27.04.1921
Efri deild: 53. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

21. mál, afstaða foreldra til óskilgetinna barna

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Út af ummælum hæstv. forsætisráðherra (J. M.) um 9. brtt. nefndarinnar við 14. gr., skal jeg taka það fram, að nefndin lítur svo á, að tryggja verði og barnsföðurinn, Því megi ekki gefa dómara leyfi til að dæma mann föður að barni, nema miklar líkur sjeu fyrir hendi.

Höfundur frv. fer svofeldum orðum um þetta í aths.: „Sannist, að karlmaður hafi haft samfarir við konu á barngæfum tíma, og sje eigi ástæða til að ætla, að aðrir hafi átt samfarir við hana um líkt leyti, virðist brotalaust eiga að dæma manninn föður barnsins“.

Nefndin er honum sammála í þessu, en fanst hann ekki hafa orðað hugsunina nógu skýrt, og vill því bæta úr því með brtt.

Jeg hefi, að sjálfsögðu, mikið álit á dómarastjett þessa lands, en tel þó ekki rjett, að þeir hafi eins óbundnar hendur og þeir hafa eftir greininni, eins og hún er orðuð í frv.