öðrum aðferðum. Tilætlunin með þessu var nú sú, að bjarga landbúnaðinum, en það hefir verið reynt síðan land bygðist, en ekki fundist örugt ráð. Nú segist hv. 2. landsk. þm. (S. E.) hafa ótal ráð, og skora jeg þá á hann að benda á eitt þeirra, og er það ekki mikils krafist fyrst ráðin eru ótal. En ætli honum verði ekki samt skotaskuld úr þessu? Og þegar þessi háttv. þm. (S. E.) er að fjargviðrast yfir einokunarstefnu stjórnarinnar, þá getur mjer ekki annað en dottið í hug lögin um einkasölu á steinolíu og afstaða hans til þess máls.

Viðvíkjandi fyrirspurn háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) skal jeg láta þess getið, að jeg hafði aðallega hugsað mjer að nota varasjóð landsverslunarinnar til þess að reka með þessa verslun. Landsverslunin dregur nú óðum saman seglin, og á varasjóð, sem til þess mætti nota. Ef það fje skyldi ekki hrökkva, þá er ekki annað fyrir hendi en að taka lán, en að því mundi aldrei mikið kveða, því að allar stærri tóbaksverslanir erlendis eru vanar að gefa 6 mánaða „credit“.

Ef einhver er hræddur um, að lög um þetta verði til þess, að meira verið flutt inn í landið af tóbaki, þá tel jeg það fjarri sanni. Það ætti aldrei að verða meiri innflutningur og gjaldeyrisekla af þessu, þótt stjórnin taki að sjer verslunina, en þótt hún sje í höndum einstakra kaupmanna. Það ætti einmitt miklu fremur að verða hægara að takmarka innflutninginn, ef hann er í höndum stjórnarinnar.