13.04.1921
Efri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

6. mál, einkasala á tóbaki

Einar Árnason:

Jeg ætlaði að eins að gera örlitla fyrirspurn til hv. frsm. minni hl. (B. K.). Gæti nú að sönnu fallið frá því, vegna þeirra orða, er fjellu hjá hv. 2. landsk. þm. (S. E.) í enda ræðu hans. Jeg hafði nefnilega ekki tekið eftir, að minni hl. kæmi fram með neina tekjuaukatillögu, ef frv. stjórnarinnar yrði felt. En háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) benti á, að tilætlun minni hl. væri sú, að hækka ætti tóbakstollinn. Jeg verð nú að segja það, að mjer

þykir heldur hafa skift um hljóð í háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) síðan 1917. Þá flutti jeg frv. um hækkun á tóbakstollinum, sem hann var þá mjög andvígur, vegna þess, að af því leiddi að eins aukin tollsvik, og var tollurinn ekki eins hár þá eins og hann er nú orðinn. (B. K.: Ástandið var þá öðruvísi en nú). Það er satt, að ástandið var öðruvísi þá en nú, að því leyti, að ríkissjóði liggur enn meira á auknum tekjum nú en á þeim tíma, en ástæðurnar eru hinar sömu og þá, að tilhneigingin til tollsvika er vafalaust engu minni nú. Hækkun á tollinum gæti því ekki, eftir fyrri kenningu hv. þm. (B. K.), orðið ríkissjóði neinn tekjuauki.

Andstæðingar þessa frv. í Nd. fluttu þó frv. um tekjuauka í staðinn, ef það yrði felt, og var það allrar virðingar vert. En hjer er ekkert þess háttar sýnilegt frá hv. minni hl.