05.03.1921
Neðri deild: 15. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

47. mál, tollalög

Magnús Kristjánsson:

Mig furðar stórlega á þeim umræðum, sem fram hafa farið. Sje ekki betur en að þær sjeu þarflausar, og jafnvel nálgist það að vera skoplegar.

Mjer skilst, að þeir menn, sem liggja fjhn. á hálsi fyrir aðgerðir hennar, viti í raun og veru ekkert, hvað þeir eru að fara, og sjeu því að berjast við sinn eigin skugga,- því að engum heilvita manni mun koma til hugar að áfellast nefndina, þó að hún afgreiði málið.

Hitt hefir nefndin, aftur á móti, ekki á valdi sínu, hvenær málið er tekið á dagskrá; það hefir forseti, og því bitna í raun og veru á honum allar aðfinslurnar, sem háttv. deildarmenn vilja láta skella á nefndinni. Alt þetta hjal er því tilgangslaust.

Annars vil jeg lýsa því yfir, að meiri hluti nefndarinnar gerir það að engu kappsmáli, að frv. verði afgreitt frá deildinni nú þegar, og forseta er því óhætt, vegna fjhn., að taka þá ákvörðun að fresta því.

Hvað viðvíkur umræðunum, sem orðið hafa, ætla jeg að minnast á nokkur atriði, sem fram hafa komið, sem mjer sýnist að sæmra hefði verið að láta liggja í þagnargildi.

Háttv. þm. Str. (M. P.) ljet sjer sæma að dæma um störf fjhn., og fór, auk þess, niðrandi orðum um störf hennar. Þetta sýnist mjer algerlega óviðeigandi, og einkum þegar þess er gætt, að háttv. þm. (M. P.) situr sjálfur í stórnefnd, og farið gæti svo, að störf hennar yrðu ekki síður athuguð.

Annars vil jeg víkja nokkrum orðum að stefnum þeim, sem hjer eru að reka upp höfuðið.

Annars vegar eru menn með þá stefnu að vera á móti hverskonar einkasölu sem er, og undir öllum kringumstæðum, án þess að athuga hið minsta afleiðingarnar. Þeir sjá ekkert athugavert við það, þó að tollarnir hækki í sífellu, heldur hanga blýfestir í „prinsipi“ sínu — ríða því, ef leyfilegt er að komast svo að orði.

Hins vegar eru menn, sem vilja hafa einkasölu, til þess að almenningur fái vöruna með sannvirði og milliliðalaust, og til þess, að hægt sje að komast hjá síauknum tollaálögum, sem óhjákvæmilega hljóta að hækka verð vörunnar.

Hjerna eru stefnurnar markaðar, annars vegar hagsmunir almennings hafðir fyrir augum, hins vegar hagsmunir sárfárra einstaklinga. aðallega hjer í bæ. Og nú verða menn að gera sjer ljósan muninn.

Annars ætlaði jeg ekki að lengja umr. mikið, tek það að eins fram að síðustu, að nefndarinnar vegna má fresta málinu fyrst um sinn.