02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Magnús Kristjánsson:

Sumum hv. þm. hefir orðið tíðrætt um brtt. á þskj. 181, þó sjerstaklega C-liðinn. Og mig furðar alls ekki á því, vegna þess, að það er full þörf á að bæta úr flutningsþörfinni. En mjer finst, að brtt. sje dálítið misskilin, því að þótt þörf sje á að bæta úr þessu, þá er ekki þar með sagt, að þeirri þörf sje fullnægt. Það er þá fyrst að líta á. hvort kemur að meira gagni að skifta þeirri fjárveitingu, sem hjer er um að ræða, á milli margra, eins og að undanförnu, eða ekki. Jeg mun aðhyllast hið síðarnefnda, þótt það sje ljóst, að það bæti ekki fullkomlega úr þörfinni, þareð hin stærri skip koma ekki nema á helstu hafnirnar, eða á þær hafnir, sem nægur flutningur fæst til, en aftur á móti mótorskip eru þægilegri til að koma á hinar minni hafnir og flytja þangað og þaðan fólk og flutning, sem ekki mundi borga sig fyrir stærri skip að flytja.

Ef tillagan um styrkveiting til h.f. Eimskipafjelags Íslands verður feld, sje jeg mig nauðbeygðan til að koma fram með brtt. um styrk til bátaferða á Norðurlandi. Þörfin er brýn þar, ekki síður en víða annarsstaðar.

Það hafa komið fram tillögur um styrkveitingu handa öllum landsfjórðungunum, að undanteknu Norðurlandi. En það þýðir ekki að fara fram á minna en 25–30 þús. kr., og er þá ósjeð, hvort mikið vinst við að fella styrkinn til Goðafoss.

Þá skal jeg víkja að öðru máli, þó þess sje ef til vill ekki brýn nauðsyn. Jeg álít, að það hefði verið skaðlaust, þótt niðurlag ræðu háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) hefði ekki komið fram. Jeg álít ummæli hans bæði ómakleg og illa viðeigandi. Þau voru ómakleg í minn garð, því að hann gerði mjer upp orð, er jeg hafði aldrei talað, og dró svo ályktanir út af þeim. Og þau eru óviðeigandi með tilliti til hlutaðeiganda, vegna þess, að svo gat litið út sem hjer væri um einhvern þurfamannastyrk að ræða, en jeg vona að orð hans hafi ekki mikil áhrif. því að annars gæti litið svo út sem þingið vildi ekki sýna þessum látna merkismanni neinn sóma.

Þá verð jeg aðeins að drepa á ummæli háttv. frsm. fjvn. (M. P.) í gær. Hann virtist misvirða það við mig, að jeg dró það í efa, að hann væri sjálfkjörinn forgöngumaður heilbrigðismálanna, eftir því sem fram kom viðvíkjandi tillögunni um styrk til sjúkrahússins á Akureyri. Þetta voru enn meiri vonbrigði fyrir mig, er jeg mintist þess, sem hann ljet í ljós eldhúsdaginn, sem sje, að hann fann hæstv. stjórn það mest til foráttu, að hún hefði ekki komið fram með neinar hugsjónir. Menn gátu því vænst þess, að háttv. þm. (M. P.) hefði sjálfur einhverjar hugsjónir til að bæta úr heilbrigðisástandinu, og til þess að liðsinna þeim, sem mest eru hjálparþurfa. nefnilega sjúklingunum. En þeirra virðist lítið vart, er maður minnist ummæla hans í gær, að betur hefði verið, ef sjúkrahúsið væri ekki til. (M. P.: Sagði það ekki).En jeg álít það mikið lán fyrir alla, að því varð komið í framkvæmd áður en þessir óhagstæðu tímar skullu á.

Hjer er ekki farið fram á 1/3 af stofnkostnaði, ekki einu sinni 1/6 og hjer því um mikið vægari kröfu að ræða en það, sem háttv. frsm. (M. P.) þykist vilja byggja grundvallarreglu sína á. Þess vegna er mjer framkoma hans alveg óskiljanleg.

Í stuttu máli, sjúkrahúsið er upp komið, án þess að njóta styrks, eins og öðrum sjúkrahúsum er þó veittur, og þareð það hefir ekki notið hlutfallslegs styrks við aðrar samskonar stofnanir, þá vona jeg að ekki verði klipið af þessari litlu fjárveitingu, sem sannarlega má ekki minni vera.