02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jón Þorláksson:

í þeim umr., sem fram hafa farið, hefir lítið verið talað um frv. sjálft, enda er þar mestmegnis um að ræða upphæðir, sem verður að greiða, hvort sem mönnum líkar betur eða ver. Það þýðir ekki að fárast um orðinn hlut, en þó eru álitlegar upphæðir, sem æskilegt hefði verið að losna við, og stafa þær af mistökum liðinna ára. Jeg á þar aðallega við 8. og 9. lið 5. gr. En jeg vil ekki gera þetta að umtalsefni, fremur en aðrir, og sný mjer þess vegna að þeim brtt., sem fram eru komnar, og mun víkja að þeim einum, sem jeg finn sjerstaka ástæðu til að minnast á.

Fyrst verður fyrir mjer brtt. um stöðvarstjórann í Vestmannaeyjum. Það hafa komið fram ummæli í þá átt hjer í deildinni, að ef manni þessum hafi verið gert rangt til, þá eigi sá að bæta, sem órjettinum olli, í þessu tilfelli landssímastjóri. Þetta er bygt á misskilningi. Jeg veit ekki til, að um annað sje að ræða en það, hvort maður þessi hafi borið nóg úr býtum úr landssjóði fyrir starf sitt, eða ekki. Og þá er sök landssímastjóra ekki önnur en sú, að hann hefir verið fastheldinn á fje landssjóðs, eins og hans er vandi og eins og honum ber skylda til. Það kemur þess vegna ekki til mála, að hann greiði úr eigin vasa þá uppbót, sem sanngjörn þykir, ef uppbót á að greiða á annað borð. En um það ætla jeg ekki að tala, aðeins benda á þennan misskilning, sem hefir gert vart við sig í deildinni.

Þá vil jeg minnast á brtt. um námsstyrkinn, og jeg vil vekja athygli á því, að sjerstök ástæða er til þess að styrkja verkfræðinema, ef námsmenn ytra eru styrktir á annað borð, og þó að engir yrðu styrktir aðrir en þeir. Það stendur svo á, að hinn almenni mentaskóli hjer hefir ekki veitt nemendum sínum nægan undirbúning til verkfræðináms, og þeir, sem það vilja stunda, verða að eyða einu ári til þessa undirbúnings umfram aðra. En skólar í Danmörku veita nemendum sínum þennan undirbúning, og standa Íslendingar því ver að vígi að þessu leyti. Eins má benda á það, að þeir, sem leggja stund á aðrar greinar, þurfa engan aukaundirbúning frá mentaskólanum, og standa því verkfræðinemar ver að vígi en aðrir. Úr því að ríkissjóður hefir sparað sjer þessi útgjöld, og sá sparnaður hefir bitnað á þessum nemendum, virðist aðeins sanngjarnt, að þeim sje veittur einhver styrkur. Annað atriði er einnig athugavert í þessu sambandi. Það má nærri því segja, að það sje til ills eins, að háskólalærðum mönnum fjölgi um of, fram yfir þarfir þjóðarinnar, en þeim þörfum er enn ekki fullnægt hvað verkfræðinga snertir. Það hefir verið svo, og er enn, að nýir menn frá prófborðinu, sem vantað hafa verklega reynslu og þekkingu, hafa orðið að taka að sjer vandamikil störf þegar í stað. En verkfræðingum þarf að fjölga svo mikið, að nýir menn neyðist til þess að dvelja erlendis fyrst um sinn og afla sjer meiri þekkingar og reynslu, áður en þeir eru settir í vandamiklar stöður hjer heima. Þetta ætti einnig að vera ástæða, sem mælti með námsstyrk til þessara manna.

Þá er viðaukatillaga á þskj. 138, um rekstur silfurbergsnámunnar í Helgustaðafjalli. Það er athugandi við þá till., að upphæðin, sem heimilt er að lána, er ekki tilgreind. Jeg álít, að þetta sje ekki rjett aðferð, að veita óákveðnar upphæðir eða lánsheimildir á fjárlögunum eða fjáraukalögunum, þó að slíkt verði að gera í öðrum tilfellum. í þessu tilfelli ber sjerstaklega að leggja áherslu á það, að upphæðin sje tilgreind, því að það gefur tryggingu fyrir því, að kostnaðaráætlun hafi verið gerð, og ekki verið rasað að neinu. Í sambandi við þetta verður að mælast til þess, að ekki sje bygt eingöngu eða athugunarlaust á kostnaðaráætlun, sem gerð sje af verkfræðingi, sem nýkominn er frá námi, því að enginn verkfræðingur er fær um að gera kostnaðaráætlanir, nýkominn frá námi. Við námið fæst ekki sú þekking, sem til þess er nauðsynleg, þó að nýir verkfræðingar geti leyst önnur störf vel af hendi. Stjórnin á völ á nægilega mörgum reyndum mönnum, sem geta gert áreiðanlega áætlun, og þarf því ekki að treysta eingöngu á óreynda menn. Jeg vil því spyrja hæstv. atvrh. (P. J.), hvort eigi megi vænta til 3. umr. brtt. í þá átt, að lánsupphæðin verði færð inn, samkvæmt slíkri áætlun. Jeg hefi talað um það, hve varhugavert er að fela óreyndum mönnum að gera kostnaðaráætlanir, meðfram vegna þess, að ein af stærstu upphæðunum í stjórnarfrv. á rót sína að rekja til þess, að kostnaðaráætlun var gerð af óreyndum manni, sem var vel að sjer í sinni grein, en hafði ekki þekkingu til að áætla kostnað, sem ekki var von.

Um samgöngur á sjó vil jeg fara örfáum orðum. Það var tekið fram af háttv. frsm. samgmn. (Þorst. J.), að styrkurinn til Eimskipafjelags Íslands er fyrir það að láta Goðafoss sigla eftir áætlun. Það er álit fjelagsins, að eins og útlit er nú um vöruflutninga sje vænlegra til fjefanga að sigla ekki eftir áætlun, heldur taka við farmi eftir því, sem býðst, og fara á þær hafnir einar, sem þurfa svo mikinn flutning, að ferðin beri sig. Þess vegna hafa ferðir fallið niður á síðasta ári til ýmsra hafna, því að farmur hefir ekki verið nægur til að borga ferðina, og ef sigla á til slíkra hafna, verður fjelagið að fá styrk til þess, ef það á ekki að bíða halla. Nefndin var ekki í vafa um það, að mikil bót væri að föstum áætlunarferðum fyrir Norður- og Austurlandi, bæði hvað snertir samgöngur við útlönd og eins milli hafnanna innbyrðis. En hitt er annað mál, hvort fjárhag landsins sje þannig varið, að hægt sje að leggja fram það fje, sem til þessa þarf, og vil jeg ekki gera það að umtalsefni. Þá vil jeg geta þess, að síðan þetta kom til tals, hefir sú breyting orðið á, að vinnuteppa hefir orðið í Danmörku, og getur Goðafoss því ekki orðið eins fljótt tilbúinn og ætlast var til, en þó mun hægt að fá annað skip í hans stað, ef þessi till. verður samþ. Þeirri fyrirspurn var beint til mín frá háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst J.), hvort Gullfoss mundi sigla eftir áætlun, og get jeg ekkert um það sagt, en það er miklum erfiðleikum bundið, og er fjárhagsáhætta að gefa út ferðaáætlun, meðan alt er eins óvíst og eins mikið los er á öllu viðskiftalífi og nú.

Jeg verð að fara nokkrum orðum um till. á þskj. 198, um styrk til bátaferða milli Hornafjarðar og Seyðisfjarðar. Jeg hefi þá sjerstöku ástæðu til þess að minnast á þessa till., að háttv. frsm. (Þorst. J.) er þar á öðru máli en meiri hluti nefndarinnar. Nefndinni barst umsókn frá kaupmanni Þórhalli Daníelssyni í Hornafirði, og fór hann fram á 15 þús. kr. styrk til þess að halda uppi þessum ferðum fyrri hluta ársins eins og að undanförnu. Áður hefir hann haldið uppi samskonar ferðum, og þá styrklaust, en nú eru kringumstæður nokkuð breyttar, en þó eru ferðirnar byrjaðar þetta ár. Og það er með þessar ferðir eins og margar aðrar, að þær bera sig ver, ef fylgt er fastri áætlun; það er hentast að fara þær þegar þörf þykir. Síðan barst nefndinni meðmælaskjal með þessari styrkbeiðni, frá útgerðarmönnum á Austfjörðum, og umsögn sýslumannsins í Suður-Múlasýslu, í þá átt, að ferðirnar væru nauðsynlegar. Jeg geri ekki ráð fyrir, að sá styrkur, sem till. á þskj. 198 fer fram á, sje miðaður eingöngu við þessar ferðir hr. Þórhalls Daníelssonar. (Þorl. J.: Alls ekki). Styrkbeiðnin mun vera sprottin af því, að svæðið milli Hornafjarðar og syðstu fjarðanna á Austurlandi er samgöngulaust. „Suðurland“ fer ekki lengra en að Hornafirði, en „Sterling“ kemur þar ekki við. Djúpivogur er næsti viðkomustaður fyrir austan. Það gæti því komið til mála að veita styrk til ferða milli Hornafjarðar og Djúpavogs, og láta þær ferðir standa í beinu sambandi við ferðir „Sterlings“. En hitt er ekki hyggilegt að teygja þessar ferðir yfir alla Austfirði, og jafnvel norður að Skálum, eins og háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) fer fram á. Slíkar samgöngur eru landinu ofvaxnar. Skip koma frá útlöndum og fara áætlunarferðir frá einni höfn til annarar. Strandferðaskipið tínir upp sömu hafnir, og þó er farið fram á, að flóabátar fari milli þessara sömu hafna. Jeg sje ekki, að ríkissjóði sje fært að styrkja allar þessar ferðir, eins og hag hans er háttað nú. Auk þess má benda á það, að Hornafjarðarbáturinn á ekki að fara fastar áætlunarferðir, og er varhugavert að styrkja báta, sem haldið er út þegar best lætur með flutning, en annars ekki.

Háttv. þm. hafa talað um það, að tillag landssjóðs eigi ekki að fara fram úr helmingi útgerðarkostnaðar, og það hefir það ekki gert. En jeg held, að þetta sje ekki rjettur mælikvarði. Jeg sje ekki skyldu ríkissjóðs til þess að styrkja allar samgöngur, sem menn telja æskilegar, með helmingstillagi, og á þessum tímum ber að líta á það eitt, sem nauðsynlegt er og ekki verður hjá komist. Samgöngur á sjó hafa kostað ríkissjóð um 600 þús. kr. síðasta ár, og jeg get ekki neitað því, að jeg sje eftir þeim peningum. Jeg vil heldur láta verja fje landsins til einhvers, sem ber ávöxt fram yfir það ár, sem veitt er til.