15.03.1921
Neðri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Frsm. (Björn Hallsson):

Jeg þarf ekki að tala langt mál við þessa framsögu, því að álit nefndarinnar, sem hjer liggur fyrir á þskj. 119, skýrir stefnu nefndarinnar að mestu gagnvart frv.

Nefndin hefir talið þetta mál mikilsvert, og lítill ágreiningur orðið um það í nefndinni, enda teljum við stefnu frv. í aðaldráttunum heppilega.

Ekki er við því að búast, enda ekki til þess ætlast, að nefndin komi fram með læknisfræðilegar bendingar, því að við í allshn. erum ekki menn læknisfróðir. En þó höfum við athugað frv. eftir föngum, bæði kostnaðarhliðarnar og fyrirhöfn að öðru leyti. En út í læknisfræðilegu hliðina höfum við ekki hætt okkur mikið, þótt við auðvitað höfum athugað þá hlið líka, í sambandi við kostnaðarhliðina.

Milliþinganefndin var skipuð hæfum og duglegum læknum. Þeir hafa auðsjáanlega lagt rækt við málið og komið fram með ýmsar mjög góðar tillögur, þótt þær, ef til vill. geti ekki komið til framkvæmda strax.

Allshn. komst að þeirri niðurstöðu, samkvæmt þskj. 119, að leggja til, að málinu yrði frestað nú, en lofa þjóðinni að átta sig á því milli þinga, og átta sig á breytingunum. Vjer teljum, að málið hafi gott af slíkri bið, og vinni meira fylgi á þann hátt en með því að demba því yfir þjóðina fyrirvaralaust.

Vjer bendum á það í nál., að nú eru varhugaverðir tímar og þörf á allri aðgætni í fjármálum, þótt nefndinni hinsvegar detti ekki í hug að bera á móti því, að þetta sje nauðsynjamál.

Þá skal jeg minnast nokkrum orðum á einstakar greinar frv.

Meginkjarni frv. er sá að vernda börnin. Nál. okkar tekur það fram, að þetta telji við rjetta undirstöðu, þar sem börnin eru framtíðarstofn þjóðarinnar, og varðar því mestu að verja þau fyrir næmum sjúkdómum. Um þetta fjalla flestar gr. frv., frá 5.–14. gr., og eru í þeim ýms ströng ákvæði, er kosta fje og fyrirhöfn að framkvæma. En nefndin fellst á, að þau ákvæði þurfi að vera ströng, ef von eigi að vera um verulegan árangur, og vill því ekki draga úr þeim.

Í 10. og 13. gr. frv. er sjerstaklega um það rætt, hvernig beri að haga framkvæmdum, ef berklaveiki kemur upp á barnaheimilum, annaðhvort á börnum eða fullorðnum. Gert er ráð fyrir, að taka beri sjúklinginn af heimilinu, ef kostur er, en annars börnin, ef þau eru heilbrigð. Ef börnin eiga að takast í burtu, þarf að útvega þeim samastað. Hreppsnefndir eða bajarstjórnir eiga að sjá um það; en hjeraðslæknir vottar, hvort staðurinn sje hættulaus. Þarf því að sækja hann og láta hann skoða staðinn. Eins er gert ráð fyrir, að koma þurfi berklasjúklingum í burtu, en að það muni ekki koma oft fyrir. Nú er ekki hægt að fá stað, nema á sjúkrahúsum, en rúm vantar á heilsuhælunum. Þetta verða því erfið ákvæði til framkvæmda. Slíkir staðir verða illfáanlegir, og því beinlínis þörf á að byggja sjerstök barnahæli. En það verður of dýrt fyrir hverja sveit, og þurfa menn því að slá sjer saman, ef þessi ákvæði frv. eiga að koma að nokkru haldi. Milliþinganefndin gerir ráð fyrir, að börnin, sem þannig þyrfti að ráðstafa. verði 2–3 á ári í læknishjeraði, miðað við reynslu í Reykjavík. Þetta þykir nefndinni lág tala, og býst við, að börnin verði að líkindum talsvert fleiri, einkum fyrst í stað. Prívatheimili munu tæplega fást til að taka börnin á þennan hátt, og er því ekki annað fyrir hendi en að byggja í þessu skyni, en til þess virðist nefndinni ekki hentugir tímar nú.

Í 13. gr. er gert ráð fyrir, að taka megi sjúkling af heimili með valdi, ef hann ekki vill annars fara, einkum ef börn eru á heimilinu. eða að öðrum kosti börnin, og koma þeim fyrir. ef ekki er hægt að flytja sjúklinginn. Allur ferða- og flutningskostnaður af þeim ráðstöfunum greiðist úr landssjóði. Gert er ráð fyrir, að sjúklingarnir geti notið styrks, þótt ekki liggi þeir í sjúkrahúsi, styrktu af ríkisfje.

Þótt öllum þessum ráðstöfunum fylgi kostnaður og fyrirhöfn, má þó ekki úr þeim draga. ef lögin eiga að ná tilgangi sínum, en hætt er þó við, að þessu yrði ekki alstaðar fylgt.

Þá er 14. gr. frv. Hún fjallar um meðlagskostnað sjúklinga. Mun sú áætlun vera bygð á reynslu Vífilsstaðahælisins einkanlega. Milliþinganefndin segir þar greitt með sjúklingum árlega um 46 þúsund krónur. Gerir nefndin ráð fyrir, að auk þess sje greitt á öðrum sjúkrahúsum með berklaveikum sjúklingum um 4 þúsund krónur. Verður það þá samtals 50 þús. kr.

Nú er svo ráð fyrir gert, að styrkþegum fjölgi, eftir frv., og ef frv. yrði að lögum, yrði eftir því greitt með sjúklingum um 72 þús. krónur, eða 22 þúsundum hærra en nú. Þetta er í sjálfu sjer ekki stór upphæð, en hún er líka áætluð, og flestar áætlanir reynast of lágar í framkvæmdinni, sjerstaklega þegar landssjóður á að borga brúsann.

Þá er gert ráð fyrir, að ríkið kosti meðlagið að 3/5, en meðlagið er 5 krónnr á dag: 2/5, eiga að greiðast úr sýslusjóðum.

Milliþinganefndin gerir líka áætlun um, hvað mörgum rúmum þyrfti að bæta við þau, sem nú eru til fyrir berklaveika — nú eru 110 rúm á Vífilsstöðum, þar af 20 fyrir börn — og telst svo til, að til þess að gott sje, þurfi að bæta við 60 rúmum, og barnahæli fyrir 30–10 börn. Eftir sama hlutfalli, sem nú er, þyrfti að styrkja 45 sjúklinga af þessari tölu, og myndi sú upphæð nema um 50 þús. krónum. Öll meðlagsfúlgan yrði eftir því um 122 þús. kr. Auk þess til styrktar barnahæla, og telur milliþinganefndin, að meðalkostnaður til þessa yrði 130–140 þús. alls. Alt er þetta auðvitað áætlun. Þá er ótalinn byggingarkostnaður, sem yrði mikill, ef gott ætti að vera ástandið í þessu máli. En ef áætlunin stenst, þá er þessi kostnaður alls ekki gífurlegur, þegar þess er gætt, hve mikilsvert er, ef hægt væri að stemma stigu fyrir útbreiðslu berklaveikinnar. Milliþinganefndin skilgreinir þannig vistarverur sjúklinga í þrent: Heilsuhæli, sjúkrahús og barnahæli.

Í 14. gr. er nýmæli um meðlagsgreiðsluna. Þar er gert ráð fyrir, að sýslusjóðir greiði meðlögin, en ekki hreppssjóðir, eins og nú er. Þetta er bygt á því, að sumir hreppar rísi ekki undir meðlagsbyrðinni, en aðrir hafa hana litla. Verður svo líklega að jafna á þá gjaldinu, eftir fólksfjölda hvers hrepps. Nefndin telur þetta atriði til bóta, þar sem rjettlætisgrundvöllur er á bak við. En nefndin telur æskilegt, að hægt væri að finna tekjustofn handa sýslusjóðum, svo hægt væri að draga úr þessum gjöldum hreppanna. En sá tekjustofn er ófundinn enn, og meðan sá hnútur er óleystur, verður að hafa þetta svona.

Í 16. gr. er nýtt mannúðarákvæði: Að menn tapa ekki rjettindum, þótt þeir þiggi fátækrastyrk vegna þessarar veiki. Þetta ákvæði er sjálfsagt, hvort sem það er skoðað frá rjettlætis- eða skynsemissjónarmiði. Það er ranglátt, að menn missi rjettindi sín vegna sjúkdóms, og menn eru engu ófærari til þess að dæma um landsmál og hafa atkvæðisrjett við kosningar, þó að þeir þjáist af þessari veiki.

Það er drepið á það í nál., að sumir nefndarmenn teldu ástæðulítið að veita barnakennurum biðlaun í 2 ár, sem ljetu af barnakenslu vegna berklaveiki, og sama um yfirsetukonur. Sjerstaklega hafa þeir greint þá ástæðu um barnakennara, að þeir væru svo vel launaðir nú, að þetta væri ástæðulaust, og að þeir hefðu, margir hverjir, eytt litlu fie sjer til mentunar umfram aðra alþýðumenn. En á þetta leggur meiri hluti nefndarinnar ekki mikla áherslu, telur það ekki líklegt, að ákvæðið valdi miklum útgjöldum, en hins vegar hafi ástæður milliþinganefndarinnar við nokkur rök að styðjast.

Eins og nál. ber með sjer og jeg hefi tekið fram, þá teljum við málið hafa gott af því, að þjóðin fái að kynnast því áður en sett eru lög í þessu efni. Við viljum því láta ræða málið milli þinga og bera það undir sýslunefndir og bæjarstjórnir, til umsagnar um praktisku hliðina. Jeg skal taka það skýrt fram, og undirstrika, að nefndin gerir ekki ráð fyrir neinum læknisfræðilegum bendingum úr þessum stöðum. Milliþinganefndin er búin að leggja þar aðalmerginn til málanna, svo ekki getur verið von á umbótum frá sýslu- og bæjarstjórnum í því efni. Hins vegar er eðlilegt, að sýslunefndir athugi kostnaðarhliðina, því að hún snertir þær mikið, sem fjárráðendur hreppanna.

Jeg hefi nú að eins stiklað á helstu punktunum, en ætla mjer ekki að eyða meiri tíma að sinni. Álít, að þessar löngu ræður í þingsalnum hafi litla þýðingu.

Nefndin vill leggja til, að málið sje afgr. með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

Með því, að frv. þetta gerir ráð fyrir miklum breytingum á heilbrigðis- og fátœkramálum þjóðarinnar, og því fylgja verulega aukin útgjöld og erfiðleikar á framkvœmd þess, telur deildin rjett, að stjórnin leggi þetta þýðingarmikla mál fyrir allar sýslunefndir og bœjarstjórnir landsins, til athugunar og umsagnar, og tekur því fyrir nœsta mál á dagskrá.

Við höfum bætt bæjarstjórnum inn í dagskrána. Jeg vil láta þau ummæli fylgja, að gefnu tilefni, að nefndin neitar því harðlega, að hún vilji drepa málið. Hún vill að eins fresta því nú. Við viljum láta því verða framgengt eins fljótt og ástæður leyfa, og það mun sýna sig, þegar málið kemur til Alþingis aftur, þegar fjárhagsörðugleikarnir verða farnir að minka, að þeir af núverandi nefndarmönnum, sem þá kunna að sitja hjer, munu veita frv. stuðning sinn.