12.04.1921
Neðri deild: 41. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. samgmn. (Þorsteinn Jónsson):

Hjer liggur að eins fyrir ein brtt. frá samgmn. Stefna hennar brýtur mjög í bága við stefnu fjvn. Hún ber fram margar till. um auknar fjárveitingar, en þessi eina brtt. frá samgmn. fer í gagnstæða átt. Hún er um það að lækka styrkinn til mótorbátsferða frá Hornafirði.

Nefndin sá sjer alls ekki fært að mæla með meiri styrk til flóabáta heldur en samþykt var hjer við 2. umr. Hún hefir síðan tekið til athugunar till. þá, sem samþ. var hjer við 2. umr. um 15 þús. kr. styrk til bátaferða milli Hornafjarðar og Seyðisfjarðar. Og hún lítur svo á, að þessi styrkur sje eingöngu veittur vegna Hornafjarðar, því samgöngur í Suður-Múlasýslu mega teljast sæmilegar. í samanburði við aðra landshluta.

Samgmn. leit því svo á, að það væri ekki rjett, að Hornfirðingar einir fengju svo háan styrk. Hins vegar taldi nefndin rjett, að Hornfirðingar fengju einhvern styrk, og að slíkar bátsferðir yrðu þá settar í samband við ferðir Goðafoss og Sterlings, og mætti hann þá koma á færri hafnir. Ætti þá báturinn einkum að vera til þess að taka vörur, sem þessi skip settu upp á hafnir í S.-Múlasýslu, en sem ættu að fara til Hornafjarðar. En slíkum vörum ætti aldrei að þurfa að skipa í land á Seyðisfirði, heldur á höfnunum sunnar, og því taldi nefndin nægilegt, að báturinn gengi að eins til Fáskrúðsfjarðar eða Eskifjarðar, eða jafnvel aðeins til Djúpavogs, alt eftir því, hvar best hentaði að skipa þessum vörum í land í það og það skifti.

Þótt samgmn. líti svo á, að samgöngurnar sjeu langt frá því að vera fullnægjandi, þá gat hún þó ekki gengið lengra í till. sínum, af sparnaðarástæðum. Hún sá, að ef hún ætti að leggja til, að þessi Hornafjarðarbátur yrði styrktur svona mikið, þá yrði einnig að styrkja bát frá Seyðisfirði til Langaness, flóabát fyrir Norðurlandi o. fl. En nefndin sá sjer alls ekki fært að leggja slíkt til.

Viðvíkjandi brtt. frá einstökum þingmönnum um styrk til strandferða. þá hefir nefndin aðeins getað rætt brtt. á þskj. 281, inn mótorbátsferðir milli Reykjavíkur og kauptúnanna í Árnessýslu.

Fyrir 2. umr. tók nefndin þá till. til athugunar, en gat þá ekki mælt með henni, og ekki frekar nú. Því ef hún mælir fram með þessari brtt., koma aðrar fleiri, er hún þá þarf að taka til greina.

Um brtt. á þskj. 244 hefir nefndin ekki tekið neina ákvörðun, en jeg sje ekki, að athugasemd tillögumanns við styrkveitinguna sje þess eðlis, að hún varði miklu.

Þá kemur brtt. á þskj. 293, þar sem tillögumenn vilja fá 10 þús. kr. styrk til ferða milli Reykjavíkur annars vegar og Borgarness og Hvalfjarðar hins vegar.

Það mun vera meining þeirra, að þetta fje verði veitt til aukaferða „Skjaldar“ og „Suðurlands“. Samgöngumálanefnd lítur nú svo á, að styrkurinn til Suðurlands sje þegar orðinn svo hár, að ekki megi hækka hann, hefir hún reiknað út, að þótt Suðurland sigldi ávalt með fullfermi allar áætlunarferðirnar, þá mundi styrkurinn þó nema 100 kr. á hverja smálest. Og er það hærri styrkur en venja er að veita úr ríkissjóði til flutninga. Ef Vestfirðingum hefði verið veittur þessi styrkur og þeir hefðu mátt sjálfir ráða yfir honum, þá mundu þeir hafa getað flutt til sín vörur án þess að gjalda einu sinni 100 kr. fyrir smálestina. Þeir hefðu líklega getað fengið smálestina flutta frá Reykjavík fyrir 40 kr., og hefðu þá getað lagt hjá sjer 60 kr. fyrir hverja smálest, eða samtals 75 þús. kr. Jeg vona, að hv. deild sjái með þessu, hvað þessar ferðir Suðurlands eru dýru verði keyptar, þótt stjórnin, því miður, sje búin að búa svo um hnútana, að engu verði um þokað. Samningar hafa ekki fengist við fjelagið um það að fækka Vestfjarðaferðunum, en sigla til Borgarness. En jeg vildi gjarna, að hv. flm. brtt. reyndu að komast að samningum við fjelagið um að fá Suðurland til að koma við í Borgarnesi. Og mun samgöngumálanefnd þá vera fús til að gefa eftir eina ferð skipsins til Vestfjarða. En þessari till. um 10 þús. krónur held jeg, að enginn nefndarmanna geti fylgt. En varatill. býst jeg við að sumir nefndarmenn verði fylgjandi.

Jeg held það sje svo ekki fleira, seni jeg þarf að taka fram fyrir hönd samgmn. að sinni.