15.03.1921
Neðri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Pjetur Ottesen:

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði, að nú vildi allshn. reka málið aftur öfugt á nasir milliþinganefndarinnar. Þetta er algerður misskilningur. Það, sem nefndin leggur til, er að undirbúningi málsins sje haldið áfram, þeim undirbúningi, er að framkvæmdunum lýtur, og ef hann flettir upp í greinargerð allshn., þeirri, er dagskránni fylgir, þá hefði hann getað sannfærst um, að þetta er gersamlega rangt, sem hann sagði.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, og nefndin hefir hallast að, þá hljóta allar aðalráðstafanir til að spyrna á móti sjúkdómi þessum að byggjast á því að koma upp sjúkrahúsum, geta einangrað sjúklingana, fyrirbygt smitunarhættuna. En á næstu árum verður örðugt að koma því í framkvæmd. (B. J.: Hver segir það?). Jeg segi það, og stend við það, og því er það, að það gerir hvorki til nje frá, hvort frv. er samþ. nú á þessu þingi eða ekki, meðan engin tök eru á að koma aðalákvæðum þess í framkvæmd, og það spursmál er óleyst. En hins vegar held jeg enn fast við það, að margt geti við það unnist að bera frv. undir þjóðina, og það er helsta ástæða mín til þess að leggja það til, að samþykki frv. sje frestað. Og mjer finst það ekki nema áframhald af stefnu frv., að þetta sje gert.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) vildi beina því til okkar nefndarmanna, að við mundun leggja þetta til af hræðslu við kjósendur. Það getur vel verið, að háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) beri slíkan hug í brjósti. En við vísum þeim bleyðiskaparbrigslyrðum aftur til föðurhúsanna.