02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Háttv. frsm. (M. P.) kom með þá fyrirspurn til stjórnarinnar, hvort fyrverandi stöðvarstjóra Petersen í Vestmannaeyjum hefði verið gert rangt til, og ef svo væri, hvort hlutaðeigandi embættismaður, sem þar átti sök á, hefði eigi fengið ofanígjöf. Þessu er því að svara, að þegar jeg sendi háttv. fjvn. skjölin, ásamt meðmælum um uppbót til manns þessa, þá gerði jeg þetta sökum þess, að mjer fanst, þegar jeg hafði athugað skjölin og jafnframt fengið kunnugleika af málinu á annan hátt, að það væri sanngjarnt að bæta honum einhverju, en þó ekki svo miklu, sem hann fer fram á eða landssímastjóri leggur til. Mjer fanst, að enda þótt margir hefðu orðið hart úti fyrir sparleg laun, þá mundi hann þó hafa orðið það öllu frekar en aðrir. Að yfirboðara hans verði nokkur sök gefin á því, getur eigi komið til nokkurra mála. Það hefir verið reynt að fara sparlega í launaveitingum við símann fram undir þetta, og þar er orsökin. Hjer er því eigi verið að bæta fyrir neinn glæp, sem unninn hafi verið gegn þessum manni. Annars er jeg algerlega ófáanlegur til að ræða þetta mál lengur hjer, og tel það alls ekki viðeigandi. Þá vil jeg minnast á athugasemd háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), og er það rjett hjá honum, að það var af vangá hjá mjer, að jeg tók ekki upphæðina, 70,000 kr., inn í brtt. mína, og er jeg honum sammála í því, að rjett sje að leiðrjetta þetta til 3. umr.

Áætlunin er eftir Helga Eiríksson námaverkfræðing, sem á að reka námuna, en um það spurði jeg hann eigi, hvort hann hefði stuðst við álit eldri og reyndari manna. Tel jeg rjett að gera það, ef þess er kostur.