31.03.1921
Neðri deild: 31. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg get ekki látið hjá líða að segja fáein orð um frv. þetta og brtt. þær, sem hjer liggja fyrir frá háttv. nefnd og frá ýmsum hv. þm. En það, sem jeg kann að segja, óska jeg að sje skoðað í sambandi við það ástand, sem nú er, og útlitið, sem framundan er. Eins og allir vita, má með rjettu segja, að ástandið fari dagversnandi og útlitið verði æ svartara og svartara. Eftir því, sem út lítur um tekjur ríkissjóðs á yfirstandandi ári, verður það að teljast áreiðanlegt, að tekjurnar minki stórum frá því, sem þær voru síðastliðið ár, og ef dæma má af líkum, verður yfirstandandi ár verra fjárhagsár fyrir ríkissjóð en nokkuð annað ár, sem jeg þekki. Jeg hefi reynt að grenslast eftir tekjunum á 1. ársfjórðungi þessa árs, og þær skýrslur, sem jeg hefi fengið, benda eindregið í þá átt, að allar tekjugreinar, undantekningarlaust, fari stórum minkandi frá því, sem var 1920. Þetta gildir meira að segja um símatekjurnar, sem hafa verið miklu minni 2 fyrstu mánuði ársins en sömu mánuði í fyrra, en annars hafa símatekjur allaf farið sívaxandi síðan síminn fyrst tók til starfa. Menn eru teknir að spara símagjöldin, og er það allgóður mælir um peningaástand almennings. Annað atriði, sem sýnir glögglega, hversu kreppan magnast, er það, að ýmsir þeirra manna, sem nú upp á síðkastið hafa flutt út síld, verða nú að biðja um umlíðun á tolli, og hefir slíkt ekki þekst fyr.

Undir þessum kringumstæðum öllum sje jeg ekki betur en að það geti komið fyrir, að fje kunni að vanta í bili til daglegra þarfa ríkissjóðs. Að þessu athuguðu, virðist mjer nauðsyn bera til að reyna að spara útgjöldin á yfirstandandi ári, og verður það gert með því tvennu, að draga úr ráðgerðum framkvæmdum og með því að bæta sem minstu við af nýjum fjárveitingum.

Með þessum formála vil jeg í fám orðum snúa mjer að hinum framkomnu brtt., sem allar miða að því að hækka gjöldin. Sný jeg mjer þá fyrst að brtt. háttv. fjvn. á þskj. 129.

Um dýrtíðaruppbót ráðherranna vil jeg undirstrika það, sem háttv. frsm. (M. P.) og nál. segir, að till. er borin fram án minstu íhlutunar ráðherranna. En verði þessi till. samþ., skil jeg hana þannig, að hún eigi að skiftast hlutfallslega jafnt eftir tímalengd milli ráðherra þeirra, sem hafa verið og verða árin 1920 og 1921, þannig, að ekki sje annars tekið tillit til verðstuðuls í dýrtíðaruppbót.

Fjárveitinguna til Ara Arnalds bæjarfógeta skil jeg þannig, að honum skuli goldinn 1/12 mánaðarlega af 9500 kr., frá þeim tíma, er hann hættir að starfrækja embætti sitt á eigin ábyrgð og þar til hann tekur við því aftur, þó ekki lengur en 12 mánuði. Ef þetta er ekki rjett skilið, bið jeg nefndina að skýra þetta.

Fjárveitingunni til aðgerða sjúkrahúsinu á Akureyri mun ekki þýða að mæla í móti, en leitt er að vera þannig táldreginn á kostnaðaráætluninni, sem hjer hefir átt sjer stað, og geta vil jeg þess, að auk þess, sem greiddar hafa verið á síðasta ári 23.000 kr. til þessarar aðgerðar, voru lánaðar 20.000 kr. úr viðlagasjóði í þessu skyni. Ef till. háttv. þm. Str. (M. P.) verður samþ., verður því alt framlagið úr ríkissjóði til þessarar aðgerðar 40.000 kr. og lán 20.000 kr.

Styrknum til fjelagsins „Líkn“ sje jeg ekki fært að gefa atkvæði mitt, þótt fjenu sje sjálfsagt vel varið, en það verður að vera til áður en það er veitt.

Uppbótin til Petersens stöðvarstjóra frá Vestmannaeyjum kemur mjer á óvart, því að jeg veit ekki betur en að hann hafi á sínum tíma sagt af sjer skilyrðislaust, og er það næsta undarlegt, að koma á eftir með kröfu um uppbætur, og skiftir í þessu efni ekki máli, hvort hlutaðeigandi hefir staðið vel eða illa í stöðu sinni. Og að því leyti sem nál. tekur fram, að ráðuneytið hafi mælt með þessari uppbót, vil jeg taka það fram, að jeg á þar alls engan hlut að máli, enda hefi jeg ekki verið um það spurður, og, yfir höfuð að tala, ekki eitt einasta atriði í till. nefndarinnar. Jeg hefi því algerlega frjálsar hendur og mun greiða atkvæði á móti þessari fjárveitingu.

Um brtt. við 4. gr. skal jeg ekki fjölyrða, að öðru leyti en því, að jeg tel maklegt að veita Páli Erlingssyni sundkennara uppbót á sundkenslustyrk hans. Það hefir verið gert hjer að blaðamáli, að jeg vildi ekki greiða honum uppbót, og mjer hefir verið ámælt fyrir það. En það er vitaskuld órjettmætt, því að jeg hafði enga heimild til þess að veita þessa uppbót. Aftur á móti ráðlagði jeg honum að fara til þingsins með beiðni sína og lofaði að mæla með henni, og inni jeg hjer með af hendi það loforð.

Jeg er algerlega mótfallinu hækkun á styrk til Kvenrjettindafjelagsins, og finst mjer það sannarlega ekki til of mikils mælst, að fjelagið greiði 1/3 af kostnaði við Svisslandsför þá, er hjer um ræðir.

Jeg veit það vel, að nauðsyn ber til að veita Jóh. L. L. Jóhannssyni uppbót á orðabókarlaunum hans, en jeg hafði hugsað mjer, að stjórnin mætti verja til þess hinum ógreidda hluta af orðabókarstyrk sonar hans, Jak. Smára, með því að hann er nú orðinn kennari við Mentaskólann og getur því, að mínu áliti, ekki sint orðabókarstarfinu, því að kennarastaða í íslensku við þennan skóla hlýtur að teljast svo mikilsverð og umfangsmikil, að ekki sje fært að hafa aukastörf. Þætti mjer gott að heyra, hvort meining háttv. fjvn. er, að maður þessi skuli halda styrk sínum, þrátt fyrir það, þótt hann hafi fengið embætti, sem hlýtur að taka alla vinnukrafta hans, ef það er rækt með þeirri samviskusemi, sem hið opinbera á kröfu á.

Laun hans sem mentaskólakennara eru 8–9 þús. kr., og sje jeg enga sanngirni í að bæta þar við 4 þús. kr., þegar venjulegt launahámark er 9500 kr. Með þetta fyrir augum mun jeg greiða atkvæði gegn þessum lið, en tel stjórninni heimilt að greiða hið sparaða orðabókarfje til Jóh. L. L. Jóhannssonar, ef nefndin mótmælir því ekki.

Þá koma allir þessir styrkir til námsmanna og listamanna. Sumum er leiðinlegt að mæla á móti, en þessir utanfararstyrkir og námsstyrkir fara nú að verða svo tíðir, að einhver takmörk verður að setja. Fjárhæð sú, er hjer ræðir um, er um 14 þús. kr., og þótt einhver þurfi styrks með, er það engin trygging fyrir því, að allir sjeu verðugir, en vandi er að gera upp á milli þeirra. Og mjer er spurn: Getur enginn þessara manna notið styrks af þeim ca. 8 þús. kr., sem veittar eru í fjárlögunum í slíkum tilgangi sem þessum?

Að nokkrir listamenn hafa orðið útundan við styrkveitinguna nú á þessu ári, kom til af því, að í fyrra fór nefndin fram á það að mega útbýta 25 þús. kr., og svo í þess stað aðeins 15 þús. kr. nú, vegna þess, að svo margir þurftu að fara til Rómaborgar. En nú kemur það upp úr kafinu, að nokkrir menn hugsa einnig til suðurgöngu nú á þessu ári. Nefndin telur styrkveitinguna skorna við nögl, og tekur ekkert tillit til þeirra 5 þús. kr., sem búið var að útbýta áður.

Þá kem jeg að eftirlaunum ekkju síra Matthíasar, sem hv. frsm. (M. P.) mintist ekkert á. Hæstu lögmælt eftirlaun ekkna eru 1200 kr. Mjer kemur það því undarlega fyrir, að ekkju síra Matthíasar Jochumssonar eru ætlaðar 2400 kr. í eftirlaun, og finst það skrítið samræmi. Jeg sje enga sanngirni í því að láta þessa einu ekkju fá alt að 6 þús. kr. með dýrtíðaruppbót, en allar aðrar ekkjur 1200 kr. Það er leiðinlegt að þurfa að tala um upphæðir sem þessa, en það verður samt að gera, til þess að reyna að fyrirbyggja það, að óánægja komi meðal annars eftirlaunafólks. Vil jeg skora á nefndina að taka þetta til íhugunar, því að jeg býst við, að það eigi að vera regla framvegis, að þessi ekkja fái þessi eftirlaun. Um eftirlaun hinna tveggja ekknanna skal jeg ekki tala; jeg veit, að þær eru báðar í sárri þörf fyrir þau.

Um lánveitinguna til sýslumannsins í Borgarnesi er það að segja, að jeg er ekki allskostar ánægður með lánsskilmálana. Mjer finst, að nefndin hefði vel getað veitt það til 40 ára, en vextina hefði jeg viljað hafa 6%, en ekki 5%, eins og nefndin gerir ráð fyrir. Viðlagasjóðsvextir eru nú 6%, og er það 2% undir bankavöxtum. Jeg vildi því skjóta því til nefndarinnar, hvort hún sjái sjer ekki fært að breyta þessu, þannig, að vextirnir yrðu færðir upp, en lánstíminn lengdur. Auðvitað er svo ekkert á móti því að lækka vextina, ef vextir lækka alment.

Hið sama er að segja um vextina samkvæmt viðaukatill. háttv. þm. Barð. (H. K.). Vextir þar ættu líka að hækka upp í 6% og lánstími að lengjast, ef þá verður hægt að veita slíkt lán, því að viðlagasjóður verður ef til vill tekinn til að koma upp veðbankanum, sem hjer var til umr. í gær. Nú, en líklega verður það ekki á þessu ári, svo þessi aths. gildir þá fyrir ókomna tímann.

Um brtt. samgnm. hefi jeg lítið að segja. Jeg skal aðeins taka það fram, að rekstrarhallinn á Sterling var síðastliðið ár 300 þús. kr., svo að strandferðir hafa kostað oss í alt, með flóabátunum, undir 600 þús kr., eins og líka hv. frsm. (Þorst. J.) rjettilega tók fram. Og jeg vona, að háttv. deild hugsi sig tvisvar um, áður en hún fer að hækka þá fjárupphæð, enda sje jeg ekki hvernig ætti að útvega alt það fje.

Viðvíkjandi ávítun sama háttv. frsm. (Þorst. J.) út af samningunum við Suðurland, þá hefi jeg hvergi komið þar nærri, en leyfi mjer að vísa til hæstv. atvrh. (P. J.).