03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

47. mál, tollalög

0608Þorleifur Guðmundsson:

Jeg vil gera þess nokkra grein, hvers vegna jeg var með kaffitollinum. Aðalástæðan var sú, að ríkissjóður þarfnast tekna, og ekki síst ef eigi er forsjállega á haldið. Jeg veit að vísu, að þessi leið, tollaleiðin, er ekki vinsæl, en jeg sje ekki annan tryggari veg til að afla landinu tekna í náinni framtíð, því að hinir tekjustofnarnir eru meira og minna ótraustir. Tekjuskatturinn t. d., þó að hann sje rjettlátari, er óábyggilegur, því hvar á að taka hann, ef enginn hefir tekjur, hvorki af sjávarútvegi nje landbúuaði? Nauðsynin er því að finna tekjustofn, sem er traustur og varanlegur. Hvað kaffinu viðvíkur, þá er neysla þess svo almenn, að stofninn getur talist traustur. Jeg skal viðurkenna, að væri kaffið eingöngu nauðsynjavara, þá væri tollurinn órjettmætur, en það er ekki nauðsynlegt, og auk þess getur það verið skaðlegur drykkur. (P. O.: Það er ekki skaðlegt). Það er ekki rjett, það er skaðlegt, að minsta kosti að áliti flestra lækna.

Auk þess geta menn notað annað til drykkjar, og því er það ekki rjett hjá hv. 2. þm. Reykv. (J. B.), að kaffitollurinn sje nefskattur, sem lagður er á neytendur. Þeir leggja hann sjálfir á sig af fúsum og frjálsum vilja.

Annars mæli jeg ekki fram með kaffitollinum vegna þess, að jeg vilji halda því fram, að hann komi ekki hart niður á mörgum fátæklingnum, eins og tollar yfirleitt gera, heldur vegna þess, sem jeg tók áður fram, að tollstofninn er traustur. En jafnframt vil jeg biðja háttv. þingmenn að athuga, að kaffið er, bæði hjer í Reykjavík og annarsstaðar, nautnadrykkur, sem notaður er um skör fram. Og mikið af tollinum myndi borgað af þeim, sem sitja hjer á kaffihúsum, því að nú geta menn varla skrafað svo saman, að þeir sötri ekki kaffi um leið, sjer til lítils gagns.

Að lokum vil jeg vekja athygli háttv. deildar á því, að ef ekki er hægt að fá ábyggilegan tekjustofn, þá er óumflýjanlegt að draga úr útgjöldum, t. d. launum til embættismanna o. fl., því að enda þótt hægt væri að fleyta sjer eitthvað áfram með lánum, þá er sú leið ófær til langframa, og því að eins forsvaranleg nú, að lánunum sje varið til tryggilegra framkvæmda, en ekki notuð sem eyðslueyrir.