03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

47. mál, tollalög

Einar Þorgilsson:

Jeg stend upp út af fyrirspurn háttv. þm. Borgf. (P. O.) til mín. Hann spurði hvort jeg vissi ekki til, að læknar hefðu ráðlagt mönnum að neyta ekki kjöts eða annara nauðsynlegra fæðutegunda. Slíkt getur vitanlega komið fyrir í einstöku sjúkdómstilfellum, en mjer er ekki kunnugt um, að læknar telji kaffi nauðsynlegra en þessar fæðutegundir, og ef um það væri að ræða að leggja einhverja þeirra niður, þá er jeg ekki í vafa um, að kaffið yrði nefnt fyrst, af öllum skynbærum mönnum.

Úr því jeg stóð upp á annað borð, þá get jeg drepið á eitt atriði, sem mjer láðist að geta áðan. Kaffitollur hefir ekki verið hækkaður um langt skeið, og er þessi hækkun því í raun og veru að eins munurinn á verðgildi peninga nú og áður. Hækkunin nemur ekki því, sem nú fæst minna fyrir hverja krónu en áður var, og er þess vegna engin hækkun í raun og veru, heldur er að eins tekið tillit til peningagildisins, og tollhækkunin því samsvarandi.

Jeg þykist ekki þurfa að orðlengja þetta frekar, en jeg get endurtekið það, sem svar til háttv. þm. Borgf. (P. O.), að hvorki læknum nje leikmönnum getur í alvöru komið til hugar að telja kaffið jafnnauðsynlegt og viðurkendar, ágætar, innlendar fæðutegundir.