02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Mjer finst jeg eiga kröfu til stuttrar athugasemdar, eigi síður en aðrir þm., þegar þm. ráðast að till., eftir að frsm. hefir lokið máli sínu. Skal jeg vera mjög fáorður. Jeg get slept háttv. þm. Ak. (VI. K.). Aðeins vil jeg segja honum það, án þess að bera af mjer neinar sakir, að jeg hefi ekki talið mig, og tel mig ekki, neinn forsvarsmann heilbrigðismála þessa lands. Yfirmaður heilbrigðismálanna, landlæknirinn, er einmitt sammála minni till. Háttv. þm. Ak. (M. K.) kvað mig hafa sagt, að ekkert hefði verið gert við sjúkrahúsið á Akureyri. Þetta er ekki rjett. Jeg sagði einungis, að mjög leitt væri, að þessi aðgerð hefði verið framkvæmd, sem er lakari en ekki neitt. Og jeg veit, að hjeraðslæknirinn á Akureyri er mjer sammála og er mjög óánægður með þessa viðgerð á sjúkrahúsinu.

Þá skal jeg snúa mjer að háttv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.). Hann gerði það, sem aðrir hafa ekki gert hjer í dag, hann kom öllum til að hlæja, svo þess vegna er máske ekki ástæða til að ræða alvarlega við háttv. þm. (Þorl. G.) nje fást við að mótmæla því, sem hann sagði.

Jeg vil þó bera af mjer þær ásakanir, sem í orðum hans fólust, að enginn, sem hefði sómatilfinningu, gæti greitt atkv. með uppbótinni til stöðvarstjórans í Vestmannaeyjum. í þessu máli liggja fyrir gögn og upplýsingar, sem nefndin hefir athugað, og því var það rangt hjá hv. þm. (Þorl. G.), að ekki væri hægt að greiða atkv. um þessa fjárveitingu vegna þess, að engar upplýsingar í því væru fyrir hendi. Og þótt jeg sje ekki stuðningsmaður stjórnarinnar, þá get jeg sagt það, að sá ráðh., sem er meðmæltur þessari fjárveitingu, hefir sómatilfinningu fullkomlega á borð við 2. þm. Árn. (Þorl. G.). Háttv. þm. (Þorl. G.) sagði, að verið væri að demba skrifstofukostnaði ofan á laun embættismanna með þessari fjárv. til fræðslumálastjóra.

En hvernig á að fara að, þegar aðrir embættismenn hafa haft skrifstofufje, en haft þó minni skrifstofustörfum að gegna en þessi embættismaður?

Jeg fer ekki út í hinu heilsufræðilega fyrirlestur þm. (Þorl. G.) viðvíkjandi íþróttakenslunni, sem jeg býst við að mörgum hafi þótt fróðlegur á sína vísu.

Um 7. lið 4. gr. sagði þm. (Þorl. G.) að hann gæti ekki kingt honum. Hann verður nú að kingja honum samt, úr því að hann hefir ekki komið með brtt. við liðinn.

Og jeg verð að telja það í mesta máta óviðeigandi, þegar þm. eru ekki búnir að átta sig á till. þeim, er fyrir liggja, eftir að þær hafa legið frammi lögmæltan tíma og síðan verið ræddar í tvo daga, og eru svo að tala um að hrúga inn brtt. við 3. umr. málsins.