20.04.1921
Neðri deild: 48. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Jón Sigurðsson:

Jeg hefi ekki miklu að svara, því að okkur ber ekki svo mikið í milli, háttv. þm. Str. (M. P.) og mjer.

Um 1. liðinn, að þar sje einungis um smáupphæð að ræða, þá má það vel vera, að svo yrði stundum. En því verður ekki neitað, að þegar við bætast fullkomin laun annara kennara, þá verður þetta tilfinnanlegt fyrir lítil sveitarfjelög. Ef þessum starfsmönnum væru, í stað biðlauna, ætluð eftirlaun, samkv. frv. um lífeyrissjóð barnakennara, sem nýlega var samþykt hjer í deildinni, mundu þeir fyllilega fá þann styrk, er þeir þyrftu, með því að segja starfinu lausu, en ríkissjóður og sveitarsjóðirnir losnuðu við talsverð gjöld.

Það var við þetta, sem jeg miðaði orð mín.

Á eitt atriði vil jeg drepa, til athugunar fyrir háttv. deild. Sje kennari lagður á sjúkrahús, þá fær hann þar alt frítt, en laun sín getur hann lagt fyrir. En það er engin meining í því, að ríkissjóður og sveitarsjóðir fari að leggja svo til sjerstakra stjetta, að það verði bókstaflega búhnykkur að verða veikur og þurfa að leggjast á sjúkrahús, en það getur orðið, ef þessi ákvæði verða að lögum.