01.04.1921
Neðri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg þarf að svara fyrirspurn háttv. frsm. (M. P.) um það, hvort undanþágur um greiðslu á síldartolli hafi verið veittar svona sitt á hvað. Jeg veit ekki annað en að allir, sem um það hafa beðið síðan á nýári, hafi fengið þær, en fyr var, af reikningslegum ástæðum, ekki hægt að veita þær.

Jeg sagði viðvíkjandi uppbótinni til Petersens, að jeg hefði ekki verið spurður um hana, og jeg tók það jafnframt fram, að jeg hefði ekki verið spurður um neitt viðvíkjandi fjáraukalögunum. En jeg sagði það ekki til að ámæla nefndinni. Þar sem hv. frsm. (M. P.) mintist á, að ráðuneytið hefði lagt það til, að hann yrði veittur, þá er það vitanlega atvinnumálaráðuneytið eitt, en ekki allir ráðherrarnir.

Jeg er sammála hv. frsm. (M. P.) um borgunina til hr. Arnalds, en mjer skilst, að þar sem styrkurinn er árslaun embættisins, eigi ekki að borga hann út í stórslump, heldur eins og laun.

Háttv. frsm. (M. P.) ljet í ljós þá skoðun, að það væri ekki heimilt að færa fjárhæðir milli manna í fjárlögunum. Jeg játa, að svo er ekki yfirleitt, en vitaskuld getur þingið gert það, ef það vill, og það er þetta, sem jeg nú fer fram á í sparnaðarskyni.

Fyrirspurn hv. frsm. (M. P.) um, hvort skoða bæri fjárveitingar í fjárlögunum sem skipun eða heimild, er því að svara, að þar eru ýmist skipun eða heimild. Nánara svar er ekki hægt að gefa í einu lagi. Allir vita, að það er alls ekki tilætlunin að greiða alt, sem veitt er í fjárlögum. Það getur ýmislegt komið fyrir, sem veldur því, að ekki skuli greiða styrki. T. d. ef maður, sem veittur er styrkur til ákveðins verks, lýsti því yfir, að hann vildi ekki vinna að verkinu. Stjórnin verður því að meta eftir atvikum, hvort rjett sje að greiða eða ekki.

Mjer þætti gaman að sjá. hvort það yrði ofaná í deildinni, að þeir menn, sem fengju orðabókarstyrkinn, þyrftu ekki að vinna fyrir honum.

Háttv. frsm. (M. P.) virtist taka það svo, að jeg væri að mótmæla styrknum til fjelagsins „Líkn“, en það var alls ekki svo. Jeg átti við það, að maður yrði að hafa peninga til að borga aðrar styrkveitingar, því að það er ekki nóg að lofa, maður verður líka að sjá sjer fært að borga. Jeg játa það, að mjer þykir leiðinlegt að þurfa að mæla á móti styrk til námsmanna, því að vitaskuld er þeim oft nauðsynlegt að fá hjálp, en jeg skal taka það fram, eins og jeg gerði í gær, að það er örðugt að veita þeim mönnum styrk, sem maður veit engin deili á. Hv. frsm. (M. P.) talaði um, að ekki ætti að fella styrkveitingar í blindni, en það má þá eins segja, að ekki ætti að samþykkja þær í blindni. Nema það sje meiningin, að maður eigi að trúa fjvn. blint, (M. P.: Það á að trúa henni), að hún sje hinn eini rjetti dómari í þessum efnum og meti alt rjett. Annars er um alla þessa styrki það að segja, að jeg sje ekki annað, en að stefnt sje í hreina vitleysu með þeim öllum. Einhver takmörk hljóta að vera fyrir þingið, fyrir heimild þess til að fara í vasa landsmanna eftir fje.

Hvað viðvíkur Ásm. Sveinssyni, þá skildist mjer, að þetta væri hans fyrsta ár erlendis. (M. P.: Annað ár; hefir dvalið í Kaupmannahöfn frá því 1919). Jæja, en hann mun þó varla vera kominn að námslokum.

Það er hálfleiðinlegt að þurfa að vera að minnast á eftirlaun ekkju Matthíasar Jochumssonar, en ef átt er aðeins við þetta ár, þá ætla jeg ekki að segja neitt fleira um það.

En fyrst háttv. frsm. (M. P.) er svo fastur á samræminu með veitingar til sjúkrahúsa, þá ætti hann líka að vera það um eftirlaun ekkna, en ekki taka eina ekkju út úr og láta hana hafa margfalt hærri eftirlaun en nokkra aðra ekkju á landinu.

Það er misskilningur hjá háttv. frsm. (M. P.), að hægt sje að hækka vexti á veittum lánum. Það er aðeins hægt að lækka þá, en ekki hækka, frá því er í byrjun var um samið.

Háttv. frsm. (M. P.) og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) álitu það, að símatekjurnar hefðu lækkað vegna þess, að símagjöldin hefðu hækkað, og er það alt önnur ástæða en jeg álít vera til þessa, en það þýðir ekki að deila um það hjer. Jeg skal þó geta þess, að hækkun hefir ekki eins mikla þýðingu eins og menn halda, því að lækkunin á tekjunum er aðallega á skeytasendingum til útlanda, en taxtarnir á þeim hafa verið óbreyttir.