05.03.1921
Neðri deild: 15. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

47. mál, tollalög

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Hv. þm. Str. (M. P.) furðaði sig á því, að nefndin hefði slitið þetta frv. út úr samhengi. Jeg veit ekki vel, við hvað hann á, því að varla ætlast hann til þess, að nefndin leggi þau 18 tekjufrv., sem hún hefir til meðferðar, fyrir þingið á sama degi. Hann gat þess, að stjórnin hefði samið þetta frv. síðast, sem varafrv., ef ekki reyndist hægt að hækka tekjuliðina á öðrum stöðum. Stjórnin hefir getið þessa í aths. sínum, en nefndin, sem hefir athugað hin frv. nokkuð, er á einu máli um það, að ekki verði fært að miðla miklu til á þeim, eða hækka skattana þar. Sá tekjuauki, sem verður af þessu frv., er þessvegna nauðsynlegur, hvernig sem um hin fer, og ef einhver skörð verða í þau höggvin, verður að fylla þau á annan hátt en með hækkun á tollum í þessu frv., því að ríkissjóður þarf á að halda öllum þeim tekjum, sem frv. fara fram á.

Þá gat háttv. þm. Str. (M. P.) þess, að hægt mundi vera að hækka tóbakstollinn, ef einkasölufrv. yrði felt. Jeg verð að lýsa því yfir, að jeg er því mótfallinn, að tóbakstollurinn verði hækkaður. Það er ekki af þeirri ástæðu, að jeg telji slíka hækkun ósanngjarna, heldur af því, að jeg held, að ríkissjóður njóti þar lítils góðs af. Hár tollur getur orðið til þess að draga úr innflutningi, og eins getur hann orðið til þess, að ekki komi öll kurl til grafar. þegar tollinn á að greiða.

Jeg lít svo á, að ekki sje hægt að hækka skatta í öðrum frv., og þetta frv. verði þessvegna að ná fram að ganga. Og þessvegna tel jeg það tilgangslaust að taka málið út af dagskrá, og mun greiða atkv. á móti því, ef til þess kemur.

Háttv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) gaf okkur þau gleðilegu fyrirheit, að verðlag mundi nú lækka óðum, og ekki yrði langt að bíða þess, að það kæmist í sama horf og var fyrir stríðið. Jeg vildi óska, að þetta fyrirheit rættist, en jeg er hræddur um, að svo verði ekki. Sami háttv. þm. (Ó. P.) gat þess, að óviðkunnanlegt væri að afgreiða þetta frv., fyr en útsjeð yrði um frv. um einkasölu á tóbaki og áfengi. Þótt ríkið taki að sjer þessa einkasölu. Þá þarf samt að halda í tollana, enda kemur það í sama stað niður. Ef tollurinn er hár, verður álagningin þess minni, og ef tollurinn er lægri, verður hún meiri. En eins og hæstv. fjrh. (M. G.) hefir rjettilega bent á, þá er tollurinn nauðsynlegur, til þess að auðveldara sje að kontrolera ríkisverslunarreksturinn.

Jeg held, að hv. þm. (Ó. P.) hafi verið bornar rangar sagnir af 2. umr. þessa máls. Hann talar um það, að hann vilji afnema sykurtoll; eins og allir aðrir vilji endilega halda í hann. Hver vill ekki afnema sykurtoll? Mitt „princip“ í skattamálum er, að tolla ekki nauðsynjavöru, en kringumstæður eru ekki svo glæsilegar nú, að hægt sje að fylgja því í æsar. Ríkissjóður þarf tekna, og þá tjáir ekki að afnema hvern toll á fætur öðrum, án þess að nokkuð komi í þess stað. Menn verða að sníða sjer stakk eftir vexti á slíkum tímum sem þessum.

Þá vildi háttv. þm. (Ó. P.) halda því fram, að afnám kaffi- og sykurtolls hefði mikil áhrif á vísitölu til dýrtíðaruppbóta. Jeg hefi lítillega athugað þetta, og komist að þeirri niðurstöðu, að þó kaffi væri reiknað 70% lægra, þá hefði það ekki meiri áhrif á vísitöluna en sem næmi 1–11/2. En jeg get verið háttv. þm. (Ó. P.) sammála um það, að óhæft sje, að dýrtíðaruppbót sje reiknuð ári áður en hún kemur til framkvæmdar, og sá útreikningur standi síðan í 1 ár. Þegar vörur lækka jafnmikið og nú er raun á, getur þetta ekki verið rjett. Vísitölurnar ætti að reikna út 4 sinnum á ári. Þetta er mál, sem þarf að athuga, og það er verið að athuga það af mönnum, sem eru sannfærðir um rjettmæti þeirrar skoðunar, sem jeg og háttv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) höfum haldið fram. Jeg vænti þess, að slíkt frv. komi fram áður en langt um líður, og vona þá, að því verði vel tekið.

Að endingu vil jeg endurtaka það, að jeg mun greiða atkv. gegn því, að þessu máli verði frestað, og það af þeim ástæðum, sem jeg hefi tekið fram.