05.03.1921
Neðri deild: 15. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

47. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. þm. Str. (M. P.) tók það fram, að þessu frv. mundi ekki liggja á, því að innflutningshöftin sæu um, að ekki yrði neitt flutt inn af þessum vörum í bráð. Jeg veit ekki, hvort hann hefir aflað sjer upplýsinga um það, hvort nokkuð sje á leiðinni af þeim vörum, sem frv. nær til. Jeg hefi ekki gert það, en mjer þykir ekki ósennilegt, að svo geti verið, og það má háttv. þm. (M. P.) vita, að innflutningshöftin hindra ekki með öllu aðflutning þessara vörutegunda. Einmitt þessvegna væri gott, að frv. væri flýtt eins mikið og auðið er, því að það gengur í gildi þegar er það öðlast staðfestingu. En hitt geri jeg ekki að kappsmáli, að frv. verði frestað í 3–4 daga, en lengur má það varla vera. Annars er fjhn. færust að dæma um það mál, og ef henni líst tiltækilegt að fresta því, þá skal jeg ekki vera því til fyrirstöðu.

Út af ræðu hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) um kaffi- og sykurtollinn, vil jeg taka það fram, sem jeg benti á við 2.umr.þessa máls, að mjer þykir það ærið hvatvíslegt að afnema þessa tekjuliði með öllu þegar í stað, því að þeir eru með öflugustu tekjulindum ríkissjóðs. Jeg held, að háttv. þm. (Ó. P.) hafi gert of mikið úr áhrifum þessa tolls á vísitölu dýrtíðaruppbótar. Kaffi og sykurs gætir þar svo lítið, en hins vegar mun tollurinn, sem frv. fer fram á, nema um 1 milj. á ári, og jeg býst við, að það slagi hátt upp í dýrtíðaruppbótina, eins og sennilegt er að hún verði 1922. Háttv. þm. (Ó. P.) má ekki taka árið 1920 til samanburðar, því að þá var flutt inn minna en nokkuð annað ár undanfarið.

Þá hefir verið um það talað, að þetta frv. hefði átt að bíða eftir öðrum tekjufrv., til þess að hægt væri að athuga þau í samhengi. Jeg sje ekki, að hægt sje að láta þingið sitja auðum höndum nú framan af þingtímanum, og slengja síðan öllum frv. inn í einni bendu, því að háttv. Ed. þarf líka að fá tíma til að athuga þau. Það er heldur ekki rjett, að þetta mál hafi fengið lítinn undirbúning, því að nú eru liðnir 18–20 dagar af þingtímanum. Jeg get ekki álasað háttv. nefnd fyrir það, að hafa unnið of fljótt, heldur, ef nokkuð væri, fremur fyrir hitt, að vinna of seint, því að enn liggur hjá henni fjöldi mála.

Það er rjett hjá háttv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.), að hægt væri að græða á því að reikna dýrtíðaruppbót út mánaðarlega nú, þegar verðlag er að falla, en það var ekki verksvið fjhn. að athuga það mál í sambandi við tolllögin. Auk þess vil jeg benda á, að þessi ráðbreytni getur tæpast talist sanngjörn, því að þegar verðlag var að hækka, var einnig reiknað út með sama móti og nú, og það var gert með það fyrir augum, að þetta ynnist upp, þegar verðlagið lækkaði aftur.

Að síðustu vil jeg taka það fram aftur, að jeg mun ekki setja mig á móti því, að málinu verði frestað nokkra daga, en hitt kemur ekki til mála, að láta það bíða eftir öllum hinum tekjufrv.