05.03.1921
Neðri deild: 15. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

47. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (M. G.):

Út af því, sem háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) sagði, að það gæti ekki verið prófsteinn á álit deildarinnar, hvort hún samþ. eða feldi brtt., sem fram hefði komið við frv. þetta, þar sem þeir hefðu ekki enn getað tekið ákveðna afstöðu til tóbakseinkasölufrv., þá vil jeg geta þess, að jeg er viss um, að allir deildarmenn hafa þegar tekið afstöðu til þessa máls, því að frv. var sent til allra þm., að undanteknum hinum nýju þm. Reykv., þegar í desember. Og hinir háttv. þingmenn Reykv. virðast ekki vera í neinum vafa um það, hvar þeir eru í þessu máli. Jeg vil einnig geta þess, að slík aðferð sem þessi er alls ekki óvanaleg eða óþingleg. Og jeg álít, að 3–4 daga frestur sje alveg nógur fyrir fjhn. til að ákveða, hvort hún vill mæla með einkasölufrv. á tóbaki. Jeg treysti fjhn. vel til að afgreiða málið á þessum tíma. Auk þess verður það að athugast, að fresturinn verður að vera sem stystur, því að nóg mál eru fyrir þessu þingi og oss ber skylda til að hafa það sem styst, vegna kostnaðarins við það.

Annars vil jeg mæla með því, að málinu verði frestað, en að fresturinn verði sem stystur.