01.04.1921
Neðri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Sveinn Ólafsson:

Þessar umræður hafa minst lotið að fjáraukalögunum sjálfum. Mest hafa þær beinst að fylgifiskum þeirra, brtt. Það virðist vera álit margra háttv. þm., að óhjákvæmilegt sje að veita allar þær upphæðir, sem farið er fram á. Um sumar hygg jeg þó, að geti orkað tvímælis, hversu brýnar sjeu. Það er sjálfsagt óvinsælt að ráðast á einstakar upphæðir, en hjá því verður eigi sneitt, eins þótt þær eigi allar einhverja talsmenn.

Mest ber á brtt. frá háttv. fjvn. Háttv. frsm. hennar (M. P.) mæltist til þess, að þeir deildarmenn, sem hefðu eitthvað að athuga við tillögumar, ljetu til sín heyra. Fyrir þá skuld vil jeg láta þess getið, að jeg hefði verið þakklátur háttv. nefnd, ef hún hefði viljað slá striki yfir meiri hlutann af till. sínum. En þar sem jeg geri ekki ráð fyrir, að hún verði við þeirri bón, vil jeg minnast á nokkrar einstakar till. hennar.

Að því, er kemur til brtt. við 1. gr., tel jeg fjárveitinguna til Ara Arnalds sýslumanns sjálfsagða. Þar er um neyðartilfelli að ræða, og aldrei verður vitað, hvað af því getur leitt að rjetta ekki druknandi manni hjálparhönd. En þetta er ekki hægt að segja um allar brtt.

Viðvíkjandi styrknum til sjúkrahússins á Akureyri, get jeg vel felt mig við að fylgja frsm. nefndarinnar (M. P.). Um þarft fyrirtæki er þar að ræða, en hemil verður að hafa á kröfum til ríkissjóðs.

Þá eru 5000 kr. til fyrverandi stöðvarstjóra í Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir umr. og skýringar háttv. frsm. (M. P.), hefi jeg ekki getað sannfærst um nauðsyn, þessarar fjárveitingar. Ábyggileg gögn vantar, og að telja þetta smáupphæð er ekki rjett. Margt smátt gerir eitt stórt, og bitlingafjöldinn dregst saman í stórar summur.

300 kr. styrkur til fyrirlestra við Stýrimannaskólann er að vísu lítil upphæð, en sennilega óþarfa bitlingur, enda þar nægir kenslukraftar, að því er virðist.

Viðvíkjandi uppbótarstyrknum til skólans á Núpi, þá virðist mjer þar lítil nauðsyn, og fordæmi slæmt skapað. Skólinn hefir áður fengið ríflegan styrk, sem ætti að nægja. En ef ríkissjóður á nú að fara að bæta úr alstaðar þar, sem þröngt er í búi hjá einstökum mönnum og stofnunum, þá er hætt við, að hann hrökkvi skamt. Jeg mun ekki greiða atkvæði með námsstyrkjum þeim, sem nefndin leggur til að veita, og þó síst með svo nefndum lokaveitingum. Þeir, sem þeirra eiga að njóta, hafa sumir notið áður mikils stuðnings af opinberu fje, og er mjög óvíst, að eftirtekjan verði þar nokkuð meiri en ella. Margir þessir svonefndu efnilegu námsmenn og listfengismenn, sem ár eftir ár njóta styrks af ríkissjóði, eru hreinn og beinn vonarpeningur, sem landið nýtur lítils eða einskis frá síðar. Nær hæfi þykir mjer, þegar efni eru jafnlítil og nú á slíkum styrkveitingum, að hjálpa þeim til að brjóta ísinn, sem byrjendur eru, en láta hina spila á eigin spýtur. Það eru ekki síst þeir, sem sjálfir brjóta brautina, er að gagni verða, og ef svo færi hjer, að einhver þessara manna yrði að fresta námi um stund, til að vinna sjer fyrir námsfje, þá mundi sú þrekraun, þegar markinu væri náð, fremur auka en rýra manngildið. Mestu nytjamennirnir á undanförnum áratugum hafa einskis notið af opinberu fje sjer til menningar, og væri betur, að þetta dekur við allskonar nemendur gerði þá ekki miður færa til að vinna gagn.

Jeg hirði ekki að tína upp alla hina einstöku liði, sem hjer fara á eftir. Jeg get ekki verið á sama máli og háttv. fjvn. um styrkinn til ekkju Matthíasar Jochumssonar. Það eru fleiri ekkjur í líkum sporum, sem eiga erfitt, og er ekki auðvelt að gera upp á milli hennar og þeirra. Þegar hún á að fá svona háan styrk, eða 5700 kr., er ekki óeðlilegt, að öðrum þyki sjer misboðið, því að svo gífurlegur er verðleikamunurinn ekki, að rjettlæti það. Háttv. þm. Ak. (M. K.) hefir upplýst það, að hún hafi á sínum vegum barnabörn síra Matthíasar sáluga. Það eru auðvitað meðmæli, en ekki skil jeg, að það sje vonlaust um, að hinir mörgu og góðu vinir skáldsins og vel stæðu vandamenn verði fúsir til að hlaupa undir bagga með henni. Það er að minsta kosti víst, að hún fer ekki á vonarvöl, þó hún fái ekki þessa háu fjárveitingu.

Þá eru brtt. frá háttv. samgmn. á þskj. 181. Jeg bjóst við, að fyrir henni mundi vaka að bæta úr samgönguleysinu við hin fjarlægustu hjeruð fyrir norðan og austan. í till. hennar virðist kenna meir hugulsemi við Eimskipafjelag Íslands heldur en þá landshluta, sem hjer eiga hlut að máli. Þessar 60,000 kr. eru nánast gjöf. Það getur verið, að fjelagið sje hjálparþurfi, og er þá auðvitað vel gert að styðja það. En Austfjörðum er lítill styrkur að þessu. Goðafoss kemur á þær hafnir, sem hann þykist eiga brýnt erindi til, og ekki aðrar. Hann er of dýr og stór til flutninga milli smáhafna og snúninga, og hann bætir aldrei úr flóabátsþörfinni eystra. Stærstu hafnirnar fá sambandið, og hefðu fengið, án alls styrks, því að þangað og þaðan eru flutningar svo miklir, að skipið hlaut að koma þar við. Verstöðvarnar minni og kauptúnin litlu verða hinsvegar með öllu svift því sambandi, sem þau hafa haft undanfarið. Jeg hefi aðeins sjeð uppkast að áætlun fyrir Goðafoss, en mjer er sagt, að því eigi að breyta. Mjer finst ekki viðfeldið að greiða atkv. með slíkri fjárveitingu og hjer um ræðir, og vita ekki, hvað í móti skal koma. enda mun jeg eigi gera það. Það stoðar lítið, þótt fyrirheit sje gefið um viðkomu á einni eða tveimur smáhöfnum, í viðbót við áætlun. Flestar verða útundan, og flóabátsins þörf eftir sem áður til að tengja þær saman. Þær eru yfirleitt

á Austurlandi sneyddar öllum samgöngum á landi, vegna landslags og staðhátta. Því ef það er rjett, að Goðafoss eigi ekki að koma við sunnar en á Fáskrúðsfirði, er það bersýnilegt, að undan fellur stórt svæði, s. s. suður að Hornafirði, þó undanfarið hafi þau svæði verið samtengd. Það hefir að vísu verið sagt, að Goðafoss muni gefa kost á því að koma við á Berufirði, ef nógur flutningur fáist. En það er reynsla fyrir því, að af slíkum skilyrðisbundnum ferðum verða oft harla lítil not, og um þennan stað á það auk þess oft við, að ekki er fært þangað, meðal annars vegna vöntunar vita og leiðarljósa. Yfirleitt sje jeg ekki, að háttv. samgmn. hafi tekist að spara mikið frá því, sem verið hefir, því verði fjárveitingin til Goðafoss samþykt, mun vera komið hátt upp í 600 þús. kr. til allra strandferða. Þó fást aðeins gagnslitlar ferðir fyrir Austurland, og sennilega ófullnægjandi fyrir Norðurlandi einnig.

En út af þessu hefi jeg, ásamt háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.). leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 198, þess efnis, að veittar verði 15 þús. kr. til sjerstaks báts, sem gangi milli Hornafjarðar og Seyðisfjarðar. Reyndar hefði verið betra og hagfeldara, að bátarnir hefðu verið tveir, og látnir mætast á Seyðisfirði, og gengi þá annar frá Akureyri. Gæti jeg, fyrir mitt leyti, vel fallist á það skipulag.

Því fer svo fjarri, að það sje rjett hjá háttv. frsm. samgmn. (Þorst. J.), að Goðafossferðirnar bæti upp ferðir tveggja slíkra báta milli fjarðanna innbyrðis, að smáhafnirnar fara alls á mis, þótt stærri hafnirnar fái þannig samband við útlönd.

Jeg leyfi mjer því að vænta þess, þangað til jeg sje annað, að þessari brtt. okkar verði vel tekið í háttv. deild, þar sem gert er ráð fyrir styrkveitingunni óvenju lítilli, en gagnið af henni mundi hins vegar miklu meira en af Goðafossferðunum.

Þá finst mjer ástæða til að minnast á upplýsingar þær, sem hæstv. fjrh. (M. G.) gaf í gær, um tekjur ríkisins fyrsta ársfjórðunginn í ár. Það er einmitt, ekki síst, með þær upplýsingar fyrir augum, sem jeg hefi lagst á móti ýmsum till. fjvn. Því að þessar upplýsingar um rýrnun símateknanna t. d. sýna berlega, hvað að fer. Þó lít jeg annan veg á þessa tekjurýrnun en hæstv. ráðh. (M. G.), og tel hana, að mestu, stafa af því, að símagjöldin eru nú orðin alt of há. Mjer er kunnugt um það, að sumsstaðar eru bein samtök um það að nota ekki símann, nema í brýnustu nauðsyn, og þegar síðasta hækkunin á afnotagjaldinu kom, sögðu margir símanum upp og heimtuðu, að landssíminn tæki áhöldin burtu. Og þessi hækkun símagjalds og afnotagjalds stafar, meðal annars, af síhækkandi kaupkröfum starfsfólks símans, kröfum, sem ganga óhæfu næst.

Þá vil jeg enn minnast á eitt atriði, sem hv. frsm. samgmn. (Þorst. J.) drap á, og það var, að stjórnin hefði gert bindandi samning við Suðurlandsfjelagið, og það þannig, að styrkurinn, sem skipið Hjörungavogur átti að hafa til Norður- og Austurlandsferða eftir fjárl. 1920 og 1921, gengi nú allur til „Suðurlands“, auk þeirra 25,000 kr., sem því voru ætlaðar, eða alls 125,000 kr. fyrir ferðir þess í sumar til Vestfjarða. Þessi ummæli voru síðan staðfest af hæstv. atvrh. (P. J.), þótt furðulegt sje. En þetta er nú einmitt ein ástæða þess, að við erum reknir upp á sker með samgöngur norðan og austanlands. Fjenu er varið til þessa ljelega skips, og öllu í öðrum landshluta en upphaflega var ætlað. Jeg vil því, eins og háttv. frsm. (Þorst. J.), lýsa megnustu óánægju minni yfir þessu tiltæki stjórnarinnar, þessu dekri við „Suðurland“ og sukki á strandferðastyrknum,

Jeg held, að jeg þurfi svo ekki að fjölyrða um þetta frekar, og heldur ekki um till. mína á þskj. 198, en vil aðeins geta þess, að ef hún yrði samþ., mun jeg fylgja þeim, sem fella vilja styrkinn til Goðafoss og fá annan flóabát í viðbót fyrir norðausturströnd landsins. Þá má fá marga fyrir það fje, sem nú er ætlað Goðafossi. En hann kemur, og þarf að koma, á allar stærri hafnir á þessu svæði, eins þótt styrkurinn falli niður.