03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

47. mál, tollalög

Jón Baldvinsson:

Það munu flestir vera sammála um það, að sú aðferð, að ná tekjum með tollum af nauðsynjavörum, sje ranglát.

Og í raun og veru eru allir tollar ranglátir. Í sveitar- og bæjarfjelögum hefir það verið reglan, að jafna niður gjöldum eftir efnum og ástæðum. Sú leið er sanngjörn, ef hún er samviskusamlega þrædd, þó að játa verði, að nokkrir erfiðleikar sjeu á þeirri framkvæmd sumstaðar. En gagnstætt þessari leið eru tollarnir á nauðsynjavörum. Þeir eru nokkurskonar nefskattur, sem allir verða að borga, og koma oftast harðast niður á fátæklingunum og ómagamönnunum. Þessi tolllög gera ráð fyrir háum tolli á kaffi, enda þótt háttv. þingmenn viðurkenni, að kaffi sje nauðsynjavara. Við sjávarsíðuna er það svo, að litla mjólk er að fá, og hún jafnframt svo dýr, að örðugt er að kaupa eins mikið af henni og þyrfti. Hjer í Reykjavík er það svo, að mjólkin selst ekki á sumum tímum árs, þegar mest er af henni, og er hún þó miklu minni en allir læknar telja þörf á.

Kaffið er komið í staðinn, og því er auðsætt, að hjer er um nauðsynjavöru að ræða. En auk þess kemur þessi tollur ranglátlega niður á landsbúa á tvennan hátt. Fyrst og fremst kemur hann meira niður á sjávarsíðufólkinu en sveitunum, og auk þess kemur hann ranglátlega niðurinnbyrðis á sjávarsíðufólkið, því að fátæklingurinn verður jafnt að greiða hann sem efnamaðurinn. Og fátæki maðurinn með barnahópinn verður að greiða margfalt hærri skatt, jafnvel að tiltölu, en ómagalausi efnamaðurinn. Þetta er ranglæti, og því gengur aðaltill. mín út á það að fella burtu toll af kaffi og sykri, eða með öðrum orðum, 8., 9. og 10. lið í tolllögunum.

Jeg var, satt að segja, að bræða það með mjer, hvort jeg ætti að koma fram með brtt., sökum þess, að jeg er svo andvígur tollum, að jeg hefði vel getað greitt atkvæði móti öllu frv. En jeg bjóst ekki við, að það mundi koma að miklu haldi, og því kom jeg fram með brtt., og til vara með þá till., að tollurinn skyldi ekki hækka frá því sem mi er.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) hefir komið fram með brtt. við 8. lið, sem fer fram á það, að tollur á óbrendu kaffi standi í stað. Jeg tel það óheppilegt, að till. skyldi koma fram, því verði hún samþykt, skapar hún misrjetti. Hjer í Reykjavík mundi þorrinn af neytendum borga kaffið með hærra verðinu. því að það er mest keypt hjer brent. (M.J. :Brent hjer?). Sumt brent hjer, sumt erlendis, og jeg hygg, að kaupendum verði erfitt að greina á milli, hvort heldur er, og tel óvíst, að kaupmenn skýrðu þeim frá því.

Háttv. frsm. fjhn. (J. A. J.) sagði, að það væri ekki órjettmætt að tolla ónauðsynjavörur, og taldi kaffið í þeim flokki, en játaði þó jafnframt, að fólk í sjávarþorpum þyrfti einhverrar hressingar í stað mjólkur, kaffi eða annað. Jeg sje því ekki betur en að hann hafi viðurkent með því, að kaffi væri nauðsynjavara. Raunar mælti hann mjög sterkt fram með tedrykkju, svo að jeg hefði næstum því getað freistast til að halda, að hann væri umboðsmaður tesala, ef jeg vissi ekki áður, að svo er ekki. Út í tollaútreikning hans skal jeg ekki mikið fara, því að honum hefir verið svarað. Get þó ekki fallist á, að skatturinn sje eins lágur sem hann taldi. Taki maður t. d. heimili með 10 manns, og kaffi drukkið þar 4 sinnum á dag. Þá verða það 40 bollar á dag. Tollurinn af kaffibolla, 1/3 eyris, með álagningu, sem altaf á sjer stað, ekki ofhátt reiknaður 1/2 eyrir. Það verða 20 aurar á dag. Þetta finst mjer ekki vera svo tiltakanlega lágur skattur yfir árið. Þetta ranglæti, sem jeg hefi nú talið, vil jeg fyrirbyggja með brtt. minni, og nái hún ekki fram að ganga, þá með varatill., svo að ástandið verði þó eigi gert verra en það er nú. Annars þykir mjer undarlegt, að háttv. þingmenn skuli gera ráðstafanir til að auka við dýrtíðina, um leið og kvartað er undan kaupgjaldinu og krafist lækkunar á því. Það er þó auðsætt, að því að eins mælir sanngirni með því, að kaupið lækki, að dýrtíðin minki að sama skapi, eða verðið á nauðsynjavörunum.