18.02.1921
Neðri deild: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

47. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg verð skammorður um þetta frv. Læt mjer nægja að geta þess, að hækkanir þær, sem hjer er farið fram á, snerta að tiltölulega litlu leyti eiginlegar nauðsynjavörur, og þær ná einkum til vara, sem ekki hefir verið hækkaður tollur á síðan heimsstyrjöldin hófst. Jeg játa fúslega, að jeg hefði mjög gjarnan viljað losna við að þurfa að flytja þetta frv., en það er svo erfitt að útvega nægar tekjur nú á dögum, að fleira verður með að taka en gott þykir.

Þegar þessi umr. er á enda, vona jeg, að frv. verði vísað til fjárhagsnefndar.