02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (M. G.):

Það er út af stöðvarstjóranum í Vestmannaeyjum, að jeg tek til máls. Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði, að hjer væri eflaust um hneykslismál að ræða. Þetta held jeg nú ekki, en úr því að þessi getsök hefir verið sett hjer fram, finst mjer enn minni ástæða til fyrir þingið að afgreiða þetta mál á þann hátt, sem háttv. fjvn. leggur til. Mjer finst rjettast að láta rannsaka það og dómstólana skera úr, svo það komi í ljós, hvort þessi maður hefir nokkru ranglæti varið beittur. Því að jeg tel það nokkuð fljótlega að farið, að dæma landssímastjóra áður en hann hefir fengið tækifæri til að segja nokkuð til upplýsinga í málinu, þar sem venjulegt er, að báðir málspartar fái að gefa skýrslu. Jeg veit, að stöðvarstjórinn er óánægður, og til þess hefir hann kannske einhverja ástæðu. En samskonar kröfu og þetta geta án efa mýmargir opinberir starfsmenn komið með. Og þó að stjórnin hafi lofað að mæla með einhverri uppbót, þá er hún ekki bundin af því loforði, því að það er annað að borga stóra uppbót fyrir mörg ár heldur en ofurlitla uppbót árlega. En ef það sannast, þegar málið er rannsakað að þessi maður eigi lagalega kröfu á uppbót á launum sínum, umfram aðra starfsmenn ríkisins, þá er auðvitað rjett að bæta það upp. Jeg get tekið það fram, að jeg er ekkert hræddur við, þó að mál þetta verði rannsakað, því að jeg hefi ekkert rangt gert manni þessum, og hið sama held jeg, að allir í stjórninni geti sagt. Það er því ekki rjett, að þetta geti verið vöndur á stjórnina. Jeg er hræddur um, að ýms skjöl liggi hjá stjórninni, sem fjvn. hefir ekki sjeð, og betra væri að athuga, áður en úrskurður yrði feldur.

Hv. frsm. (M. P.) sagði, að enga reglu væri að finna í 18. gr. fjárl. um eftirlaun ekkna. Þetta er ekki rjett. Engin ekkja á, lögum samkv., að hafa meir en 1200 kr. eftirlaun, og aðeins ein ekkja á landinu hefir komist svo hátt. En hjer á alt í einu að fara upp í 2400 kr., auk uppbótar. Þetta kalla jeg gífurlegt brot á reglunni, og vil ekki sætta mig við það.