15.02.1921
Sameinað þing: 1. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (7)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. minni hl. 1. kjörbrjefadeildar (Benedikt Sveinsson):

Herra forseti! Fyrsta kjörbrjefadeild klofnaði um það atriði, er hjer liggur fyrir. — Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir nú lýst áliti meiri hluta deildarinnar, og verð jeg þá að gera grein fyrir áliti minni hlutans.

Kjörbrjefadeildin var sammála um ýms hin einstöku atriði málsins, en um niðurstöðuna gat hún ekki orðið sammála.

Í fyrsta lið kærunnar er það til fundið, að kosið hafi verið í öll þrjú þingsætin með hlutfallskosningu, en að ekki hafi mátt viðhafa þá aðferð um þann mann, sem kosinn var í stað Sveins Björnssonar.

Nú var nýja stjórnarskráin ekki gengin í gildi, þegar Sveinn Björnsson lagði niður þingmensku og tók við sendiherraembættinu. En samkvæmt 53. gr. kosningalaganna á kosning, þegar svo ber undir sem hjer, að fara fram sem fyrst, eða svo fljótt sem henta þykir, og hefði því að sjálfsögðu átt að kjósa mann í sæti Sveins Björnssonar skömmu eftir að hann tók við sendiherraembætti. Þetta kom til umræðu hjer í bænum þegar í haust, bæði manna á milli og jafnvel í blöðum, þótt það væri lítið rætt opinberlega.

En jafnvel þótt hin nýja stjórnarskrá væri gengin í gildi, og einnig hin nýju kosningalög fyrir Reykjavík, er mjög vafasamt, hvort rjett var að beita þeirri kosningaraðferð, sem viðhöfð var. Því að í 11. gr. laga um þingmannakosning í Reykjavík segir svo:

„Ef um uppkosningu eða aukakosningu á einum þingmanni er að ræða, skal um kosningu hans fara að á sama hátt sem um kosningu þingmanna í sjerstökum kjördæmum“.

Hjer er nú vafalaust um uppkosningu að ræða, í stað Sveins Björnssonar, og átti því að fara um þá kosning sem kosning þingmanna í sjerstökum kjördæmum. Það er skýlaust, að þetta er mjög mikilsvert atriði, sem bersýnilega gat haft áhrif á öll kosningaúrslitin. Ef fylgt hefði verið ákvæðum 11. gr. þessara laga, sem jeg nefndi, við kosningu í stað Sveins Björnssonar, þá hefði ekki verið nema um tvö þingsæti að ræða við síðari kosninguna. En við það hefði hlutfallið orðið alt annað, og aðrir komist að. Mesti hlutinn einn hefði ráðið kosningu hins eina mannsins, og því ekki komið nema tveir flokkar til greina við síðari kosninguna. Hjer virðist því hafa verið brotið í bág við stjórnarskrána og gildandi lagaákvæði, á þann hátt, að áhrif hafi haft á úrslit kosninganna.

Að vísu mun mega finna það til málsbóta, að þessi aðferð hafi verið í anda þeirra laga, sem í vændum voru, um það, hvernig haga skyldi framvegis kosningum í Reykjavík. En harla hæpið er það, að láta anda þeirra laga ráða meir, sem ekki eru í gildi komin, heldur en bein fyrirmæli gildandi laga, — og svo var hjer, þegar kjósa átti í stað manns, sem kosinn var eftir öðrum lögum og eldri ákvæðum. Rjettara virðist að fara eftir ákvæðum þeirrar stjórnarskrár, sem þá var í gildi, og þau hin nýju lögin nutu sín í fullum mæli, þótt svo hefði verið gert. En eins og jeg sagði áðan, hefir þessi meðferð málsins haft bein áhrif á úrslit kosninganna.

Eins og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) tók fram, er það og vitanlegt, að aukakjörskrár þær, er kosið var eftir við þessa kosningu, voru ekki bygðar á löglegum heimildum. Það er þegar viðurkent, enda augljóst mál.

Þinginu hefir verið legið á hálsi fyrir að setja ekki sjerstök bráðabirgðalög um þetta. En það var með öllu óþarft. Kosningalögin frá 1915 eru í þessu öldungis einhlít. Því að í 11. gr. þeirra laga stendur, að „í fyrri hluta maímánaðar ár hvert skal semja aukakjörskrá, og skulu á hana settir þeir, sem að vísu hafa ekki kosningarrjett. þegar kjörskráin öðlast gildi (1. júlí), en vitanlegt þykir, að fullnœgja muni skilyrðum fyrir kosningarrjetti einhverntíma á árinu, er kjörskrá gildir fyrir, og skal um leið tilgreina þann dag, er hver þeirra öðlast kosningarrjett.“

Nú var það vitanlegt, að stjórnarskráin gengi í gildi 1. janúar, og því vitanlegt hverjir fengi kosningarrjett samkvæmt henni. Það var því ekki einungis heimilt heldur og skylt að taka þá á aukakjörskrá í maí. Þetta var ekki gert, og hefir bæjarstjórnin þar með framið lagabrot. Hún hefir síðan reynt að klóra í bakkann á síðustu stundu og semja kjörskrá yfir hina nýju kjósendur. En að tilbúningi þeirrar skrár var kastað höndunum, eigi síður en að samningu aðalkjörskrár, og allir frestir ólöglegir — ekki nógu langir — og eins sá tími, sem skrá þessi lá frammi.

En eins og kunnugt er, mega frestir allir, þegar um aukakjörskrá er að ræða, ekki vera meira en 1/3 skemri en við aðalkjörskrá. Nú er svo ákveðið, að auglýsa skuli hálfum mánuði fyr, hvenær aðalkjörskrá verði lögð fram, en síðan á hún að liggja frammi aðra 14 daga. En kærufrestur er þangað til þrem vikum eftir að kjörskrá var lögð fram. Þetta verða því 5 vikur alls, frá því auglýst er, hvar kjörskrá verði lögð fram og þar til kærufrestur er liðinn. Hjer vill nú svo til, að kjörskrá er auglýst sama dag sem hún er lögð fram. Hún liggur frammi fjóra daga og kærufrestur er ekki lengri en þessir í dagar. Hjer er því framið gífurlegt lagabrot. Bæjarstjórnin reyndi að vísu að gera bragarbót, og lengdi kærufrestinn, svo að hann varð alls 9 dagar, enda dengdi kærum svo niður, að þær urðu um 1500, að því er jeg hefi heyrt.

Þó voru margir, jafnvel þingmenn hjer búsettir, sem ekki gátu neytt kosningarrjettar síns, af því að þá vantaði á kjörskrá, þegar til kom, og er þetta rjett til dæmis um frábæra hroðvirkni við samning kjörskrárinnar.

Þegar svo farið er að kjósa, er kosið eftir fimm kjörskrám: aðalkjörskrá og aukakjörskrá, og viðbótarskrá við þær hvora í sínu lagi, og loks sjerstakri skrá yfir þá kjósendur, sem kosningarrjett fengu samkvæmt hinni nýju stjórnarskrá. Jeg veit ekki, hvort menn þekkja þess dæmi, hjer eða annarsstaðar, að kosið sje eftir 5 kjörskrám við sömu kosninguna.

Þá er þriðja atriði kærunnar, að kjördeildum væri lokað, meðan óslitinn straumur kjósenda gekk að kjörborðinu.

Eins og kunnugt er, var kjósendum, fyrir fjölmennis sakir, skift í 8 kjördeildir. Það er staðhæft í kærunni, að „kjördeildum var lokað, meðan óslitinn straumur kjósenda gekk að kjörborðinu“. Það er ekki tekið fram í kærunni, hvort þetta á að skilja alveg bókstaflega, þannig, að þeirri kjördeild hafi verið lokað, er hafði óslitið aðstreymi. En það er víst, og enda viðurkent, að kjördeild var lokað meðan óslitinn straumur var að öðrum kjördeildum. Það er hvergi heimilað, enda bersýnilega alrangt, að loka kjördeildum og meina einstökum kjósendum á þann hátt að neyta atkvæðis síns, meðan aðrir borgarar geta óhindrað kosið. T. d. er það um 7. kjördeild, að hægt er að sanna um marga, sem þar ætluðu að kjósa, eftir að búið var að loka henni og innsigla skjölin, en var meinað að kjósa annarsstaðar þótt kosning hjeldi þar áfram. Aftur á móti hafði 8. kjördeild flutt plögg sín yfir í Báruna, svo að þeir, sem þar áttu að kjósa, gátu neytt kosningarrjettar síns. Allir sjá, hve ranglátt þetta er, og mjög verulegt misrjetti.

í 4. lið kærunnar er kært yfir því, að „kjörskrárnar voru að ýmsu leyti mjög gallaðar. Þar sem á þær vantaði ýmsa kjósendur, sem fullan kosningarrjett höfðu“.

Þetta eru auðvitað almenn atriði, og ekki hægt að byggja á þessu einu ógildi kosningarinnar. Því að vanti mann á kjörskrá, á hann rjett á að kæra. Hitt er annað, þegar heila hópa vantar á kjörskrá, og fjölda manna á þann hátt bægt frá að kjósa. — samning kjörskrár svo hræmuleg, að hundruð manna vantar.

Jeg verð að leggja áherslu á það, að allur tilbúningur kjörskrárinnar hefir verið meira eða minna ólöglegur, og það svo, að mönnum var jafnvel ekki unt að tryggja rjett sinn. Hjer eru 7–8 þúsund kjósendur, og geta þeir ekki allir kært á fám dögum, og það þessa síst, ef svo mikil þröng er um kjörskrána, að menn eiga undir högg að sækja að komast inn, til þess að líta í hana, eða komast það alls ekki, eins og í vetur.

Það er að vísu ekki nýtt, þótt framin sje lagabrot við kosningar hjer í Reykjavík. En svona stórkostleg hafa þau aldrei áður verið. Síðasta Alþingi ónýtti kosning fyrsta þm. Reykv. (Jak. M.), sem nú er. Það var mikil ástæða til að ætla, að bæjarstjórnin mundi taka sjer fram. En ef marka má það, sem Alþýðublaðið segir fyrir fám dögum, er svo að sjá, sem þessi kosning sje verri en nokkurntíma áður, og hafi alla galla fyrri kosninga, en í stærra mæli.

Jeg veit ekki, hvernig Alþingi líst á blikuna, ef svo heldur fram. Það mun ekki geta látið slíkar lögleysur óátaldar. En fyrir þá, sem staðið hafa að samningu kjörskránna, væri það eftirminnilegast, að kosningin væri gerð ógild með öllu, og þá væri farið að lögum.

Jeg vil því, fyrir hönd minni hluta 1. kjörbrjefadeildar, leggja það til, að kosningin verði gerð ógild, en til vara, að frestað verði úrskurði um gildi kosningarinnar, til að rannsaka nánar kæruatriðin.

Kjörbrjefadeildin var öll samhuga um það, að þingið skyldi víta þau lagabrot, sem framin hafa verið, og að tekin skyldi ákvörðun um það.