02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jakob Möller:

Jeg get lofað því strax, að lengja ekki mjög umræður þessar, sem mjer finst, að þegar hafi staðið nógu lengi. Það eru aðeins tvö atriði, sem mjer finst, að jeg geti ekki komist hjá að minnast svolítið á. Og er þá fyrst það, að jeg get ekki látið mjer liggja í eins ljettu rúmi og mörgum háttv. þm. virðist gera, hvort starfsmönnum ríkisins sje gert rangt til eða ekki.

Jeg get ekki betur sjeð en að mál stöðvarstjórans í Vestmannaeyjum s.je, sannast að segja, hreinasta hneykslismál. Jeg hefi verið að bíða eftir því, að eitthvað það mundi fram koma í umr., sem rjettlætti það, hvernig farið hefir verið með þennan mann, en svörin hafa verið ýmist út í hött eða þá í beinni vitleysu, svo að furðu sætir. Aðalástæðan er sú, að orðið hafi að segja manninum upp starfa sínum vegna þess, að hann hafi ekki verið fær um að veita forstöðu loftskeytastöð í Vestmannaeyjum. Þetta hefði nú að vissu leyti getað talist ástæða, ef svo undarlega stæði ekki á, að það er engin loftskeytastöð í Vestmannaeyjum, svo þessi ástæða fellur um sjálfa sig. En nú vill svo til, að mjer er mál þetta talsvert kunnugt, og af skjölum, sem jeg hefi sjeð viðvíkjandi manni þessum, þá sje jeg, að þessi starfsmaður ríkisins hefir átt við mjög bág kjör að búa frá því fyrsta, og þó að hann hafi farið fram á að fá þau bætt, hefir stjórnin hummað það fram af sjer og þóst í því efni fara algerlega eftir tillögum landssímastjóra. Að lokum neyðist maður þessi svo til að segja upp stöðunni og hefir þá um leið fyrirheit landssímastjóra um 10 þús. kr. uppbót. Jeg verð nú að halda því fram, að maður þessi hafi haft fulla ástæðu til þess að treysta því, að stjórnin hjeldi sig við þessa skuldbindingu landssímastjórans, þessar 10 þús. kr. skaðabætur, þar sem stjórnin hafði margsinnis lýst því yfir við hann, að hún færi algerlega eftir því, sem landssímastjóri legði til um launakjör starfsmanna símans. Þess vegna verð jeg að álykta sem svo, að stöðvarstjóranum beri ekki aðeins þessar 5 þús. kr., heldur eigi stjórnin að gjalda honum þessa lofuðu upphæð — 10,000 kr.

Það virðist ljóst, að landssímastjóri hefir, af einhverjum ástæðum, viljað losna við þennan mann, en af hverju, það veit jeg ekki, og því fæst heldur ekki svarað, hvernig sem stjórnin er um það spurð. Og ekki virðist hann hafa verið ósanngjarn í kröfum sínum, eða þær ekki verið á rökum bygðar, því að undir eins og annar stöðvarstjóri kemur, hækka útgjöldin að miklum mun við landssímastöðina í Vestmannaeyjum. Þetta er alt saman svo óhreint, að furðu sætir, að slíkt skuli hafa átt sjer stað um opinberan starfsmann ríkisins. En þó að þessi starfsmaður hafi nú verið flæmdur burt úr þjónustu ríkisins, þá liggur þó frammi vottorð landssímastjóra, sem segir, að maðurinn hafi staðið vel í stöðu sinni og rækt starf sitt óaðfinnanlega, og jeg hefi enga ástæðu til að ætla, að vottorð þetta sje gefið gegn betri vitund. Nei, jeg verð að ganga út frá því, að vottorðið sje í alla staði rjett, en að manninum hafi verið bolað frá stöðu sinni af einhverjum öðrum ástæðum, og það vil jeg fá sjerstaklega upplýst.

Ef þetta skyldi vera sprottið af rógi og illvilja einstakra manna, þá er það illa farið og má ekki vera óátalið. Á hinn bóginn get jeg ekki skilið, að ekki megi komast sómasamlega frá þessu máli, t. d. með því að veita honum þennan starfa aftur, sem jeg tel að mörgu leyti sjálfsagt, og ekki síst ef það skyldi sannast, að hann hafi verið gabbaður til að segja stöðunni lausri. Annars er það tæplega sæmandi, hvernig sem á mál þetta er litið, annað en að láta sjer farast þann veg, að gera vel við þennan mann og sinna þessari málaleitun hans.

Jeg drap á í upphafi, að atriðin væru tvö, er jeg vildi athuga, og sje ekki ástæðu til að ræða um seinna atriðið undir rós, eins og sumir háttv. þm. hafa gert. Það er 7. gr. fjáraukalaganna. Þar liggur fyrir fjárveiting, sem stjórnin hefir gert upp á sitt eindæmi og vel vitandi það, að engin lög heimila henni slíka greiðslu. Þetta er svo mikil óhæfa, að það má ekki mótmælalaust uppi haldast. Þingið hefir nýlega numið úr lögum rjett ráðherra til eftirlauna, og því er það ekki sæmandi, að stjórnin brjóti í bág við þann skýra vilja þings og þjóðar við fyrsta tækifæri. Jeg skal taka það fram, að jeg segi þetta alls ekki af kala til þess manns, sem hjer á hlut að máli, heldur vegna þess, að þetta stefnir inn á þá braut, sem búið var að fordæma. Haldist það uppi, að þessi maður fái ráðherraeftirlaun, þá hljóta hinir líka að koma á eftir, sem nú gegna embættunum, þegar þeir láta af ráðherradómnum. Og getur því þetta orðið talsverð upphæð, ef skift verður um þessa þríhöfðuðu á hverju löggjafarþingi. Nei, jeg verð að taka það fram að endingu, að þetta fordæmi, sem 7. gr. nefnir, er í alla staði afleitt, og það er ómögulegt að líta öðruvísi á þetta mál en að hjer sje um hreint og beint gerræði að ræða hjá stjórninni, og að hún hafi í algerðu heimildarleysi borgað þetta fje út. enda þótt hún hafi verið á fundum fjvn. annarar deildarinnar og fengið vilyrði hennar fyrir þessu.

Að svo mæltu sje jeg ekki ástæðu til að fara út í hinar einstöku brtt., sem liggja hjer fyrir, og læt mjer nægja að sýna afstöðu mína til þeirra við atkvgr.