31.03.1921
Neðri deild: 31. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jón Sigurðsson:

Jeg var hjer ekki staddur, er hæstv. stjórn lagði fjáraukalagafrv. sitt fram hjer í deildinni, og fór því á mis við þær skýringar, er hún mun hafa látið fylgja ýmsum atriðum frv. Jeg mun því ekki gera sjálft frv. að umræðuefni. En það eru atriði í greinargerð frv., sem jeg vildi gjarnan fá skýringu á.

Í aths. við nokkra liði frv. er það tekið fram sem ástæða fyrir fjárveitingum, að fjvn., eða meiri hluti nefndarinnar, hafi mælt með þeim, sennilega á síðasta þingi. Mjer kom þetta einkennilega fyrir, því að eins og kunnugt er, bar fjvn. Nd. í þing lok síðastliðinn vetur fram till. til þál. um heimild fyrir stjórnina til allmargra fjárgreiðslna. Það hefði því mátt ætla, að hv. fjvn., eða meiri hl. hennar, hefði lagt allar tillögur sínar fyrir deildina til umsagnar, en í stað þess fer meiri hl. hennar að gera till. um fjárveitingar til stjórnarinnar, á bak við deildina, og þó voru þessar umsóknir komnar skömmu eftir þingbyrjun. Hjer er í raun og veru verið að koma fram fjárveitingum á bak við þingdeildina, af hvaða ástæðum, sem það hefir verið, og væri fróðlegt að heyra hvernig stæði á þessari ráðabreytni.

Jeg ætla þá að snúa mjer að brtt. Frsm. fjvn. (M. P.) hefir óskað þess, að þeir, sem væru óánægðir með þær, ljetu í ljós álit sitt, og skal jeg því verða við þeim tilmælum.

Jeg vil þá byrja á 1. lið, um dýrtíðarbætur til ráðherranna. Þess er getið í greinargerðinni, að laun þeirra sjeu svo lítil, að þeir geti ekki lifað af þeim. En þau rök, sem færð eru fyrir því, gátu ekki sannfært mig. Jeg sje ekki, að þeir þurfi meiru til að kosta en aðrir starfsmenn ríkisins, eins og t. d. póstmeistari, landlæknir og biskup og fleiri. Þeirra hámarkslaun eru 9500 kr. Þetta má nú vera af ókunnugleika mínum, og hugsanlegt væri, hvað forsætisráðherra snertir, að risnufje hans væri ekki nóg. En ef laun ráðherranna eru ófullnægjandi, þá vil jeg slá því föstu, að laun hinna starfsmannanna sjeu líka ófullnægjandi, og þeir hljóti því að koma á eftir. Nú er líka komin fram ósk um að nema burtu 9500 kr. hámarkið, og að full 3000 kr. dýrtíðaruppbót fái að haldast. Þá yrði að fara eins með alla hina; en því þá ekki hreinlega að taka launalögin fyrir, í stað þess að gera þessar kákbreytingar. Jeg tel þessa hækkun hreinustu fjarstæðu, og því verður ekki neitað, að eins og nú standa rakir, þá eru það embættismenn ríkisins, sem best eru staddir, og þeir, sem taka laun sín í peningum.

Þá vil jeg minnast nokkrum orðum á 2. liðinn, fjárveitinguna til Ara Arnalds, sýslumanns.

Skal jeg játa það, að mig brestur kunnugleik á því, hvernig fjárhag þessa embættismanns er varið, en hitt veit jeg, að það er ekkert einsdæmi, að embættismenn verði veikir og þurfi að leita sjer lækninga og hressingar. Hygg jeg, að ef vel væri að gætt, þá væru það ærið margir, sem þyrftu þessa við. Gæti jeg tilnefnt t. d. ýmsa af eldri læknum, sem síst mundi vanþörf á að ljetta sjer upp um tíma og fara utan, þar sem þeir hafa um fjölda ára gegnt erfiðum læknishjeruðum og orðið oft og einatt að brjótast áfram í illviðrum. Líkt hygg jeg að farið væri um sumar aðrar stjettir, að þeim mundi ekki vanþörf hressingar. En ef farið er inn á þessa braut, þá fæ jeg ekki sjeð, hvar á að láta þar staðar numið, og þó að það væri auðvitað ánægjulegast að geta hjálpað öllum, þá held jeg að fjárhag okkar sje nú svo varið, að um það sje ekki að ræða, því miður. — Þetta eru því, að minni hyggju, hættulegar villigötur, sem þingið er hjer að lenda á, ef þetta verður samþykt. Á eftir þessum eina manni munu margir jafnmaklegir koma í kjölfarið. En það get jeg ekki felt mig við, að synja þess öðrum, sem einum er veitt, Ef jeg segi A, hlýt jeg líka að segja B, en það vil jeg ekki.

Þá kem jeg að 3. liðnum, uppbótinni til stöðvarstjórans í Vestmannaeyjum. Hæstv. fjrh. (M. G.) skýrði þetta mál nokkuð, en jeg verð að játa það, að mjer er þetta samt eigi vel ljóst, en einhvernveginn hef jeg það á tilfinningunni, að hjer sje eitthvað bogið við, og þá líklega af hálfu landssímastjórans. Mun jeg því greiða atkvæði á móti þessari fjárveitingu, og finst mjer eigi nema rjett, að skömmin skelli þar sem hún á heima, ef um hana annars er að ræða.

Þá hefir nefndin mælt með fjárveitingum til ýmsra einstakra manna. Skal jeg eigi fjölyrða um þær tillögur hennar, en mun sýna, hver afstaða mín er til þeirra, með atkvæði mínu; þó er það einn liðurinn, sem jeg vildi minnast dálítið á, fjárveitinguna til Ásmundar Sveinssonar. Fjárveitingin til hans er að sönnu lítil, en það er athugavert, að hann er byrjandi. Finst mjer tæpast rjett að ýta undir menn til þess að leggja út í langt nám, eins og tímarnir eru nú. Það stæði öllu nær að reyna að halda lífinu í þeim viðurkendu listamönnum, sem við eigum, en hugsa ekki um það að unga nýjum út, úr því um það getur eigi verið að ræða að styrkja alla nægilega.