05.03.1921
Neðri deild: 15. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

47. mál, tollalög

Eiríkur Einarsson:

Jeg ætla mjer ekki að fara að teygja mjög umræðulopann. Jeg vil eindregið, að málið verði tekið út af dagskrá. Rökin, sem háttv. þm. eru búnir að taka fram, vil jeg ekki endurtaka. Þar er litlu eða engu við að bæta. Jeg vildi helst geta þess til viðbótar, að jeg og fleiri þm. höfum í huga að koma fram með á þessu þingi, ef við sjáum okkur fært, frv. um algert innflutningsbann á sumum þeim vörum, sem hjer á að tolla. Jeg get t. d. af handa hófi nefnt 14. lið, sem er um toll á brjóstsykri og konfekt. Móti þessu mætti auðvitað segja það, að slíkt bann yrði aldrei til langframa, og að gott væri að þegar í stað væri hægt að beita tolllögunum, er því yrði ljett af. En það er ekki hægt að ákveða toll af þeirri vöru nú, sem þá kann að flytjast inn. Verðlag og peningagildi er þeim breytingum undirorpið. Vjer getum sagt, að nú sje sanngjarnt að leggja t. d. 2 kr. toll á konfektpundið, en síðar kynni að mega segja, með gildum rökum, að 4 kr. væru hæfilegur tollur, eða þá lækkaður tollur frá því, sem nú er. Jeg þykist vita, að þegar almennar áskoranir koma fram, þá muni fjárhagsnefnd verða svo sanngjörn að leggjast ekki á móti því, að málið verði tekið út af dagskrá.