20.04.1921
Neðri deild: 48. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Magnús Pjetursson*):

*) Ræðumaður hefir ekki lesið ræðuna yfir og er hún því prentuð eftir handriti innanþingsskrifarans.

*) Hjer mun vera átt við ræðu þm. (S. St.) s. d. við umr. um frv. um læknaskipun í Rvík.

Mjer þykir leiðinlegt að vera að fjölyrða um þetta, en jeg kemst ekki hjá því, vegna þessara brtt., sem hafa komið fram.

Í brtt. sinni við 16. gr. vill háttv. þm. (J. S.) að þeir endurgreiði styrkinn, sem eru þess megnugir. En svo framarlega sem styrkurinn er afturkræfur, þá er óþarfi að hafa ákvæði um það, að það verði að eins gert, ef þeir eru megnugir þess að greiða hann. Það væri ekki hægt, hvort sem væri, að innheimta hann, áður en þeir gætu greitt hann, eða fyr en þeir væru þess megnugir. Um það, að sýslusjóður geri kröfu í dánarbú, þar sem að standa fjarskyldir erfingjar, þá er því viðvíkjandi ekkert að segja, ef það væri ekki víðtækara.

Um síðustu brtt., að lögin komi ekki til framkvæmda fyr en 1. jan. 1923, þá hefir verið sagt alt, sem hægt er að segja, og þegar hin rökstudda dagskrá frá allshn. var hjer til atkvæða, þá hefir deildin látið álit sitt í ljós með því að fella hana, og sýnt, að hún vildi ekki fresta málinu.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að brtt. háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.). Við 1. brtt. er ekkert að athuga, og get jeg ekki sjeð annað en að hún sje eftir stefnu nefndarinnar. En það mun vera tekið fram í lögum, og mun tíðkast í bæjum, að það þurfi að fá leyfi stjórnarvalda til að taka börn til kenslu; samt er það ekki nema gott, að áhersla sje lögð á, að einhver taki við vottorðunum.

Hvað hina snertir, að enginn megi vistast á heimili, sem hafi smitandi berkla, þá er það afarviðkvæmt viðfangsefni, þar sem svo mikil vandkvæði eru á að fá vinnukraft í sveitunum. Og þorði því nefndin ekki að tiltaka nema konur; átti það að vera nokkurskonar viðvörun fyrir húsráðendur, um að fara varlega að vistráðningum. En þó að bóndi taki kaupamann um hálfsmánaðartíma, og hann hefði berkla, þá mætti búa svo um hnútana, að ekki stafaði hætta af, en miklu síður, ef það væri kona. Þeirra starf er svo nátengt börnunum og heimilinu, miklu fremur en karlmanna.

Þá er brtt. við 13. gr., og verð jeg að telja hana varhugaverða. Jeg er hræddur um, að ef altaf þyrfti að fá samþykki sveitarstjórnar, þá mundi það ganga tregt stundum, ef þær hjeldu að það kostaði þær einhverja peninga, þó að gera megi ráð fyrir, að bæjarstjórnir yrðu sanngjarnari. En ætti að leggja það undir heilbrigðisstjórn landsins, og þótt hún, eins og háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) gerði ráð fyrir, mundi draga taum hjeraðslækna, þá efast jeg ekki um — ekki síst ef í hlut ætti harðdrægur, harðbrjósta, reiðigjarn og bráður læknir, — að hún mundi sýna fulla sanngirni.

Um það, að sleppa þeim úr, er sýna kæruleysi, þá finst mjer, að eins mætti fella alla greinina burtu. Það skilur ekki mikið á milli þeirra, er sýna kæruleysi, og hinna, sem þrjóskast við að fara í sjúkrahús.

Jeg þakka svo háttv. deild fyrir undirtektir hennar í þessu máli, og sjerstaklega háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) fyrir þá yfirlýsingu hans, að hann mundi greiða atkvæði með frv., enda þótt brtt. hans yrðu feldar.

Þá vildi jeg skjóta nokkrum orðum til háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), af því að hann talaði eingöngu um þetta mál í ræðu sinni*. Hann talaði um, að engin þekking hefði verið sótt til útlanda í þessu máli, og að frv. væri ennþá heimskara eftir þessa utanför en áður. En jeg vil benda á það, að í nál. allshn. er hann sjálfur fylgjandi þessu frv. Það vill líka svo vel til, að það er sniðið eftir samskonar lögum útlendum, og þá helst á Norðurlöndum.

Annars þakka jeg honum titilinn, sem hann gaf mjer, og óska einskis fremur en að jeg ætti hann skilið. Hann nefndi mig „unga, framgjarna frelsishetju“, og er það einmitt það, sem jeg vildi vera.

Sami háttv. þm. (S. St.) var að tala um stjórnina í sambandi við frv., en hæstv. forsrh. (J. M.) hefir tekið af mjer ómakið, og gert að engu þau ummæli.

Jeg hefi svo ekki meira að segja, og vona að það þurfi ekki að koma til þess, að jeg þurfi að svara meiru.