03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

47. mál, tollalög

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg vil geta þess, að prentvilla hefir slæðst inn í frv. í 3. lið fyrstu gr. stendur % (prócent) í stað o (gráðu). Nefndin leit svo á, að ekki þyrfti brtt. til lagfæringar. Það er hægt að lagfæra þetta á skrifstofunni. Jeg hefi talað við hæstv. fjrh. (M. G ) um þetta, og er hann á sinni skoðun.

Þá vil jeg svara örfáum orðum þeim hv. þm., sem hafa flutt brtt. við frv.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) leit svo á, að ekki þyrfti að hlífa brendu og möluðu kaffi, tollurinn á því gæti verið svo sem frv. ákveður. En jeg verð að vera á þeirri skoðun, að ef kaffitoll bæri að lækka yfirleitt, þá ætti eins að lækka toll á þessu kaffi, því að það er alkunna, að sjómenn og kaupstaðarbúar kaupa það engu síður, og jafnvel meira. (P.O.: Það má brenna það heima). Jeg efast um, að það svari kostnaði að kaupa hingað áhöld til þess, og að kaffið verði eins ódýrt, brent og malað hjer heima, og það er nú fáanlegt frá útlöndum.

Annars þykir mjer vænt um að heyra, að flestir háttv. þm. eru á sömu skoðun og nefndin um það, að varhugavert sje að fella niður tollinn eða lækka hann frá því, sem frv. gerir ráð fyrir. Menn hafa viðurkent það, að kaffi er ekki eingöngu nauðsynjavara, það er meðfram munaðarvara, og háttv. tillögumenn hafa ekki bent á aðrar leiðir rjettlátari, til þess að afla ríkinu tekna. Enginn efast um þörf ríkissjóðs á tekjum, og þess vegna býst jeg ekki við að brtt., sem fram eru komnar, fái mikið fylgi.

Háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) gat þess, að kaffi væri orðið svo útbreytt hjer í Reykjavík og víðar, að það væri farið að útrýma mjólkinni, og það jafnvel á þeim tímuni, sem hún er fáanleg; hún seldist ekki öll. Slíkt ætti ekki að vera meðmæli með kaffinu, eða knýja menn til að lögvernda það með lágum tolli. Munaðarvaran útrýmir nauðsynjavörunni, og þá rísa upp menn, sem vilja vernda hana á allan hátt. Jeg skil þetta ekki. Ef þetta er satt, að kaffið sje að útrýma mjólkinni, þá ætti frekar að hækka tollinn enn meir, heldur en að lækka hann eða afnema. Jeg hygg, að barnaheimilin hefðu betra af því að fá dálítinn mjólkursopa en að drekka kaffi fjórum sinnum á dag. Að öðru leyti verð jeg að líta á brtt. á þskj. 85 á sama hátt og háttv. fjrh. (M. G.) og aðrir þm., sem talað hafa. Till. fer fram á að fella niður stóran tekjulið, án þess að benda á neitt í þess stað, og það verð jeg að kalla fljóthugsað og grunnhugsað, svo maður nefni það ekki barnaskap. Jeg held, að þessi till. sje frekar sprottin af misskildum „principum“ en rólegri yfirvegun.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hefir tekið af mjer ómakið að svara háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.). um afstöðu nefndarinnar um einkasölu á tóbaki og áfengi. Það var rjett hjá honum, að nefndin hefir enga afstöðu tekið, en jeg hefi athugað, hvort fært yrði að fella þetta frv., og þá sjerstaklega hina ráðgerðu hækkun kaffitollsins, þó að hitt frv. yrði samþ., og komist að þeirri niðurstöðu, að það yrði ekki hægt. En verði einkasölufrv. felt, verður að byggja í þess stað, og það verulega, því að jeg býst ekki við, að hægt verði að hækka toll af tóbaki svo nokkru nemi.