05.03.1921
Neðri deild: 15. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

47. mál, tollalög

Magnús Pjetursson:

Jeg er undrandi yfir því, hve óbyrlega blæs fyrir þeirri meinlausu uppástungu, sem jeg bar hjer fram. Það gefur mjer tilefni til að halda, að þar liggi einhver fiskur falinn undir steini, viðvíkjandi þeim frv., sem síðar koma fram.

Hæstv. fjrh. (M. G.) skaut því til mín, hvort jeg hefði kynt mjer nokkuð um það, hvort þær vörur væru á leiðinni, sem þetta frv. næði til, og skal jeg geta þess, að það hefi jeg ekki gert. En jeg hefi heyrt, að skip mundu ekki flytja mikið af slíkum vörum í náinni framtíð, enda veit jeg ekki til hvers viðskiftahömlur ættu að vera, ef þær ættu ekki að hindra að einhverju leyti aðflutning slíkra vörutegunda, sem taldar eru ónauðsynlegar af stjórninni og fleirum. (J. A. J.: Þessi ástæða vakti ekki fyrir mjer). Þá skil jeg ekki, hvaða ástæða það hefir verið, því til hvers á að flýta frv., ef ekkert getur tapast við að athuga það eins og vera ber?

Jeg hefi ekki álasað nefndinni fyrir það, hve fljótt hún hafi unnið, heldur fyrir hitt, að hún hafi unnið óhaganlega. Hún hefði, að mínu áliti, átt að láta koma fram jafnsnemma þessu frv. frumvarpið um einkasölu á tóbaki. Þessi frv. eru hvort öðru svo nátengd, að ekki átti annað að eiga sjer stað. Jeg ætlaðist ekki til þess, fremur en aðrir, að nefndin legði öll frv. fyrir deildina í einu, en jeg bjóst við, að hún mundi athuga þau öll í sambandi hvort við annað, áður en hún tæki afstöðu til hvers einstaks út af fyrir sig. Þetta hefir nefndin ekki gert. Hún hefir slitið eitt mál út úr samhengi og heimtar, að deildin greiði atkv. um það þegar í stað. Hæstv. fjrh. (M. G.) sagðist að vísu ekki hafa á móti því, að frv. yrði frestað í nokkra daga. Lítið er betra en ekki neitt, og á þessum „nokkrum“ dögum er ef til vill hægt að koma fram með till., sem ekki er hægt að bera fram umsvifalaust. En vitanlega þyrfti til þess lengri tíma en fáeina daga, ef vel á að vera, og sjerstaklega ætti það tímatakmark að vera bundið við umræðu tóbakseinkasölunnar. Jeg veit það, að fleirum en mjer hefir þótt flýtirinn á þessu máli einkennilegur. Einn háttv. nefndarmaður, háttv. þm. Barð. (H. K.) hefir farið þeim orðum hjer í deildinni um sum atriði í þessu frv., að mjer hefir skilist á honum, að hann mundi bera fram brtt. við frv., en það hefir hann ekki gert og þá eflaust af því, að hann hefir ekki gert ráð fyrir slíkum hraða.

Háttv. frsm. (J. A. J.) hefir lýst því yfir, að hann sæi sjer ekki fært að hækka neinn lið í þessu frv., sem komið gæti í stað þess, ef tóbakseinkasalan fjelli. Þó að háttv. þm. (J. A. J.) líti svo á það mál, og ef til vill nefndin með honum, þá ættu þeir þó ekki að álíta sig svo óskeikula, að aðrir gætu ekki fundið slíka liði. Þeir ættu að minsta kosti að gefa deildinni frjálsar hendur í því efni, en það er ekki gert, ef nú á að samþykkja eða fella frv. umsvifalaust.

Það vill svo óheppilega til, að deildin er ekki sjálfráð um að taka málið út af dagskrá. Það er valdsvið hæstv. forseta, og hann mundi gera það viðstöðulaust eftir till. nefndarinnar. Jeg vil því skjóta því til nefndarinnar, hvort hún sje alls ekki tilleiðanleg til að sýna deildinni þá hæversku að leyfa forseta að taka málið út af dagskrá.

Jeg vil ekki kappdeila um það, hvort aukinn tóbakstollur gefi af sjer auknar tekjur. Hjer á það ekki við, að svo stöddu. En jeg vil taka undir það með hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.), að mjer þykir altaf hjákátlegt að leggja toll á þá vöru, sem landið hefir einkasölu á. Annars er heppilegra að ræða það mál í sambandi við einkasölufrv.

Jeg býst við því, að flestum hafi komið á óvart þær upplýsingar og skýringar, sem háttv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) gaf, og þó að sumir háttv. þm. telji þær ef til vill ekki mikils virði, þá ætti nefndin að sýna háttv þm. (Ó. P.) þá kurteisi að íhuga þær, og þess vegna ber að fresta málinu.

Háttv. frsm. (J. A. J.) endaði á að lýsa því yfir, að hann mundi greiða atkv. á móti frestun, ef til þess kæmi. Þetta held jeg að sje frekar mælt af kappi en forsjá, og jeg vil þá láta hart mæta hörðu, og lýsi því yfir, að jeg greiði atkv. á móti frv., ef atkvæðagreiðslan um það á að fara fram í dag.