02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Þorleifur Guðmundsson:

Mig furðar á því, hve háttv. þm. hafa enst til að tala lengi. Hingað til hefi jeg hlustað á og ekki tekið til máls, en jeg finn mig þó loks knúðan til að gefa orð í belg, vegna þess, að mitt álit er ekki eins og annara háttv. þm. hjer.

Jeg verð þá fyrst að minnast á uppbót á launum stöðvarstjórans í Vestmannaeyjum. Jeg verð að játa, að jeg er ekki fær um að dæma um mál þetta, og jeg hygg, að svo muni vera um fleiri, af þeirri mjög svo einföldu ástæðu, að hjer liggja engin gögn fyrir, er geta upplýst mál þetta. Ef deildin færi nú að samþykkja þetta, þá væri það algerlega út í loftið. Við þekkjum þetta ekki nógu ítarlega. Og þótt landssímastjórinn mæli með þessu, þá eru samt engar gildar sannanir fyrir hendi, að maðurinn sje starfinu vaxinn, og það geta verið ýmsar ástæður, er sýni, að maðurinn sje algerlega óhæfur til starfsins. Af þessum ástæðum krefst jeg upplýsinga um málið. Hvað viðvíkur styrknum til Sveinbj. Egilssonar, þá skil jeg ekki hvernig nokkur getur haft á móti jafn rjettmætri beiðni og að veita þessa upphæð til fræðslu handa sjómannastjettinni. Og mig furðar stórlega á því, að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) skyldi geta látið sjer slíkt um munn fara, að það eigi ekki að eiga sjer stað, að 300 kr. sjeu veittar fyrir 8 eða 12 fyrirlestra.

Jeg fæ ekki sjeð, að það sje nein nauðsyn á að veita fræðslumálastjóra 1200 kr. í skrifstofukostnað. Jeg tel það algerlega óþarft, og mæli fastlega á móti því. Það er engin ástæða til að setja skrifstofu á skrifstofu ofan, og þar af leiðandi skrifstofukostnað við skrifstofukostnað. Slíkt get jeg ekki þolað, að gangi ómótmælt gegnum deildina. Við verðum að gá að því, að við erum ekki hjer saman komnir til að skifta ríkissjóði niður á skrifstofur landsins. Það er auk þess athugandi, hvort ekki er unt að sameina þetta embætti öðru embætti, t. d. biskupsembættinu. því að jeg álít sanngjarnt að krefjast þess, að biskup sje leiðtogi landsmanna í fræðslumálum. Jeg álít, að ef hjer á að vera biskup, þá eigi hann einnig að vera fræðslumálastjóri, en ef hann getur ekki verið fræðslumálastjóri, þá eigi fræðslumálastjóri að geta verið biskup.

Um styrkveitinguna til námsmanna þýðir víst ekki að fjölyrða. Jeg álít að vísu, að ýmislegt mæli með því að styrkja þessa verkfræðinema til þess að ljúka námi. Verkfræðinemar eiga erfiðara aðstöðu en aðrir námsmenn, vegna þess, að þeir verða að verja alllöngum tíma til undirbúnings undir starf sitt, eftir að þeir hafa lokið prófi, þar sem aðrir námsmenn geta sest í embætti strax að afloknu prófi.

Þá kemur einn, sem sækir um styrk til að læra leikfimi. Það kann að vera, að sumum virðist nauðsynlegt að leggja mikla stund á að kenna þjóðinni þessar líkamsæfingar, til þess að herða og hreyfa líkamann. En jeg álít þetta alls ekki nauðsynlegt. Nauðsynlegasta og um leið hollasta og þarfasta hreyfing hvers manns er að vinna líkamlega vinnu. Og jeg álít þessar líkamsæfingar, sem nú er farið að tíðka svo mjög, útúrsnúning frá náttúrunni. Því að ef menn aðeins vinna líkamlega vinnu, þurfa menn ekki þessar líkamsæfingar, þessi hlaup og stökk, sem engum eru til gagns.

Um styrkinn til ekkju Matthíasar Jochumssonar vil jeg geta þess, að jeg álít sjálfsagt að veita hann, þótt hann sje nokkuð hár. Hjer er um mikilmenni að ræða, sem hefir unnið þessari þjóð ómetanlegt gagn og sóma. (Margir þm: Hann fær ekki þetta fje, hann er dáinn). Þjer segið, að hann fái ekki þennan styrk af því að hann sje liðinn. En það eru verk hans, minning hans, sem hjer er verið að verðlauna. Og það er aðeins vegna skáldsins Matthíasar Jochumssonar, sem lifir þótt hann sje dáinn, sem jeg er með þessari styrkveitingu, en ekki vegna ekkju hans.

Þá skal jeg geta þess, að jeg get ekki kingt 7. lið 4. gr. í fjáraukalögunum sjálfum. Það er uppbót til fyrverandi Hólaskólastjóra fyrir ýmsar bætur á jörðinni Hólum og búpeningi ríkissjóðs þar, að upphæð kr. 19,703,24. Þessi upphæð er há, og jeg skil satt að segja ekki í henni. Verð jeg því að fá ábyggilegri upplýsingar uni rjettmæti þessarar fjárveitingar, áður en jeg greiði henni atkv.

Jeg er sammála háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) um eftirlaun til fyrverandi ráðherra Sigurðar Jónssonar. Jeg gæti gengið inn á að veita honum heiðurslaun, t. d. 2–3000 kr., ekki af því að hann hafi verið ráðherra, heldur vegna þess, að hann hefir verið nýtur maður í þjóðfjelaginu. En jeg álít það ranglátt að veita honum svona mikið eins og hjer er farið fram á. Álít það ranglæti við þjóðina, sem við erum að vinna fyrir, þegar við þingmennirnir veitum hver öðrum stórar fjárhæðir, en vitum, að það eru margir utan þessa þings, sem bæði þarfnast styrks og hafa unnið fyrir honum. Og við getum ekki blygðunarlaust skift ríkissjóði upp, bara upp á kunningsskap. Og það er ómögulegt fyrir þjóðina að rísa undir þeirri eftirlaunafúlgu, sem skapast, ef fyrverandi ráðherrar komast allir á sömu eftirlaun og hjer er farið fram á. Að síðustu skal jeg geta þess, að jeg er gersamlega mótfallinn dýrtíðaruppbótinni til ráðherranna. Jeg álít þessa fjárveitingu alls ekki nauðsynlega, vegna þess, fyrst og fremst, að hjer fást nógu margir til að vera ráðherrar, nógu margir, sem treysta sjálfum sjer til þess. En það stendur á öðru, því, að meiri hluti Alþingis treystir þeim ekki til þess. (Hlátur). Og svo, þegar þeir eru komnir upp í ráðherrastólana, þá er ómögulegt, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að nudda þeim úr þessum sætum aftur, svo þeir virðast ekki vera kvaldir. (Almennur hlátur).