01.04.1921
Neðri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg býst við, að jeg geti verið stuttorður að þessu sinni. Það hefir litlu einu verið hreytt að nefndinni, og skeytin verið meinlaus, svo þau hafa hvorki bitið nje hitt. Jeg ætla að reyna að svara þeim háttv. þm. og stj. í rjettri röð, eins og þeir töluðu, þó að vel geti verið, að jeg hafi einhverju gleymt, því að ekki hefi jeg skrifað alt niður hjá mjer, heldur treyst nokkuð á minnið.

Jeg get byrjað með að þakka hæstv. fjrh. (M. G.) fyrir þessar upplýsingar og þessa skýrslu um tekjuvonir, eða öllu heldur vonleysi, á yfirstandandi ári, en það getur ekki haft nein áhrif á nefndina, enda vil jeg með engu móti játa það, að nefndin hafi farið óvarlega og ekki litið fyllilega með sparnaðaraugum á frv., og í samræmi við það borið fram sínar brtt.; eru þær því allar svo nauðsynlegar, að minsta kosti þær, sem eitthvað um munar. Jeg vil og geta þess, að jeg get ekki um símatekjurnar verið sammála háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), og heldur ekki hæstv. fjrh. (M. G.), að símatekjurnar sjeu minni vegna fjárkreppunnar, eða vegna hækkunar á símagjöldunum. Það er ekki mælikvarðinn, heldur eru það viðskiftahömlurnar, sem gera það, að síminn er langtum minna notaður en áður. Alt viðskiftalíf liggur meira og minna í dái, og því er þörfin fyrir símanot ekki nándarnærri eins rík og áður. Hygg jeg þetta eina helstu ástæðuna.

Á það hefir verið bent af hæstv. fjrh. (M. G.) um fjárhagsvandræðin, að sumir síldarútgerðarmennirnir geti nú ekki greitt útflutningstollinn strax, eins og áður. Ef til vill er eitthvað til í þessu, en þó er mjer kunnugt um, að ef stjórnarráðið hefir neitað þessum mönnum um gjaldfrest, þá hafa þeir borgað strax. Annars hefi jeg heyrt því fleygt, að það hafi verið nokkuð af handahófi og sitt á hvað, sem stjórnin hefir gefið þennan frest, og ekki gott að henda reiður á þeim reglum, sem hún hefir farið þar eftir.

Annars þykir mjer leiðinlegt, að hæstv. fjrh. (M. G.) skuli hafa lagst á móti brtt. nefndarinnar, enda þótt jeg jafnframt voni, að það hafi engin áhrif á háttv. deild.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. fjrh. (M. G.) var að kvarta yfir, að hann hefði ekki verið spurður ráða um málaleitun stöðvarstjórans í Vestmannaeyjum, þá er það alveg satt, að svo var ekki gert, enda fanst nefndinni það óþarfi, þar sem fyrir nefndinni lá brjef stjórnarráðsins, sem sýndi fyllilega, hver væri vilji stjórnarinnar í þessu efni, og full ástæða að skoða sem meðmæli frá henni.

Þá spurði hæstv. fjrh. (M. G.), hvað nefndin hefði hugsað sjer um útborgun á styrknum til Ara Arnalds. Nefndin hefir ekkert ákveðið um það enn, hvort borga eigi hann mánaðarlega eða miða við ársfjórðungsgreiðslu, og leggur, yfir höfuð, enga áherslu á það, enda hlýtur það að verða samningsatriði milli styrkþega og stjórnarinnar. En út frá því hefir nefndin gengið sem sjálfsögðu, að styrkinn eiga að greiða frá þeim tíma, sem annar maður hefir verið settur til þess að gegna embættinu, og eins hitt, að frá sama tíma sje svo árið talið. En að öðru leyti hlýtur alt þetta að verða samningsatriði, eins og áður er á drepið.

Hæstv. fjrh. (M. G.) gat þess, að sjálfsagt væri að styrkja Jóhannes L. L. Jóhannsson orðabókarsafnara, að einhverju leyti, en að hann hefði búist við, að farin yrði önnur leið, og hún var sú, að taka eitthvað af fjárstyrk þeim, sem syni Jóhannesar, Jakobi Smára, var ætlaður. Frá fjárhagshliðinni er þetta kannske það sama, en frá stjórninni horfir það nokkuð öðruvísi við. Stjórnin hefir enga heimild til að rugla fje á milli manna í fjárlögunum, án samþykkis þingsins. Getið skal þess, að nefndin hefir enn ekki tekið afstöðu til erindis Jakobs J. Smára, og get jeg því ekki gefið ákveðin svör, en jeg vildi út af þessu leyfa mjer að leggja eina spurningu fyrir hæstv. fjrh. (M. G.) eða hæstv. stj., og á svari heimar veltur sjálfsagt talsvert um ýmsar ákvarðanir um samning fjárlaganna. Skoðar stjórnin fjárlögin aðeins heimildarlög, eða álítur hún þau skipun, sem hún sje skyld að hlýða? Þessu vona jeg að verði svarað skýrt og skorinort; jeg fyrir mitt leyti hefi litið svo á, að þar sem ekki er beinlínis tekið fram, að aðeins sje um heimild að ræða, þá sje það skipun. Svar við þessu er okkur nauðsynlegt að fá, áður en við göngum frá fjárlögunum.

Ekki datt mjer í hug, að hæstv. fjrh. (M. G.) myndi leggjast á móti styrknum til hjúkrunarfjelagsins Líknar, og allra síst vegna þess, að minst hefir verið nokkuð á starfsemi þessa fjelags við umr. um berklaveikisfrv. hjer í deildinni, og þegar þá að ekki er um meiri fjárhæð að ræða, enda kunnugt, að Reykvíkingar líta öðrum augum á þetta fjelag, og telja sjálfsagt að styrkja það. (Fjrh.: Hvað er bæjarstyrkurinn hár?). Hann er jafnhár landssjóðsstyrknum.

Þá hafði hæstv. fjrh. (M. G.) ýmislegt að athuga við styrkina til einstakra manna, og verð jeg þá að segja, að lítið legst nú fyrir kappana, þegar þeir fara að klípa nokkrar krónur út úr styrk til fátækra og fjevana, en þó að mörgu leyti efnilegra, námsmanna. En undir það get jeg tekið, að erfitt sje að greina, hvort þeir sjeu styrksins verðugir; en er nokkuð ljettara að segja um, hvort þeir sjeu hans ekki verðugir, og gæta ættu þeir þess, sem þannig tala, að þeir eru að vega í myrkri, og sá sem þannig vegur, getur komið óheppilega niður, enda hefði hverjum þm. verið innan handar að kynna sjer skjöl þau, er að þessu lúta. En úr því þeir ekki hafa gert það, þá verða þeir að fara eftir tillögum nefndarinnar, sem rannsakað hefir málin.

Hæstv. fjrh. (M. G.) talaði um utanfararstyrki og námsstyrki, en hjer er alls ekki um utanfararstyrki að ræða, heldur aðeins námsstyrki. Og í sambandi við þetta spurði hæstv. fjrh. (M. G.), hvort enginn þessara manna gæti orðið aðnjótandi þess styrks, sem veittur er í fjárlögum og ætlaður er þeim, sem leita utan til Hafnarháskóla. Sá styrkur, að upphæð 8000 kr., á að koma í staðinn fyrir Garðstyrkinn forna, sem hvarf með sambandslögunum 1918, og er því aðeins byrjunarstyrkur handa þeim stúdentum, er utan leita og ekki geta fengið kenslu hjer.

Þessir styrkir, sem nefndir eru hjer, eru eingöngu til framhaldsnáms, eða öllu heldur til lokanáms, að undanteknum einum (Brynjólfs Stefánssonar), sem nýlega hefir endað Garðvist sína. Enda er um þennan 8000 króna styrk það að segja, að hann getur varla náð langt, þegar litið er til allra þeirra stúdenta, sem leita verða til Hafnarháskóla.

Hæstv. fjrh. (M. G.) talaði um styrkinn til ekkju Matthíasar skálds. Því þarf jeg ekki að svara, því að háttv. þm. Ak. (M. K.) hefir þar tekið af mjer ómakið. Er mjer kunnugt um það annarsstaðar frá, að upplýsingar hans í því efni eru rjettar. En þótt hin háttv. deild samþykki þennan styrk nú, þá vil jeg benda henni á það, að nefndin hefir ekki tekið neina fullnaðarákvörðun um það, hvort sömu upphæð skuli veita framvegis. Hjer stóð alveg sjerstaklega á í ár. Deildinni er því í lófa lagið, þótt hún samþykki þessa fjárhæð nú, að sjá svo um, að þetta verði ekki framtíðareftirlaun. Ekki get jeg hugsað mjer, að það komi til mála, sem hæstv. fjrh. (M. G.) vildi halda fram, að þetta gæti valdið óánægju meðal annara ekkna í landinu, sem styrks njóta. Jeg trúi því ekki, að nokkur kona sje þannig skapi farin, að henni sviði, þó að ekkja þjóðskáldsins og snillingsins Matthíasar Jochumssonar njóti hærri styrks en aðrar.

Þá talaði hæstv. fjrh. (M. G.) um það, að vextirnir af lánunum væru of lágir. Spurði hann, hvort nefndin vildi ekki hækka vextina. Þessu get jeg ekki svarað nú, en sjálfsagt er, að nefndin athugi þetta. Annars finst mjer það engin gild rök fyrir að hækka vextina af þessu láni, að vextir sjeu háir nú. Lánið er veitt til 20 ára, og enginn veit, hvort vextir yfirleitt muni verða jafnháir allan þann tíma eins og þeir eru nú.

Margir hafa fett fingur út í brtt. nefndarinnar um uppbót til stöðvarstjórans í Vestmannaeyjum. Hæstv. atvrh. (P. J.) hefir nú gert nokkra grein fyrir, hvernig sá liður er til orðinn. Jeg þarf því ekki miklu að svara. Vil þó andmæla að nokkru þeim orðum háttv. þm. Barð. (H. K.), þar sem hann sagði, að þingið hefði ekki gert þessum manni rangt til, og þyrfti því ekkert að bæta.

Það mun nú að vísu rjett, að þingið hefir ekkert gert manninum rangt, en það er engu að síður skylda þingsins, ef einhver þjóna ríkisins verður fyrir rangsleitni af yfirboðurum sínum, að hjálpa honum þá eftir föngum, til þess að ná rjetti sínum.

En þá sný jeg máli mínu til hæstv. atvrh. (P. J.) um það, hvort hann hafi sett sig svo vel inn í málið, að hann viti fyrir víst, að maðurinn hafi ekki verið beittur ranglæti. Eða ef hann hefir komist að því, að maðurinn hafi verið ranglæti beittur, hvort hann hafi þá vítt landssímastjóra?

Háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) var og að fetta fingur út í ýmislegt. Hefir hæstv. forsrh. (J. M.) svarað honum að nokkru, viðvíkjandi athugasemdum hans við fjáraukalögin. Eins og hæstv. forsrh. (J. M.) tók fram, þá var hjer tímaleysi síðasta þings um að kenna, en ekki því, að fjvn. hefði ekki verið reiðubúin að koma fram með ákveðnar till. En það gat ekki unnist tími til þess á þinginu þá að ræða þessar till. Það sem fjvn. gerði, var því að eins það að heita stjórninni fylgi við þessar till., ef hún bæri þær fram á næsta þingi. Auðvitað ber stjórnin fram till. á sína ábyrgð, en aðeins með stuðningi fjvn. Það lítur og svo út, að fjvn. hafi hjer verið í samræmi við vilja deildarinnar, þar sem engar brtt. hafa fram komið við þessar till.

Þá furðaði háttv. þm. (J. S.) sig á till. um launabætur ráðherranna. Bar hann þá saman við aðra embættismenn og sagði, að ef gengið yrði inn á launahækkun á annað borð, þá þyrfti líka að hækka við þessa embættismenn, sem hann taldi upp.

Þetta hefði hv. Alþingi átt að vita fyr, að ekki ættu ráðherrarnir að hafa hærri laun en aðrir embættismenn En nú hafa ráðherrarnir hæst laun, grundvallarlaun. Þingið hefir sýnt, að það hefir álitið, að laun ráðherranna þyrftu og ættu að vera hærri en laun annara starfsmanna ríkisins. Hefir þessi háttv. þm. (J. S.) annars nokkrar sannanir fyrir því, að þessir menn, sem hann nefndi, komist af með þau laun, sem þeir hafa? Jeg tel ekki líkur til þess. Sumir af þeim mönnum, sem hv. þm. (J. S.) nefndi, hafa og aðrar tekjur að auki, en það hafa ráðherrarnir ekki. Það þykir ekki hlýða, að þeir hafi aukastörf með höndum. Og mjer finst það vera nokkuð varhugaverð braut, ef þingið á að stuðla til þess, með því að hækka ekki ráðherralaunin, að eingöngu efnamenn geti orðið ráðherrar.

Þessi sami hv. þm. (J. S.) mintist á styrkinn til Ara Arnalds. Því þarf jeg ekki að svara. Bæði hæstv. forsrh. (J. M.) og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hafa svarað því rjettilega og nægilega, að mínum dómi.

Þessi sami háttv. þm. (J. S.) mintist á styrki til einstakra manna, og þá einkum styrkinn til Ásmundar Sveinssonar. Sagði hann, að rjettara væri að hlynna heldur að þeim, sem lengra væru komnir, og láta byrjendurna sitja á hakanum. En þetta er ekki rjett hjá hv. þm. (J. S.). Ásmundur er alls ekki byrjandi. Hann hefir að minsta kosti stundað námið í 3–4 ár. Hann var í Kaupmannahöfn í fyrravetur, og áður hefir hann numið hjer heima. Segist hann sjálfur hafa eytt besta hluta æfi sinnar í þetta nám. En það, sem reið baggamuninn hjá nefndinni um þessa fjárveitingu, voru ágæt meðmæli frá Einari Jónssyni frá Galtafelli og Ríkarði Jónssyni. Undir hitt get jeg vel tekið með hv. þm. (J. S.), að rjett sje að hlynna fremur að þeim, sem langt eru komnir, og tek jeg fegins hendi við stuðning hans í því efni, því að jeg býst við, að fjvn. þurfi ef til vill á honum að halda síðar.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) var að kroppa í þennan 300 kr. styrk til fyrirlestranna í Stýrimannaskólanum, og taldi styrkinn alls ekki nauðsynlegan. Jeg átti nú síst von á því, að þetta kæmi frá manni úr sjávarútvegsnefnd. (Sv. Ó.: Jeg er ekki í þeirri nefnd). Jæja. hv. þm. (Sv. Ó). hefir verið það, og altaf sjávarútveg hlyntur og úr sjósóknarhjeraði, og því þykir mjer það koma úr hörðustu átt, er hann vill nú ekki láta greiða einar 25 kr. fyrir hvern fyrirlestur, sem að kunnugra dómi hafa verið mjög þarfir. Annars er styrkurinn hlægilega lítill, en hefir þó borið ágætan ávöxt, að dómi fróðra manna.

Sami hv. þm. (Sv. Ó.) rjeðst og á garðinn, þar sem hann er lægstur, nefnilega á þessa ungu námsmenn, en nú þykir mestur frami að ríða niður hjer í þinginu. Sagði hann, að nú væri öldin önnur en þá, er ungir menn fóru utan til að afla sjer fjár og frama. Það mun satt vera, að fáir Íslendingar fara nú utan til að afla sjer fjár. En margir ungir Íslendingar afla sjer frama þar nú. Tel jeg og engin höpp að því, að ungir menn fari utan til þess að afla sjer fjár. Það er ilt að missa efnilega menn úr landi, og lítil von, að slíkir menn vitji heim aftur. En um þá, sem framans leita, er öðru máli að gegna. Hv. þm. (Sv. Ó.) sagði og, að þessir námsmenn væru vonarpeningar. Það má slá þessu fram. En hitt hygg jeg þó sannara, að þeir menn, sem stundað hafa nám sitt með sjerstökum dugnaði um mörg ár, muni áfram halda í horfinu og verða nýtir menn og góðir. En ef þeim verða nú öll sund lokuð, og enginn hjálpar þeim, þá getur þingið gert þá að vonarpeningi, ef það vill nú ekki hjálpa.

Hv. þm. (Sv. Ó.) fanst ekki mikið, þó að þessir menn þyrftu að fresta námi um nokkur ár. Jeg held, að þessi orð hljóti að stafa af ókunnugleika hv. þm. (Sv. Ó.). Það varðar einmitt afarmiklu fyrir íslenska námsmenn erlendis að þurfa ekki að hætta náminu og sigla hingað upp til þess að leita sjer atvinnu, þegar ferðir eru svona afardýrar, ekki síst, ef þeir eru þá búnir að taka stórlán, svo að það lítið, sem þeir vinna sjer inn, fer í vaxtagreiðslur.

Eitt af því, sem þessi hv. þm. (Sv. Ó.) fann þessum mönnum til foráttu, var það, að sumir þeirra hefðu áður notið styrks frá þinginu. Þessi röksemdafærsla finst mjer alveg þveröfug. Ef Alþingi hefir áður kunnað að meta þessa menn og talið þá styrkhæfa, þá væri það nokkuð einkennilegt, ef þingið ætti nú að kippa að sjer hendinni og klípa af þeim styrkinn, þegar verst gegnir. Nei, einmitt af því, að þingið hefir áður veitt þessum mönnum styrk, þá er það skylda þess að halda styrknum áfram, meðan þörf er og mennirnir hafa í engu af sjer brotið.

Jeg man nú ekki eftir mörgu fleiru í ræðum hv. þm. er jeg þyrfti að svara. Þó gleymdi jeg að svara ræðu hv. þm. Barð. (H. K.). er hann talaði um launabætur ráðherranna og fanst ekki ástæða til að hækka launin. af því að ráðherrarnir hefðu ekki beðið um það sjálfir. Jeg held nú sannast að segja, að nefndin hefði ekki orðið fúsari að mæla með þessari hækkun, þó að ráðherrarnir hefðu fram á hana farið. Annars vildi þessi hv. þm. (II. K.) ekki fara mikið út í þetta mál, „eftir því sem ástæður væru“. Jeg skildi ekki þessi orð hv. þm. (H. K.). Mjer skilst, að um þetta mál megi tala hjer eins og hvert annað, og þetta er engin persónuleg uppbót eða ívilnun til þeirra ráðherra. er nú sitja.

Út af styrknum til Ara Arnalds spurði sami hv. þm. (II. K.), hversvegna nefndin hefði ekki mælt með styrk til Sigvalda læknis Kaldalóns, þar sem líkt stæði á fyrir þessum mönnum báðum. Fanst mjer hann vilja víta nefndina fyrir þetta tiltæki. (H. K.: Nei, nei!). Jæja. En nefndin fjekk þau skjöl svo seint í hendur, að hún hefir ekki enn þá getað athugað þau. En hún mun taka þau til íhugunar bráðlega.

Að lokum vil jeg þakka háttv. meðnefndarmanni mínum, sem hefir styrkt mig við umræðurnar og hlaupið í skörðin.

Þá vil jeg svara háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) og háttv. þm. Ak. (M. K.) vegna brtt. minnar. Það mun nú engan á því furða. Þótt þessir menn vilji fá upphæðina sem hætta til sjúkrahússins. En háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) má þó ekki leggja svo mikið kapp á þetta mál, að hann þess vegna fari ekki með rjett mál. Hann sagði, að sjúkrahúsið hefði keypt geislalækningaáhöldin sjertaklega, án þess verð þeirra kæmi fram í þessum 120 þús. kr. En samkvæmt reikningnum eru þessi áhöld reiknuð með í þessum 120 þús. kr. (St. St.: Ómögulegt!). Ef hv. þm. (St. St.) vill rengja þetta, þá getur hann sjeð það sjálfur á reikningnum. Jeg styðst hjer ekki við annað en þau skjöl, sem fyrir liggja.

Jeg vil og benda hv. deild á það, að ef þeim sið væri nú fylgt, sem áður hefir verið hafður, þá kæmi ekki til mála að veita þessu sjúkrahúsi jafnmikinn styrk og brtt. mín fer fram á. Venjan hefir nefnilega verið nú, að veita aðeins 1/3 byggingarkostnaðar. En í þessum reikningi er fleira falið. En fyrir mitt leyti hefi jeg ekkert á móti því, að sú stefna sje upp tekin að reikna allan stofnkostnaðinn, og veita þá framvegis 1/4 stofnkostnaðar.

Þessir háttv. þm. (St. St. og M. K.) hafa haldið því fram, að hjer væri um nokkurskonar landsspítala að ræða, þar sem þangað vitjuðu menn úr öllum landsfjórðungum. Þetta er að vísu rjett, en þó ekkert nýtt. Jeg býst ekki við, að það sje nokkurt sjúkraskýli á landinu, þar sem ekki hafa verið fleiri eða færri utanhjeraðssjúklingar. Gæti jeg í því efni t. d. bent á næsta súkrahúsið fyrir vestan Akureyri. Það gengur ávalt svo, að sjúklingar fara nokkuð sitt á hvað.

En ef þinginu virðist rjett að styrkja hin stærri sjúkrahús með tiltölulega hærri styrk, þá verður að ákveða þá stefnu, því að nú er verið að byggja stór og afardýr sjúkrahús bæði á Ísafirði og Eyrarbakka.

Hv. þm. Ak. (M. K.) fanst þessi brtt. koma úr hörðustu átt. En jeg vil segja háttv. þm. Ak. (M. K.) það, að jeg hefi fremur dregið taum Norðlendinga í heilbrigðismálum, og síst verið á móti þeim kröfum, er þeir hafa borið fram með sanngirni í þeim málum. Jeg hefi aðeins borið fram þessa brtt. af því, að mjer virðist hún sanngjörn, en alls ekki af smámunasemi. Jeg veit, að þessi upphæð er lítil. En ef sú stefna verður tekin upp hjer í þinginu að hækka styrk til hinna stærri sjúkrahúsa, þá getur hún síðar meir haft allmikinn kostnað í för með sjer. Hefi jeg áður minst á sjúkrahúsin á Ísafirði og Eyrarbakka, og mun annað þeirra kosti að minsta kosti 1/4 miljón, og hitt enn þá meira.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að 6 af 7 nefndarmönnum væri till. nefndarinnar fylgjandi. Jeg veit ekki, hvaða sannanir þm. hefir fyrir því. Það hefir ekkert komið í ljós um það enn við umr. En við atkvæðagreiðsluna mun það sjást. hvort jeg stend hjer einn uppi.

Því hefir verið haldið fram, að Röntgenáhöldin geri aðsóknina að Akureyrarsjúkrahúsinu meiri. Það má vel vera, að svo sje í bráð. En slík áhöld eru tiltölulega ódýr — áhöldin á Akureyri hafa kostað einar 7500 krónur — og jeg býst við því, að flest sjúkrahús fái sjer slík tæki í nánustu framtíð.

Annars vil jeg geta þess, af því að jeg ann heilbrigðismálunum töluvert, að mjer þótti leitt, að það skyldi vera gert við spítalann á Akureyri. Hv. þm. kann nú að þykja þetta undarlegt. En jeg hefi þann skilning, að þeim hefði verið betra að byggja nýtt sjúkrahús, því að með því móti hefðu þeir getað gert miklu meira gagn heilbrigðismálum hjeraðsins, og sennilega einnig berklavarnamálunum. sjerstaklega í Norðlendingafjórðungi.