02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg bjóst reyndar við að draga til 3. umr. þessar athugasemdir mínar, en verð, vegna atkvæðagreiðslunnar, að koma með þær nú, þó að umr. sjeu orðnar langar.

Út af því, sem sagt hefir verið um samningana við Suðurland, verð jeg að vísa til þess, sem jeg hefi áður skýrt frá um það mál, sem sje, að nauðsynlegt var að semja á þessum tíma sem gert var, vegna samræmis við Sterlingsáætlanir. Það má kannske eitthvað að skipinu (Suðurlandi) finna til þessara ferða. En jeg held, að háttv. þm. Barð. (H. K.) þekki reyndar lítið til þess. Annars get jeg getið þess, að ráðunautur stjórnarinnar í þessu efni hefir verið E. Nielsen framkvæmdastjóri, og mun hann ekki síður bera skyn á þetta en þeir háttv. þm., sem fundið hafa að þessu hjer.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) talaði í þá átt, að illa hefði verið varið fje því, sem áætlað var til strandferða 1919. Mjer finst eins og Austfirðir hefðu átt að eiga sjerstakt tilkall til þessa fjár, eftir andanum í hans ræðum að dæma, en svo mun þó varla hafa verið. Þó að nokkuð hafi verið treyst á Þorsteins Jónssonar ferðirnar í þinginu, þá var nú eiginlega gengið út frá því hjer undir þinglokin, að Þorsteinn myndi segja sig frá samningunum, og það var mín skoðun, og stjórnarinnar yfir höfuð; enda virðist mjer, sem þetta Þorsteins skip hafi aldrei verið annað en hugmynd, sem aldrei myndi koma til framkvæmdar, og tel jeg því happ, að ekki var frekar á þá hugmynd treyst.

Þess vegna varð það eina úrræðið, þegar fram undir áramót kom, að stjórnin sá ekki aðra leið færa en að tengja saman þessi tvö skip, Sterling og Suðurland, eftir því, sem hún hafði fjárráð, og framkvæma strandferðirnar með þeim eins og unt væri. Jeg get ekki sjeð, að stjórnin hafi gert nokkuð rangt í þessu efni eða haft önnur ráð fyrir hendi. Og jeg er ekki farinn að koma auga á, að hentugra skip hafi verið hægt að fá í Suðurlandsferðirnar, eins og ástandið var þá, þó að jeg hins vegar geti játað það, að betra hefði verið að hafa tvö strandferðaskip. eins og Austra og Vestra forðum. En það hefir enginn heldur bent á, að slíkt tækifari hafi verið fyrir hendi, svo að þetta skraf fram og aftur er því tilgangslaust.

Háttv. frsm. samgmn. (Þorst. J.) áleit, að heppilegra hefði verið að láta samninga þessa dragast fram á þing, en jeg álít, að það hefði ekki verið forsvaranlegt, og að ekki hefði verið minni ástæða til að sakfella stjórnina fyrir aðgerðaleysi, hefði hún geymt alt til þessara tíma. Það er altaf hægra að tala um glappaskotin á eftir heldur en að segja fyrirfram um þau. Og jeg kannast við, að nú horfir öðruvísi við en í nóvember um skipakost. Jeg er hræddur um, að óánægja almennings um skipaferðirnar stafi meðal annars af því, að mönnum hættir við að heimta altof marga fastbundna viðkomustaði. Engin skipaútgerð stenst það, að allir togi totann og heimti nýja og nýja viðkomustaði, enda sýna skýrslur og reikningsskil þessara útgerða, að þær tapa á rekstrinum, og það eingöngu vegna þessara mörgu viðkomustaða, þar sem lítið eða ekkert er að gera. Að minni hyggju mun besta ráðið og happadrýgsta að hafa viðkomustaðina fáa fastákveðna, en gefa skipunum tíma til þess að fara aukaferðir, þegar flutningsþörfin kallar. Flutningsþörfin sker þá úr, hvernig rjettast sje að ákveða viðkomustaðina.

Viðvíkjandi Hornafjarðarbátnum er það að segja, að á Hornafirði er slæm höfn, og munu því ferðir þangað lítt trygðar með bát þeim, sem fer þar á milli og Skála á Langanesi. Á Hornafirði er að byrja útvegur nokkur, og honum því nauðsynlegt að ná til Austfjarðahafnanna, einkum að vorinu, þangað sem millilandaskipin koma við. En eigi bátur að fara alla leiðina frá Hornafirði til Langaness, verður hann annað tveggja að litlum notum fyrir Hornafjörð, eða of stór og dýr.

Þá er það vilyrði stjórnarinnar viðvíkjandi styrk til vetrarferða handa Breiðafjarðarbátnum Svan. Umsókn barst mjer, þar sem farið var fram á styrk til þess að gera Svan út til aukaferða í vetur, og átti hann að flytja vörur til Breiðafjarðar og Snæfellsness, en ekki farið fram á við mig, hvorki að gera samning nje ákveða neina upphæð. Það er kunnugt, að í fyrravetur hafði stj. Svan á leigu, og varð gott gagn að, þótt ekki gengi alt að óskum. Og mjer er sagt, að báturinn hafi borið sig betur næstliðið ár, einmitt fyrir þetta. Mig langaði því til að hlaupa undir bagga í þessu efni, en þurfti að fá tryggingu fyrir því, að brýn þörf væri á flutningum þessum, vegna hjeraðanna þar vestur frá, en það sæist best á því, að hjeruðin vildu leggja fje fram úr sýslusjóði, á móti tillagi frá landssjóði. Símaði jeg svo til sýslumannsins í Snæfellsnessýslu, að stjórnin vildi veita helmingsstyrk á móti hjeruðunum til þessara flutninga, en sýslumaður þorði ekki að ákveða sig til þess, og fórst þá fyrir að tala um þetta við sýslumanninn í Dalasýslu. Nú hafði jeg raunar enga fjárheimild í þessu skyni, og varð þá mál þetta að bíða þings.

Viðvíkjandi brtt. samgmn., þá hefði jeg heldur kosið, að þær hefðu ekki komið til atkv. nú. Jeg er ekki búinn að taka afstöðu til þeirra, þótt það megi kannske skömm kallast, en þessi glundroði og stímabrak síðustu dagana hafa þó tafið mig svo, að jeg hefi ekki haft tíma til að átta mig ennþá á þessu.

Viðvíkjandi styrknum til Eimskipafjelagsins, þá er þess að geta, að jeg tel hann viðsjárverðan, vegna þess, að það er fjelaginu í skaða að bindast þeim skilyrðum, sem þar eru á bak við. En það, að skipið fengist nokkrar ferðir kringum land, með viðkomu á öllum helstu höfnunum, er afarmikil bót.

Jeg býst nú við að greiða atkv. með brtt. samgmn. í þetta sinn, en komi brtt. við 3. umr., sem mjer falli betur í geð, er jeg ekki bundinn við mitt atkvæði í þetta sinn.