03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

47. mál, tollalög

Jón Þorláksson:

Jeg vildi beina þeirri fyrirspurn til háttv. fjhn., hvort hún hafi þegar tekið afstöðu til tóbakseinkasölufrv. stjórnarinnar.

Stjórnin hefir þar gert ráð fyrir að afla tekna á annan veg en með tollinn, afla þeirra með verslun, en raddir hafa komið fram um það, hvort sú leið mundi tiltækileg, eða að minsta kosti heppileg, og margir litið svo á, að giftudrýgra myndi að afla teknanna einvörðungu með hærra tolli. Ef fjhn. hefir nú ekki tekið afstöðu til einkasölufrv., og færi nú svo að það fjelli, og þær tekjuvonir, sem frv. gerir ráð fyrir, brygðust, þá er spurningin sú, hvort nefndin hefir þá ráðið við sig, hvort það skuli verka á tóbakstollinn, þannig, að hann hækkaði svo, að hinn áætlaði verslunarhagnaður næðist með honum, eða hvort hún hefir hugsað sjer að ná tekjuaukanum á annan hátt.

Fyr en afráðið er um þetta, finst mjer erfitt að ræða um tóbakstollinn. Hvað tollunum viðvíkur, þá eru það lítil meðmæli, frá mínu sjónarmiði, að þeir sjeu lagðir á ónauðsynlega vöru, eins og nú standa sakir.

Það er sagt, að ríkissjóður muni þurfa um 9 milj. kr., eða sem næst því 100 kr. á hvert mannsbarn í landinu. Hinsvegar stendur svo á, að viðskiftalíf landsins krefst þess, að ekki sje flutt inn í landið nema það allra nauðsynlegasta. Mjer finst það því vera nokkuð hæpið, hvort rjett sje að leggja þá freistingu fyrir landsstjórnina, að hleypa inn í landið ónauðsynlegum varningi, til þess að forða ríkissjóði frá fjárþroti.

Jeg er hræddur um, að ógerningur muni reynast að afla svo mikilla tekna árið 1922 sem ríkissjóður þarfnast, en þar sem stjórnin gerir sjer vonir um, að þær muni nást, þá finst mjer ábyrgðarhluti að leggjast á móti tillögum hennar til tekjuauka, nema hægt sje að benda á annað, sem gefur viðlíka tekjur. Jeg mun því ekki verða á móti verulegum tekjuaukaliðum í stjórnarfrv., nema jeg geti bent á eitthvað, sem vegur á móti. Um kaffitollinn er það að segja, að eftir innflutningi 1917 á þessari vörutegund, þá nemur brtt. háttv. þm. Borgf. (P. O.) 240 þús. kr. á ári, og jeg sje mjer því ekki fært að vera henni fylgjandi, nema bent verði á aðrar færari og heppilegri leiðir til tekjuaukningar.