27.04.1921
Efri deild: 53. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

21. mál, afstaða foreldra til óskilgetinna barna

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Nefndinni fanst nauðsynlegt að skilgreina í 1. gr., hvað óskilgetin börn væru, af því, að ekki er víst, að frv. um afstöðu foreldra til skilgetinna barna geti orðið að lögum samtímis þessu frv.

Á skilgetnum og skilgerðum börnum er sá „faktiski“ munur, að skilgetnu börnin eru fædd í hjónabandi, eða svo skömmum tíma eftir hjúskaparslit, að getin geta verið í hjúskapnum, og skilgetnaður þeirra er ekki vefengdur á þann hátt, sem lög mæla fyrir, en skilgerðu börnin ekki. Á rjettarstöðu skilgetinna barna og skilgerðra barna er og mismunur, sbr. 40. gr. frv. þessa.

Frv. gerir því sjálft mun á skilgetnum og skilgerðum börnum, og get jeg þá ekki sjeð, að það sje galli á skilgreiningunni í 1. gr. frv., þótt skilgerð börn komi þar ekki undir skilgetin börn.

3. brtt. nefndarinnar telur hæstv. forsætisráðherra (J. M.) óþarfa, en meinlausa. Nefndinni finst brtt. til bóta, og jeg er ekki í vafa um, að svo sje. Það er ekki ætíð gott að ákveða það með vissu, er kona fæðir barn, hvort það sje óskilgetið eða ekki. Sje barnsmóðirin ógift, er vafinn auðvitað enginn, en öðru máli er að gegna, ef móðirin er gift, þá getur barnið bæði verið skilgetið og óskilgetið, og þykir því rjettara að orða greinina eins og nefndin leggur til heldur en eins og hún er í frv.

Fyrir b-lið brtt. við 33. gr. er gerð lítillega grein í nál. Hjer er að ræða um óskilgetin börn, sem missa móður sína, meðan þau eru ósjálfráða. 33. gr. byrjar svo:

„Nú andast ógift kona frá óskilgetnu, ósjálfráða barni sínu, eða fer alfarin af landi burt, eða telst óhæf, að dómi valdsmanns, með ráði sóknarprests og hjeraðslæknis, til að ala barnið upp, og á þá faðir þess rjett til að fá umráð yfir barninu, ef hann skilgerir það, á þann hátt, er segir í 38. gr., eða þinglýsir því samkvæmt 39. gr.

Þetta gildir aðeins þegar móðir er dáin, eða svo er ástatt um hana, sem segir í greininni, og er rjettur móðurinnar því óskertur af brtt.

En það er kunnugt, að það fer ekki eftir skyldleika, hve miklu ástfóstri fósturforeldrar taka við fósturbörn sín. Og nefndinni fanst ástæða til að leyfa þeim fósturforeldrum, er haft hafa barn á fóstri um lengri tíma, meðgjafarlaust, að halda því framvegis, ef þau æskja, þótt faðirinn kynni að krefjast þess að taka það til sín.

Jeg hefi svo eigi fleiru við að bæta, en vildi mega biðja hæstv. forseta (G. B.) ið lokið hjer nógu tímanlega til þess, að ið lokið hjer nógu tímanlega, til þess að málið gæti orðið afgreitt frá þessu þingi.