31.03.1921
Neðri deild: 31. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg býst ekki við að þurfa að vera langorður að þessu sinni, því að nefndarálitið er svo greinilegt, að þar er óvíða nokkru verulegu við að bæta. Vona jeg og, að háttv. deildarmenn hafi lesið það, þó að þeir, ef til vill, nú hafi gleymt sumu, þar sem svo langt er liðið síðan það kom fram. En þá gera þeir svo vel og rifja það upp fyrir sjer aftur, enda mun jeg þá síðar, undir umr., gefa allar þær upplýsingar, sem mjer er unt, ef þess yrði óskað. Og þótt mjer kynni að skjótast yfir að gera grein fyrir einhverju atriði, sem háttv. deildarmenn vildu vita, vænti jeg þess, að þeir geri fyrirspurnir, ef þeir þykjast þurfa frekari skýringa. Einnig vona jeg, að þeir, sem eru á móti einstökum brtt., láti til sín heyra, svo nefndin geti gefið allar þær upplýsingar, er hún telur nauðsynlegar, og borið hönd fyrir höfuð sjer.

Brtt. nefndarinnar á þskj. 129 hafa í för með sjer rúmlega 116 þús. kr. gjaldaauka, ef samþyktar verða, en þrátt fyrir það, þó að nefndinni og öðrum þyki þetta nokkuð há upphæð, þá mun vart verða litið svo á, að hún hafi getað gengið skemra, nje farið mjög öðruvísi að ráði sínu. Og þó að þessi upphæð, eins og jeg tók fram, kunni að þykja nokkuð há, þá eru ekki þar með öll kurl til grafar komin frá nefndinni, því að hún mun neyðast til að bera fram fyrir 3. umr. nokkrar brtt. Hversu miklu þær muni nema, er enn ekki unt að segja, enda þótt sumar sjeu þegar ákveðnar, þá eru þó enn eftir nokkur skjöl, sem nefndin hefir enga afstöðu tekið til, en mun, að sjálfsögðu, ákveða sig fyrir síðustu umr.

Af þessum atriðum get jeg t. d. nefnt tvo skóla, sem æskja aukastyrks. En það eru Hvítárbakkaskólinn og Flensborgarskólinn, og enn fleiri erindi liggja fyrir.

Að svo mæltu vil jeg snúa mjer þegar að brtt., og reyna, í sem allra fæstum orðum, að gera grein fyrir þeim.

Það getur verið, að fyrsta brtt. láti illa í eyrum sumra háttv. deildarmanna, af því, að þar er um launabætur að ræða, en jeg er þó sannfærður um, að ekki þurfi mörg stuðningsorð að fylgja henni, því að ofurlítil umhugsun hlýtur að vera næg til þess að sannfærast um sanngirni hennar. Ráðherrarnir hafa nú að launum, svo sem kunnugt er. enda tekið fram í nál., 10 þús. kr. á ári. Það verður ekki um það deilt, að þetta getur ekki verið nægilegt fyrir þá til framfærslu hjer í Reykjavík, og nefndin lítur svo á, að ráðherrarnir eigi ekki að þurfa að gefa með sjer, til þess að fá að gegna þessu embætti, en svo hlýtur þó að fara á þessum tímum. En það vil jeg undirstrika, að upptök þessara launabóta eru ekki komin frá ráðherrunum sjálfum, og ekki mega þær heldur skoðast sem persónubætur, enda er það skýrt tekið fram í nál. 128, að þetta er upp tekið af nefndinni sjálfri. Nefndin lítur svo á, að launa eigi ráðherrana svo, að þeir beri ekki það skarðan hlut frá borði, að þeir neyðist til að biðja hjálpar, eftir eð þeir hafa látið af starfinu. Sú braut er hættuleg; hjer er sporið stigið í rjetta átt, og það mun reynast best. Þessar uppbætur á ráðherralaununum eiga að vera fyrir árin 1920—1921, og eru því ekki bundnar við nöfn, heldur við embættin, og koma því ekki eingöngu til þeirra, sem nú sitja að völdum, heldur og til annara, sem gegnt hafa starfinu eða munu gegna því á þessum tíma.

Um næstu brtt. er það að segja, að litlu er við að bæta það, sem um hana er sagt í nál. Þó vil jeg taka það fram og undirstrika, að reiða má sig á, að maður sá, sem þarna er nefndur, er svo á vegi staddur, að hann getur ekki aflað sjer þeirrar heilsubótar, sem læknar gefa honum vonir um, nema því aðeins að ríkið hlaupi að einhverju leyti undir bagga með honum. Að vísu býst jeg við, að ýmsum hv. deildarmönnum þyki þetta hættuleg braut, sem hjer er gengið inn á, en jeg sje ekki aðra leið færa, og þó að það sje ótítt hjer, hefir slíkt þó tíðkast um langt skeið í öðrum löndum, að embættismönnum sje veitt frí um 1 ár, en haldi fullum launum, og einnig þekt hjer, að minsta kosti við stofnanir, sem ekki eru reknar af ríkinu. Og þó að nokkru öðruvísi sje farið með þennan sýslumann en hann fór sjálfur fram á, að yrði gert, þá ætti það vonandi ekki að breyta neinu. Hann fór fram á að fá styrk til þess að reka embættið upp á sína ábyrgð, en hæstv. forsrh. (J. M.) lagði til að láta hann halda fullum launum eitt ár, og að ríkið sæi um rekstur embættisins á meðan, og setti þar mann til þess að þjóna því á eigin ábyrgð. Og þessa leið hefir nefndin líka talið heppilegri.

Þá kem jeg að þriðju brtt., um styrk til sjúkrahússins á Akureyri. Er í nál. gerð grein fyrir þessari till., og þess getið einnig, að hún sje eina till., sem nefndin hafi ekki orðið sammála um, enda er nú komin fram brtt. frá einum manni úr nefndinni. En þó vil jeg bæta við það, sem áður er sagt í nál. viðvíkjandi þessum styrk, og taka fram fyrir hönd allrar nefndarinnar, að skilyrði fyrir slíkum styrk eigi fyrst og fremst að vera það, að uppdrættir og kostnaðaráætlanir sjeu sendar stjórnarráðinn til athugunar. En þetta hefir ekki verið gert, og þó að nefndin láti við svo búið standa, að sinni, er hún á einu máli um það, að út frá þeirri reglu eigi ekki að víkja í framtíðinni. Ástæðurnar fyrir því, að stjórnarráðinu hafa engin slík plögg borist, munu vera þær, að Akureyringar hafa litið svo á, að hjer væri um aðgerð að ræða, en ekki nýbygging, enda mun hafa verið svo til ætlast í upphafi, að gera aðeins við sjúkrahúsið, þó að úr því yrði samhliða nýbygging. Að vísu er þetta nýja hús ætlað til íbúðar starfsfólkinu, sem áður bjó í spítalanum, og mætti því hugsast, að Akureyringar hefðu ekki talið heyra undir áðurnefnt ákvæði. En þá má skjóta því fram hjer, til upplýsingar hv. þm., að í brjefi frá spítalastjórninni er það tekið fram, að reynist svo, að spítalinn verði samt of lítill, þrátt fyrir aðgerðina á sjálfum spítalanum, þá sje svo um hnútana búið, að taka megi 1–2 stofur í hinu nýja húsi handa sjúklingum, og er þetta því einnig sjúkrahús.

Þá kem jeg að 4. lið nál., um styrk til berklahjúkrunarfjelagsins „Líknar“. — Þetta fjelag var sett hjer á stofn fyrir aðstoð góðra kvenna. Störfum þess var að ýmsu áfátt í fyrstu, húsnæði ilt og ófullkomið, og læknir enginn. Olli því fjárskortur þá. En nú hefir fjelagið útvegað sjer ágætt húsnæði, útbúið það vel og sent hjúkrunarkonu til útlanda, til þess að kynnast fyrirkomulagi slíkra stofnana erlendis. Það var því eðlilegt, að nefndin, og ekki síst jeg, vildi styrkja þessa stofnun ríflega, þar sem hjer er um að ræða varnir gegn berklaveikinni. Það hefir að vísu heyrst, að ekki væri rjett að styrkja þessa stofnun, vegna þess, að hún væri eingöngu fyrir Reykjavík. En til þessa er tvennu að svara. Fyrst því, að bæjarsjóður Reykjavíkur styrkir einnig þessa stofnun ríflega. Og í öðru lagi er það ekki heppilegt, að hvert sveitarfjelag sjái um sig í þessum efnum, heldur þarf að vera samvinna milli sveitarfjelaga og stjórnar, og ríkissjóður að bera nokkurn hluta kostnaðar, ef að fullu gagni á að koma. Það er og ekki rjett, að þessi stofnun sje fyrir Reykvíkinga eingöngu, heldur er fjöldi utanbæjarmanna, sem gagns nýtur af þessu fjelagi, ekki síst þar sem læknir heilsuhælisins á Vífilsstöðum, Sigurður Magnússon, er nú orðinn læknir þessarar stofnunar.

Þá kem jeg að næsta lið, sem er um uppbót á launakjörum A. L. Petersen, fyrv. stöðvarstjóra í Vestmannaeyjum. Jeg verð að játa það, að mjer mun hjer verða orðfátt, því að þetta er vandræðamál og allflókið. Væri því æskilegt, að hæstv. stjórn aðstoðaði mig í því að gera málið háttv. þdm. skiljanlegt. Eftir þeim skjölum, sem nefndin hefir fengið í hendur, lítur helst svo út, sem þessum manni hafi einhvernveginn verið komið burt úr embættinu, jafnvel keyptur til þess, því að í skjölunum segir landssímastjóri, að hann hafi sagt Petersen, að ef hann segði lausri stöðunni, þá myndi hann (landssímastjóri) styðja beiðni hans um 10.000 kr. uppbót. Stjórnin sjálf hefir og mælt með því, að kröfum þessa manns verði að einhverju sint. Sjálfur fer þessi maður fram á 17000 kr. í skaðabætur. Þessi liður er í mínum augum talsvert varhugaverður. Það er óviðkunnanlegt að veita starfsmönnum uppbót á margra ára gömlum launum. Og ef slíkt yrði gert að reglu, þá yrðu þeir vafalaust allmargir, er gert gætu kröfu til slíkrar uppbótar. En það er ekki meining nefndarinnar að ganga inn á þá braut. Nefndin hefir í þessu efni farið eftir brjefi frá hæstv. stjórn, þar sem hún mælir með því, að beiðnin verði að einhverju leyti tekin til greina. Og í samtali, sem nefndin átti við hæstv. atvrh. (P. J.), þá stakk hann upp á 5000 kr. upphæð, sem nefndin svo fjelst á. Og er þetta bygt á þeirri hugmynd, að þessi maður hafi að einhverju leyti verið illa meðfarinn og orðið að ósekju fyrir tjóni.

Annars eru þessi skjöl allfróðleg, og gaman fyrir háttv. þm. að kynnast þeim. Skylt er að geta þess, að ekki er í neinu hægt að ráða það af skjölunum, að þörf hafi verið á að losna við þennan mann úr stöðunni. Þvert á móti hefir landssímastjóri gefið honum vottorð, sem ber það með sjer, að hann hafi staðið mætavel í stöðu sinni. Um næstu tvo liði og brtt. við 4. gr. held jeg, að sje óþarft að ræða, umfram það, sem fram er tekið í nál. Hvorugt er flókið atriði.

Þá kemur 8. liður nál. og brtt. 4 c. á þskj. 129. um 3000 kr. hækkun á námsstyrk mentaskólasveina. Háttv. þm. mun það kunnugt, að sá styrkur er nú 2000 kr., en í skólanum eru rúmlega 150 nemendur. Styrksins njóta að vísu einkum utanbæjarsveinar, og þá helst hinir eldri þeirra og efnilegri. Samkvæmt brjefi frá rektor eru um 40 nemendur, er þessa styrks njóta, og koma þá 50 kr. á hvern þeirra til jafnaðar. Nú geta háttv. þm. sjeð, hvaða styrkur þetta er, einar 50 kr.! Og ekki síst þegar þess er gætt, að samkvæmt skýrslu frá rektor mun vetrarkostnaður nemenda vera ca. 2200–2400 kr. til jafnaðar. En fyrir ófriðinn var þessi kostnaður ca. 500 kr.

Nefndinni fanst því sýnilegt, að ef styrkurinn ætti ekki að vera algert humbug, þá þyrfti að hækka hann, og það að mun. Sýndist henni rjettast, að styrkurinn hækkaði í samræmi við verðhækkun nauðsynja, og studdist því við vísitölu dýrtíðaruppbótar að mestu leyti.

Þessa styrks njóta einkum efnilegir og fátækir utanbæjarsveinar. En bændur hafa aldrei átt erfiðara að kosta syni sína í skóla en einmitt nú. Er hjer því önnur ástæða fyrir hendi, til þess að auka styrkinn.

Þá kemur örlítil upphæð, 300 krónur, til þess að borga fyrirlestrahald á Stýri, mannaskólanum. Skólastjóri Stýrimannaskólans skrifaði stjórninni og bað um styrk, áður en fyrirlestrarnir hófust. En stjórnin kvaðst þá ekki hafa heimild til að veita fjeð, en lofaði að mæla með því, að þingið veitti þessa litlu þóknun. Nefndin telur þetta gott verk og þarft, og vill því mæla með þessari tillögu hið allra besta. Þá hefir ennfremur fræðslumálastjóri farið fram á að fá skrifstofukostnað, þar sem skrifstofuhald hans er orðið allkostnaðarsamt, enda óhjákvæmilegt, samkvæmt starfi hans, að hafa opna skrifstofu fyrir almenning. Kveðst hann hafa farið fram á það við stjórnina að fá húsrúm fyrir skrifstofuna í stjórnarráðshúsinu. En þar var ekkert laust húsrúm fyrir hendi, og því ekki hægt að verða við beiðninni. Stjórnin hafði nú ekki heimild til að veita þetta fje, en hæstv. forsætisráðherra (J. M.) mælti með þessari fjárveitingu við fjárveitinganefnd. Nefndinni finst þá ekki nema sanngjarnt, í samanburði við aðra starfsmenn, er hafa opinberar skrifstofur, að þessi maður fengi einnig að njóta sömu kjara.

Við 11. gr. nál., eða brtt. 4.e á þskj. 129, hefi jeg engu að bæta, að svo stöddu. Nærri sama máli er að gegna um dýrtíðaruppbót til Páls Erlingssonar sundkennara. Hann getur þess, að stjórnin hafi tjáð sig ekki hafa heimild til þess að greiða honum dýrtíðaruppbót, eins og jeg líka álít að rjett hafi verið, og því snýr hann sjer til þingsins. Nefndin telur sjálfsagt að verða við ósk þessa gamla heiðursmanns, og telur hann alls góðs maklegan.

Þá hefir nefndin gengið inn á að hækka um 500 krónur ferðastyrk til fulltrúa kvenrjettindafjelagsins, til þess að fara á alþjóðafund kvenrjettindasambandsins í Sviss, þó með því skilyrði, að fjelagið leggi sjálft jafnt af mörkum. Virðist nefndinni rjett, úr því áhugi virðist svo mikill fyrir málinu hjá fjelaginu, að það leggi þá fram a. m. k. 500 krónur. En samkvæmt sanngjörnum reikningi hefir þessi kostnaður orðið um 4000 kr.

Þá kemur 14. gr. nál., sem fjallar um þrjá listamenn, er nefndinni þykir rjett að styrkja. Þessir menn hafa ekki komist á lista hjá nefnd þeirri, er úthlutar listamannastyrknum. En hún hefir þó mælt fram með sumum þeirra. Fjárveitinganefnd vill nú liðsinna þessum mönnum, af þeim ástæðum, sem teknar eru fram í nál.

Þótt fjárveitinganefnd líti svo á, að úthlutunarnefndin eigi ekki að undanskilja verðuga menn, í þeirri von, að þingið muni síðar miskunna sig yfir þá, þá sýnist henni þó rjett að taka slíkt til greina, að þessu sinni, og hjálpa þessum efnilegu mönnum, ekki síst, þar sem hún veit, að fje það, sem nefndin hefir til úthlutunar, er mjög af skornum skamti.

Við 15. liðinn, dýrtíðaruppbót til Jóhannesar L. L. Jóhannssonar, tel jeg nægilega skýringu í nál.

Þá kem jeg að 5 námsmönnum, sem í nál. eru teknir í einu lagi og ónafngreindir. Fanst nefndinni að ástæður þessara manna væru svo skyldar, að ekki væri ástæða til að skrifa sjerstaklega um hvern þeirra. Þó mun það þykja hlýða, að jeg kynni nokkuð hvern þeirra fyrir hv. deild.

Fyrsti maðurinn, Steinn Emilsson, hefir undanfarin 5 ár stundað nám í því, sem á útlendu máli nefnist „Mineralogisk Kemi og Geologi“. Hann er nú nær fullnuma í þessari grein, en vill fara suður til Jena í Þýskalandi, til þess að ljúka náminu þar. Af þessum manni er mjög vel látið, og grein hans getur vafalaust orðið oss mjög nytsamleg, í sambandi við námur hjer. Þar sem nú maðurinn er fjelaus og þarf að hætta námi, ef hann fær ekki hjálp, þá sá nefndin sjer ekki fært að neita honum. Hann hefir og ferðast hjer um land á sumrin, og kvað þá hafa safnað allmiklu af steinum og eiga allmerkilegt safn. Sýnir það, að hann er ekki áhugalaus og vill verja tímanum í þarfir greinar sinnar.

Næsti maður, Valdimar Sveinbjörnsson, stundar nú íþróttanám við kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Hefir hann fengið ágæt meðmæli, bæði frá kennurum sínum í Kaupmannahöfn og einnig hier frá Birni Jakobssyni leikfimikennara. Hann hefir nú lokið sundkennaraprófi og býst við, ef hann fær styrk, að geta lokið leikfimikennaraprófi næsta vor. En vegna fjárskorts verður hann að hætta nú, ef hann ekki fær styrk. Eins og allir vita, er hjer skortur á slíkum kennurum, en líkamsæfingar eru taldar eitt hið besta uppeldismeðal meðal siðaðra þjóða. Nefndin vildi því ekki verða til þess, að maðurinn yrði nú að hætta námi á síðustu stundu.

Brynjólfur Stefánsson hefir fjögur undanfarin ár numið verkfræði við Hafnarháskóla. Hefir hann notið Garðstyrks þau ár, en varð að hætta námi síðastliðið haust, er Garðstyrkurinn þraut. Hann er mjög efnilegur maður og námsmaður ágætur.

Nefndin vill því stuðla til þess, að hann þurfi ekki nú að hröklast út af þeirri lífsbraut, er hann hefir valið sjer og þegar lagt mikið fje í.

Næst kemur fjárveiting til Arnórs Sigurjónssonar og konu hans, Helgu Kristjánsdóttur, til framhaldsnáms. Arnór er sonur Sigurjóns Friðjónssonar alþm. frá Laugum í Þingeyjarsýslu, og mun hann vera háttv. þm. kunnur. Hann fekk 1919 utanfararstyrk kennara, til þess að kynna sjer alþýðumentun á Norðurlöndum, og hefir verið ytra síðan. Hann skýrir nú frá því, að auk þessa styrks hafi hann orðið að taka 4500 króna lán, til þess að geta haldið áfram. Eftir þeim skjölum, sem fyrir liggja, lítur svo út sem þetta sje meira en meðalmaður. Vil jeg síst rengja þau ágætu vottorð, sem með umsókn hans fylgja, frá mönnum eins og dr. Sig. Nordal, Sig. Guðmundssyni magister og prófessor Jóni Aðils. Jeg vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa tvær, þrjár línur úr hverju vottorðanna. Mun jeg með því gefa háttv. deild ljósasta hugmynd um mann þennan. — Sig. Nordal segir, meðal annars:

„Um íslenskukunnáttu hans veit jeg það sannast, að hún muni vera prýðisgóð, ekki einungis málfræðisþekking hans, heldur líka smekkur og stíll og skilningur á bókmentum.“

Og síðast í sama vottorði:

„tel jeg Arnór efni í miklu meira en meðalkennara og leiðsögumann æskumanna, og þann skóla heppinn, sem fær að njóta starfs hans.“

Sigurður Guðmundsson segir um Arnór, eftir að hafa hælt honum fyrir óvenjugóða þekkingu á íslensku máli:

„Og þau kynni hefi jeg haft af honum, að kennara með líku skaplyndi og hann kysi jeg börnum mínum til handa.“

Nú segist þessi maður vera að þrotum kominn með fje, og hefir þegar tekið lán, svo sem jeg gat um áðan, en hins vegar litlar líkur til, að hann geti fengið lán framvegis, þar sem hann hefir enga tryggingu að setja, nema framtíð sína. Þess vegna leitar hann nú til Alþingis.

Kona hans, Helga Kristjánsdóttir, leggur hið sama fyrir sig og maður hennar. Hún hefir og ágæt meðmæli, bæði frá skólastjóra kennaraskólans hjer, og einnig frá erlendum mönnum. Þessi kona gerir ráð fyrir að fara til Svíþjóðar til þess að kynna sjer heimilisiðnað þar, einkum vefnað, og síðan samband lýðskóla og húsmæðraskóla.

Þá er sá síðasti af þessum námsmönnum. Steinn Steinsson, verkfræðinemi. Þetta er síðasta árið, sem hann er við nám, og hann gerir ráð fyrir því að geta lokið við það, ef hann fær þessa hjálp; er þetta því lokaveiting.

Maðurinn er talinn efnilegur af þeim, sem hafa haft kynni af honum og þekkingu hafa á þessum fræðum, og vill nefndin því láta hann fylgjast með. Jeg vil geta þess, að hann hefir verið að vinnu með Þórarni Kristjánssyni, og hann hefir gefið honum bestu meðmæli og telur hann ágætan starfsmann og efnilegan verkfræðing. — Jeg býst við, að sumum háttv. deildarmönnum finnist annað að gera við fje nú en styrkja pilta til náms, en það verður að gá að því, að það hefir aldrei verið meiri þörf á því en nú. Þetta eru alt fátækir námsmenn, sem sumpart eru að berjast áfram upp á eigin spýtur, eða með hjálp vandamanna eða vandalausra. Og það er ofur skiljanlegt, að vegna erfiðleikanna núna verði styrktarmenn þeirra að kippa að sjer hendinni, og er þá fokið í flest skjól fyrir þeim. Er þá ekki annað fyrir hendi en leita á náðir Alþingis eða hætta námi, og þar sem þeir eru að enda nám sitt, þá er það mikið tjón fyrir þá sjálfa, og kannske ekki síður fyrir þjóðfjelagið.

Jeg veit ekki, hvort jeg þarf að fara sjerstaklega út í brtt. þær, sem hjer fara á eftir; það er skýrt frá þeim í nál., en jeg býst við að þurfa síðar að taka til máls, eftir að hafa heyrt, hvað aðrir hv. deildarmenn segja um þær, ef einhverjir kynnu að andmæla, sem ekki er líklegt.

Jeg ætla því strax að snúa mjer að öðrum brtt. en þeim, er nefndin ber fram, og þá fyrst að brtt. samgmn. á þskj. 181. Það er nú sá ljóður á því ráði, að fjvn. hefir aldrei fengið hana til umsagnar, og hefir ekki sjeð hana, fyr en henni var útbýtt hjer í deildinni. En af því, að hjer er um stóra upphæð að ræða, og ýmislegt í henni, sem fjvn. vildi fá að íhuga betur, þá eru það tilmæli mín til háttv. samgmn., hvort hún vildi ekki haga því svo, að brtt. kæmi ekki til atkv. fyr en við 3. umr., svo að fjvn. fái tækifæri til að íhuga þær; þetta gildir og um þær brtt. aðrar, sem eiga við 13. gr. C. í fjárlögunum 1920 og 1921, fjáraukalaganna, og eru á þskj. 181 og 198.

Jeg vænti þess, að háttv. samgmn. verði við þessum tilmælum, þar sem um veruleg útgjöld er að ræða, og viðkunnanlegra, að fjvn. kynni sjer þau fyrst, ekki síst, þar sem um er að ræða breytingar á samgöngunum frá því, sem nú er.

Jeg skal strax lýsa því yfir um hinar brtt., að nefndin er sammála hæstv. atvrh. (P. J.) um brtt. hans, og vill einnig styðja tillögu háttv. þm. Barð. (H. K.).

Jeg hefi svo lokið máli mínu fyrir nefndarinnar hönd, en ætla nú að tala sem þm. Strandamanna. Jeg á sjálfur brtt. um viðbótarstyrkiun til sjúkrahússins á Akureyri, að hann verði 3000 kr. lægri. Það er ekki af því, að jeg sje að amast við því, að styrkurinn sje ríflegur, heldur er þetta stefnumál. Það hefir verið föst stefna hjá þinginu að veita ekki byggingarstyrk til sjúkrahúsa eða sjúkraskýla, fram yfir 1/3 kostnaðar.

Eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja, hefir allur kostnaður orðið 120 þús. kr., og 1/3 af því verður 40 þús. kr. Þessu sjúkrahúsi hafa þegar verið veittar 23 þús. kr., og er það tillaga mín, að því verði veittar þessar 17 þús. í viðbót, og látið sitja við það. Jeg skyldi ekki amast við þessu, ef framvegis væri tekin upp sú stefna að veita meiri styrk en 1/3 af stofnkostnaði sjúkrahúsa og sjúkraskýla. En jeg býst ekki við, að slíkt ráð verði upp tekið, enda vil jeg þá benda á, að stærri atriði koma til þingsins, þar sem er að ræða um sjúkrahúsin á Eyrarbakka og Ísafirði. Gætu það orðið stórar fjárhæðir, ef farið væri út frá þessari stefnu.