15.03.1921
Neðri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Magnús Pjetursson:

............. *)

Út af því, sem talað hefir verið um það, eð vísa máli þessu til sýslunefndanna, skal jeg geta þess, að jeg geri ráð fyrir því, að þar sje að eins átt við hina praktisku hlið málsins. Því að jeg geri ekki ráð fyrir, að önnur atriði málsins standi til bóta á þeim stöðum, eins og jeg álít yfirleitt, að málið í heild sinni eigi ekkert erindi þangað.

Loks gat háttv. frsm. (B. H.) þess, að ekki væri ástæða til þess að eyða miklum tíma til þessa máls. Það er nú svo. Þetta mun eiga að vera sparnaður. En jeg, fyrir mitt leyti, skil nú ekki, að við höfum fremur ráð á því að flaustra af svo miklu velferðarmáli, eða fresta því um óákveðinn tíma, allra síst til þess eins að skjóta því til sýslunefnda, því að jeg tel það varhugaverða aðferð, sem mjer virðist vera hjer á uppsiglingu, að smeygja öllu af sjer yfir á þessar sýslunefndir, enda veit jeg ekki til þess, að þær sjeu neinir yfirmenn Alþingis. Alþingismennirnir sjálfir geta og eiga að ráða þessu máli til lykta, og ráða því til lykta aðeins á einn veg, með því að samþykkja þessi frv., og láta þau öll verða samferða. — Heilbrigði og velferð þjóðarinnar á heimtingu á því af fulltrúum sínum.