20.04.1921
Neðri deild: 48. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Magnús Jónsson:

Vegna þess, hve fundartími er orðinn langur, skal jeg spara mjer allar hrókaræður um þetta frv. í heild sinni, en halda mjer eingöngu við brtt. þær, sem jeg hefi leyft mjer að bera fram og finna má á þskj. 233, og býst við, að geti verið fremur fáorður, vegna þess, að þær eru flestar smávægilegar og ganga ekki í bága við stefnu frv., nema helst ein, en eru frekar til skýringar eða samræmis.

Fyrsta brtt. er aðeins til þess að búa enn tryggilegar um það, að enginn skuli taka börn til kenslu, ef hætta er á að hann eða hún hafi smitandi berkla. Að vísu á hann, eftir frv., að hafa læknisvottorð um þetta, en þar er ekki sjeð fyrir því, að neinn skuli krefja um þessi vottorð, og gæti því farið svo, að enginn tæki sig fram um það. Þurfi aftur á móti sjerstakt leyfisbrjef til þess að hafa slíka kenslu, þá er kominn þar þröskuldur á veginn, sem enginn getur komist yfir án læknisvottorðs. Jeg tel mjög áríðandi, að hjer sje vel um hnútana búið, því að mjer er kunnugt um, að í bæjum eru víða allfjölmennir slíkir skólar, og í þá ganga einmitt þau börnin, sem hættast er við smitun, sem sje innan skólaskyldualdurs. 5–10 ára. Ákvæðin um þetta mega því engu vægari vera en um aðra barnakennara. Þetta er engin breyting á frv., nema aðeins til frekari tryggingar, sem að vísu mætti ákveða í reglugerð, en jeg verð að telja miklu rjettara að ganga tryggilega frá þessu í sjálfum lögunum, þegar það er hægt.

Önnur brtt. er einnig aðeins til þess að taka skrefið ögn lengra en frv. gerir. Þar er bannað að ráða „konur“ með smitandi berkla á heimili, þar sem börn eru, en jeg get ekki sjeð, að rjett sje að gera hjer þennan mun á konum og körlum. Þó að konur hafi, ef til vill, að jafnaði meiri afskifti af börnum en karlmenn, þá verður þó hinu ekki neitað, að karlmenn geta einnig verið barngóðir, svo að börn sæki til þeirra, og geti stafað hætta af, ef maðurinn er með smitandi berkla. Mjer finst þetta og vera í beinu samræmi við ákvæði 10. gr., þar sem bannað er að taka börn til fósturs á heimili, þar sem smitandi berklar eru, ekki aðeins, ef kona er þar sýkt, heldur jafnt hvort er, karl eða kona. í raun og veru er þetta alveg hliðstætt.

Þá kem jeg að þriðju brtt., og það er hún, sem jeg tel skifta langmestu máli. í 13. gr. er, eins og kunnugt er, hjeraðslækni veitt leyfi til þess, ef skipunum hans er ekki hlýtt, að taka með valdi börn burtu af sýktum heimilum. Jeg efast ekkert um, að hjeraðslæknar mundu yfirleitt beita þessu valdi sínu með mildi og allri þeirri vægð og lipurð, sem nauðsynleg er í jafnafarviðkvæmu máli eins og þessu. En þess er að gæta, að í öllum stjettum eru til menn, sem ekki er gerlegt að fela svo mikið vald sem hjer er gert. Það eru menn, sem ef til vill eru bráðir og þóttamiklir og þykir valdi sínu misboðið, án þess að skilja þær djúpu tilfinningar, sem bak við standa, eða meta þær sem vera ber, en líta á það sem óhlýðni, er brjóta verði á bak aftur með hörku. Jeg vil ekki eiga undir þessu. En á hinn bóginn er auðvitað nauðsynlegt, að hjeraðslæknir standi ekki uppi ráðalaus, ef hann mætir verulegri þrjósku, eins og alls ekki er fyrir að synja, og hann verður að hafa vald til þess að koma nauðsynlegum ráðstöfunum í framkvæmd; aðeins vil jeg að einhver hemill sje á einræði læknis í þessu efni. Heppilegast hygg jeg að væri, að sjerstök nefnd væri hjer til taks, en hefi ekki treyst mjer til að leggja það til að skipa slíka nefnd, en vil í þess stað, að slíkir úrskurðir hjeraðslækna komi fyrir viðkomandi sveitarstjórn eða bæjarstjórn. Þessar nefndir mundu án efa fylgja lækninum til allra rjettra mála, en á hinn bóginn ætti naumast þá að vera hætta á neinu gerræði í þessu efni.

Frv. gerir að vísu ráð fyrir, að slíkar nauðungarráðstafanir hjeraðslækna sjeu eftir á bornar undir heilbrigðisstjórn ríkisins, en þó að þetta sje til bóta, tel jeg það allsófullnægjandi. Bæði dregst það oft allmikið í tímann, og erfitt að gera sjer hugmynd um það, sem heimili gæti verið búið að líða af þessa völdum. En svo er annað, sem jeg þó legg enn meira upp úr, og það er það, að heilbrigðisstjórnin mundi að jafnaði standa með lækninum, jafnvel þótt henni þætti hann hafa gengið fulllangt, og jeg tel nauðsynlegt, að heilbrigðisstjórnin geri það, því að ekki mun af veita, þótt læknar sjeu ekki lattir til þess að vera röggsamir í framkvæmd þessara laga, eða gerðir hræddir við, að úrskurðum þeirra sje oft breytt, og staða þeirra í hjeraðinu með því veikt. Jeg álít því, að heilbrigðisstjórnin verði að fylgja lækninum eins langt og hún frekast getur, jafnvel til þess, sem of freklega er að gert, og því sje hún ekki heppilegur hemill í þessu efni á einræði læknanna. Jeg legg því talsverða áherslu á, að þessi breyting verði samþ., og með því girt fyrir, að þessi bráðnauðsynlegu lög verði ef til vill gerð óvinsæl, fyrir aðgerðir og skaplesti einstakra manna.

Um síðustu brtt. get jeg verið fáorður. Það skiftir litlu máli, hvort hún verður samþykt eða ekki. Mjer fanst að eins, að þessi málsliður, sem jeg legg til að feldur sje burtu, mundi ómögulegur í framkvæmd, en best sje, að pappírsákvæðin í frv. sjeu sem fæst.

Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en fela þessar brtt. athugun háttv. deildarmanna.