12.04.1921
Neðri deild: 41. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Hákon Kristófersson:

Jeg hefi leyft mjer að koma hjer fram með brtt. á þskj. 242. Að vísu skildist mjer á hv. frsm. fjvn. (M. P.), að það væri ósvinna að koma fram með slíka till. En jeg lít öðrum augum á það mál, og ber engan kinnroða fyrir að hafa borið till. hjer fram.

Fyrir nokkrum árum var allmikill áhugi fyrir því í þinginu að afnema ráðherraeftirlaun. Og var svo gert. Síðan mun það alment vera álitið, að þó ráðherraskifti verði í landinu, þá eigi þeir, sem frá fara, ekki eftirlaun að fá. En þetta er nokkuð öðruvísi í raun og veru.

Stjórnin hefir nú tekið upp í fjáraukalögin eftirlaun til Sigurðar Jónssonar fyrverandi ráðherra. Mun hún hafa haft til þess samþykki fjvn. þingsins. En þó er grunur minn, að ekki hafi öll fjvn. verið þar á einu máli. Og styðst jeg þar við orð eins manns þaðan.

Jeg skal strax taka það fram, að með tilliti til þessa sæmdarmanns, þá þykir mjer leitt að þurfa að koma fram með þessa till.

En jeg finn mig knúðan til að gera þetta vegna fordæmisins. Þetta má ekki verða regla. Ef þessi eftirlaun verða samþ. nú, þá býst jeg við því, að þegar hæstv. atvrh., sem nú situr, fer frá, þá fái hann líka eftirlaun. Enda væri annað tæplega rjett, ef háttv. Alþingi fer nú inn á þessa braut.

Háttv. frsm. fjvn. (M. P.) sagði, að mikils hefði þótt við þurfa, að koma með þrjár till. um þetta. Jeg get nú ekki tekið þessi orð hans til mín. Jeg ber ekki ábyrgð nema á minni till. að eins, hinar till. koma mjer ekkert við. Mín till. er algerlega sjálfstæð, og það er alls ekki rjett að blanda henni saman við hinar till.

Hvað sem hv. frsm. (M. P.) segir um þetta. þá vona jeg, að ef mín tillaga verður samþykt, þá sje ekki hægt annað að segja en manni þessum sje sýnd fullkomin sanngirni, með því að veita honum í eitt skifti fyrir öll 10 þús. kr. Tillöguna hefi jeg borið fram af því, að mjer fanst það ekki geta komið til mála að taka mann þennan á árleg eftirlaun. Aftur á móti lít jeg svo á, að með till. sje honum bættur upp sá halli, er hann kann að hafa haft af því að verða að hverfa frá búi sínu og setjast hjer að. Og jafnframt álít jeg mig hafa tekið tillit til þess, að hann gegndi um skeið trúverðugri stöðu, og þess vegna bæri að sýna honum einhverja viðurkenningu í eitt skifti fyrir öll, en alls ekki að taka hann á árleg eftirlaun. Því tel jeg hann alls ekki hafa unnið fyrir, frekar en svo margir aðrir, er engin eftirlaun fá.

Háttv. frsm. (M. P.) benti á það, að búið væri að borga upphæðina. En hvernig ætlast hann þá til, að stjórnin greiði hana; jeg býst ekki við, að búið sje að borga meira en 10 þús. kr.; en ef stjórnin hefir gert það, verður hún að sjá um það. En jeg hygg, að það sje undir 10 þús. kr., er honum er þegar greitt.

Háttv. frsm. (M. P.) spurði, hvort tillögumaður vildi ekki taka tillöguna aftur til samkomulags, en jeg held fast fram minni tillögu og æski nafnakalls um hana, því að jeg vildi vita, hverjir hv. deildarmenn vilja ganga á svig við gildandi lög.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um tillöguna að sinni, enda þarf hún ekki frekari skýringar við, en legg það á vald hv. deildar, hvort hún nær samþykki. En eins og jeg hefi þegar tekið fram, þá vil jeg, að það komi skýrt fram, hverjir það eru, sem álíta sig hafa heimild til að fara svo með fje landsins, að kasta því í eftirlaun, og það til manna, er með lögum er ákveðið, að ekki skuli fá þau.